Nú árið er liðið....

Um ómunatíð hefur mannfólkið notað áramót til að líta yfir farin veg, vega og meta aðstæður og atburði og íhuga hvað mætti betur fara. Ég ætla að gera heiðarlega tilraun í eitt svona stykki um þjóðfélagsmálin og gang þeirra síðasta árið. Við vitum öll að þegar hér tók við ný ríkisstjórn voru loforðin mörg. Heimilin átti að vernda, eitthvað rámar mig í breytingar á fjármála og efnahagskerfi, smá endurskoðun á vinnuferlum og stjórnsýslu, afnám verðtryggingar og ýmislegt fleira sem gaf falleg loforð um nýtt Ísland.

Heimilin í landinu

Á þessu ári gerðist ekkert til að leiðrétta skuldir heimila landsins. 110% leiðin og frystingar lána eru bara liður í að ýta á undan sér vandamáli sem er svo stórt að engin virðist þora að eiga við það. Á meðan á frystingum stóð var ekki unnið að neinum raunverulegum lausnum á vanda lántakenda þessa lands. Staðan er því sú að eftir áramótin munu fara að hrynja inn vanskil hjá ÍLS og bönkunum þar sem fólk mun þurfa að fara að borga eða borða. Gjaldþrotum mun einnig fjölga svo um munar.  

Engin af fjórflokknum tók á verðtryggingunni þrátt fyrir fögur loforð þar um. Þetta ætti að sýna okkur kjósendum svart á hvítu að engin af fjórflokknum mun nokkurn tíma taka á þessu verðtryggingarvandamáli og ég vil biðja fólk að íhuga það fram að kosningum hvort það sé tilbúið að láta ljúga sig fullt aftur um þetta mál.
Verðtryggingin er hluti af efnahagslegu vandamáli sem hefði þurft að taka á en var ekki gert.

Ekki gerði ríkisstjórnin neitt í samráði við til dæmis ASÍ og SA til koma til móts við heimili landsins í formi kjarabóta fyrst að ekki voru fundnar raunverulegar lausnir á skuldavandanum. Þar hefði verið hægt að gera ýmislegt eins og til dæmis setja þak á verðhækkanir matvöru og svo framvegis. Þetta hefur verið gert áður og ætti að vera hægt aftur.
Þannig að þegar uppi er staðið var ekkert gert af viti fyrir heimili landsins á þessu ári heldur þó að hrunið sjálft hafi gefið alla möguleika á nýjum vinnuaðferðum og nálgunum.

Efnahags og fjármálakerfi 

Við hrunið sköpuðust aðstæður til að endurskoða efnahags og fjármálakerfi landsins frá grunni. Það var ekki gert og á árinu sem var að líða höfum við orðið enn oftar vitni að því að efnahagskerfið er úrelt og að fjármálakerfið er bara að fara í sama far og það var fyrir 2007. Það voru ekki settar harðari reglur eða skattar eða eftirlit.
Í raun stóð fjórflokkurinn bara vörð um kerfið eins og það var. Ýmis teikn eru á lofti um að þetta muni ekki ganga vel til lengdar. Vogunarsjóðir hafa of mikil ítök innan bankana og það er fátt sem ver okkur fyrir þeim til lengdar.
Eins og ég byrjaði að segja þá skapaðist tækifæri við hrunið til gagngerrar endurskoðunar á uppsetningu efnahags og fjármálakerfis okkar. Ef við lítum svo til Evrópu og USA sjáum við að vandi þeirra er svipaður og okkar. Fyrir mér þýðir það að þessi kerfi hafi runnið sitt æviskeið. Það er ekkert vont við það, öll kerfi hafa átt sinn líftíma í mannkynssögunni og það er ekkert undarlegt við að þetta kerfi sé orðið úrelt. Þetta er ekki fyrsta form efnahagskerfis í sögu mannsins og örugglega ekki það síðasta. 
Við ættum að fagna því að geta verið fólkið sem breytti og endurskoðaði kerfin í stað þess að vera hrædd við að taka skrefin. ég mun allavega fylgjast vel með því fram að kosningum hvaða flokkar koma með eitthvert raunverulegt útspil hvað þetta varðar. 

Stjórnsýsla

Ég ætla ekki að skrifa neitt hér heldur vísa bara í fyrri færslu hér . Þessi pistill segir allt sem mér finnst um stjórnsýsluna, alþingi og aðrar stofnanir landsins. Við þurftum að taka vel til í vinnuaðferðum og fleiru en það var aldrei gert. 

Atvinna og uppbygging hennar

Enn og aftur sköpuðust aðstæður við hrunið til að endurskoða marga hluti í sambandi við atvinnuuppbyggingu á landinu. Þegar ég flutti til landsins aftur eftir 16 ára veru erlendis, komst ég til dæmis að því að hér hafði í raun aldrei verið til nein atvinnuþróunar stefna til langframa. Hér virtist vera tekið á atvinnu-uppbyggingar vandamálum með því að ráðast í verkefni eins og Alcoa. Eitthvað sem er gert vegna hugmyndafæðilegs gjaldþrots í þessum málum.
Verkefni eins og Kárahnjúkar og Alcoa eru því miður í þeirri stærðargráðu að þau mynda efnahagslega bólu sem springur svo framan í okkur á endanum. 
Við erum lítið land og lítið efnahagskerfi og ættum að dreifa okkur á fleiri smærri verkefni sem auka tekjur okkar til langframa.

Tækifærin eru hér fjölmörg en þau hafa enn og aftur ekki verið nýtt sem skildi. Ísland er lítið land með mikla möguleika en það er okkar að taka höndum saman og nýta þá. Því miður hefur fjórflokkurinn enn og aftur sýnt fram á að hugmyndaflugið í þessum málum er um það bil ekkert.  

 Þegar litið er yfir sviðið er staðan í raun sú að eins og hin árin frá hruni, þá hefur þetta ár verið notað af hálfu stjórnmálamanna í að plástra á svöðusárið með litlum plástrum sem munu ekki stoppa neina blæðingu til langframa. Það er nauðsynlegt að endurhugsa hlutina frá grunni og taka aðrar nálganir á vandamálin. Við leysum þau ekki með sömu aðferðum og komu okkur í þau.

Að mínu mati eigum við alla von í heiminum en það er okkar kjósenda að ganga inn í þennan kosningavetur með mjög opin og gagnrýnan huga á það sem við sjáum og heyrum. Það erum við sem erum að fara að kjósa okkur starfsmenn til næstu fjögurra ára og það er okkar sem atvinnurekenda að ráða starfsmenn sem geta valdið starfinu. 

Ég óska ykkur gleði og farsældar á nýju ári flotta fólk. 

 


Kryddsíldin í (ekki) beinni.....

Mér barst til eyrna að Kryddsíldin yrði tekin upp 29. des. í stað þess að vera í beinni á gamlársdag. Satt best að segja trúði ég ekki að svo yrði en verð víst að gera það samt. Samkvæmt pistli Þórs Saaris hér var Kryddsíldin tekin upp í 29. des. 
Mér þykir þetta allt athyglisvert í meira lagi. Í fyrsta lagi finnst mér þjóðfélagið okkar vera komið á undarlegan stað þegar síldin fína er tekin upp fyrirfram í stað þess að vera í beinni útsendingu eins og vanalega. Einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að með því sé verið að reyna að koma í veg fyrir að hin sauðsvarti almúgi fari nú að koma og vera með einhvern uppsteyt og vitleysu þegar þessi fína samkoma er haldin. 

Mér finnst einnig athyglisvert að þeir þingmenn sem komu inn á þing uppúr búsáhaldabyltingunni skuli hafa mætt og tekið þátt í þessum leikþætti og farsa. Að þeir skuli hafa farið eftir leikreglum "gamla" Íslands í stað þess að fara bara í aðra fjölmiðla með þetta rugl og farsa.
Mér finnst skrýtið að þeir hafi ekki neitað að taka þátt í þessu og frekar auglýst farsann á snjáldurskinnu sinni og í fjölmiðlum svo að almenningur myndi vita af vitleysunni.
Það sem mér finnst samt undarlegast að Björt Framtíð og Dögun, virðast sem þau einu af fjölmörgum nýjum framboðum eiga rödd í þessari Kryddsíld.
Ég fyrir mitt leiti hélt að Kryddsíldin væri aðeins fyrir þá flokka sem eru á þingi og ekki flokka sem eru ekki komnir á þing. Kannski er þetta svo að þeir þingmenn sem hafa gengið úr Hreyfingu í Dögun og þeir sem hafa farið í Samfylkingu í Bjarta Framtíð séu að nýta sér svona aðstæður til ókeypis kosningaáróðurs.
 Einhvern veginn sit ég með óbragð í munni og hugsa um að Nýja Ísland muni aldrei verða ef að allir fara alltaf eftir leikreglum Gamla Íslands. Að við munum ekki komast úr sporunum í átt að heilbrigðara og réttlátara samfélags fyrir almenning ef að þetta heldur svona áfram.
Einhver verður að þora að standa fyrir almenning og heimilin alla leið og hingað til hef ég ekki séð marga gera það. Ef það verður ekki farið  að snúa við blaðinu og standa fast á því að vera ekki memm í leiknum og farsanum þá verður aldrei neitt Nýja Ísland.

Eftirmáli þessa alls var sá að ég skrifaði nokkra pósta í dag til að grennslast fyrir hvernig gat staðið á því að Björt Framtíð átti rödd í þessum þætti. Nota bene þætti sem hefur verið hefð fyrir að sé um stjórnmál líðandi stundar með þeim flokkum sem voru kosnir á þing. Guðmundi Steingríms. var sem sagt boðið að vera með vegna þess að hann situr á þingi fyrir flokk (Bjarta Framtíð) sem mælist með nægjanlegt fylgi í skoðanakönnunum til að koma manni inn á þing. Dögun átti svo rödd í Þór Saari Hreyfingar þingmanni. Er þetta þá ekki að verða kosninga þáttur? Óbragðið í munninum er einhvern veginn ekki minna núna en það var í morgunn.

Vinnustaðurinn Alþingi

Alþingi Íslendinga er vinnustaður 63ja þingmanna. Það er líka vinnustaður skrifstofufólks, aðstoðarmanna og annara sem hafa aðkomu að þessum vinnustað.
Mér þætti athyglisvert að sjá hvað kæmi út úr vinnustaðagreiningu á alþingi. Vinnustaðagreining er ágætis tæki til að kanna til dæmis innra starf, upplifun starfsmanna á vinnustað sínum, álag, yfirmenn og boðleiðir. Með slíkri greiningu er líka hægt að athuga starfánægju og anda, makrmið og almennt hvernig starfsmenn upplifa streitu, vinnuálag og fleira sem tengt er störfum þeirra á vinnustað. Reyndar tel ég bráðnauðsynlegt að gera slíka greiningu á þessum vinnustað.
Þau okkar sem hafa hreinlega misboðið sjálfum sér með því að stilla á alþingisrásina hafa orðið vitni að því hvernig biturð, einelti, reiði, kergja, ómálefnaleg umræða og durtsháttur hefur rutt sér rúms á þinginu okkar að svo miklu marki að trú okkar á þessari stofnun er í dag orðin nær engin. Við höfum horft á þingmenn láta eins og kjána eftir mesta efnahagshrun sem orðið hefur á landinu.
Við höfum horft upp á skotgrafarhernað fjórflokksins verða óbærilegan og við höfum skynjað að samvinna var aldrei markmið þeirra.
Sumir munu nú benda á að hin eiginlega vinna fer ekki fram í umræðum á alþingi heldur í nefndum og á skrifstofum utan umræðutíma. Þá vil ég benda á að það er fásinna að vera að eyða fé í leikrit sem heitir umræður um mál ef öll vinnan er nú þegar unnin á öðrum vettvangi.
Hvers vegna ættum við að vera að borga laun fyrir þras? Við gætum verið að fá mun meira fyrir peninginn með breytingum á umræðuferlinu í þeirri mynd sem það er eða hreinlega með því að leggja þær niður fyrst það er bara til að sýnast hvort eð er.
Ef alþingi væri einkafyrirtæki í rekstri þá myndu fáir vilja sækja um vinnu þar. Þetta er vinnustaður sem þrífst á neikvæðni og þrætum. Það vita allir sem einhvern tíma hafa unnið hjá svoleiðis fyrirtæki, að þar verður lítið úr verki, lausnarmiðun er um það bil engin og skilvirkni og markmiðasetning fara út um þúfur í neikvæðni, eiginhagsmunapoti og þrefi.
Það er mat mitt að það þarf að endurskipuleggja þennan vinnustað frá grunni. Það þarf að gera vinnustaðagreinigu þarna og það helst í gær. Það er ekki hægt annað en að endurskilgreina starfsemina og verkferlana frá grunni ef það á að gera þennan vinnustað skilvirkari á einhvern hátt.
Ég efast um að nokkuð af þessu muni gerast svo lengi sem fjórflokkurinn ræður ríkjum á alþingi okkar Íslendinga. Til þess að fara í þessa vinnu þarf nýtt blóð og nýja hugsun. Ég vona að okkur  almenningi beri gæfa til að upplifa það. Við berum öll ábyrgð á því að þessi vinnustaður sé viðunandi ekki bara fyrir þá sem starfa þar heldur líka fyrir okkur almenning sem ráðum þarna starfsfólk á fjögurra ára fresti.

Að lifa er ekki bara að anda
Með kveðju
Ásta Hafberg, Tunnusystir og blúnda með gaddabelti


Er Ísland fyrir venjulegt fólk ?

Við lifum á undarlegum tímum á þessum árum sem liðin eru frá hruni. Það er búið að segja okkur að við eigum ekki að finna sökudólga við eigum ekki að vera reið og að við eigum helst af öllu að sópa skítnum undir teppið.
Við eigum að láta sem ekkert sé og nú sé allt í stakast lagi.
En er það þannig ? Er ekkert að hér í þjóðfélaginu sem við lifum í ?
Það er auðvitað ekki svo að hægt sé að finna gallalaust þjóðfélag því það er sennilega ekki hægt en almennir borgarar þessa lands og þar á ég við alla almenna launþega (ekki forstjóra á ofurlaunum eða ráðherra) finna ískyggilega fyrir því hvernig lífskjörin hér á landi fara stöðugt versnandi.
Fólk þarf að velta hverri krónu milli handa sér og margir eiga fáir krónur handa á milli til að hafa í sig og á.
Það hefur verið snúið hægt og örugglega upp á handleggi almennings meir og meir þangað til enginn getur sig hrært.
Undirstaða þess að geta verið til er að eiga fyrir mat og húsnæði og ágætt væri nú að geta keypt sér einhverja flík við og við og geta borgað nauðsynjar eins og lækniskostnað og lyf. Allt nútímafólk þarf að borga af síma rafmagni og ýmsan ferðakostnað svo sem strætómiða eða bensín á bílinn ef hann þá er fyrir hendi. Þetta veit nánast hvert einasta mannsbarn.
Í torfkofunum þurftum við auðvitað ekki að borga rafmagn eða síma og gátum dansað vikivaka út í eitt af landsins gagni og gæðum.
En það er liðin tíð.
Það hefur harðnað á dalnum svo um munar og undiraldan í þjóðfélaginu er orðin mjög þung.
Ríkisstjórnin lætur sem hrunið sé búið og allt sé hér í bullandi sælu og fátt geti nú komið í veg fyrir velsæld og fögnuð íslenskrar alþýðu. Ætlun stjórnvalda er að sópa dugleysi sínu varðandi heimilin í landinu undir teppið.
Hér áður fyrr var talað um verkamannalaun og þar var átt við laun ófaglærðs verkafólks sem var í byggingarvinnu í frystihúsum eða í ýmsum störfum sem ekki kröfðust neinnar sérstakrar menntunar. Þá var ekkert atvinnuleysi á Íslandi. Þá gat fólk unnið sólarhringunum saman og hleypt kaupinu upp með yfirvinnu.
Það er líka liðin tíð.
Verkafólk hér áður fór á vertíð t.d. til Vestmannaeyja og gat komið til baka með útborgun í íbúð með því að vinna nánast dag og nótt.
Í dag er það svo að almenn laun í millistétt duga ekki fyrir framfærslu. Svo ekki sé nú talað um þá sem þiggja lægstu launin sem eru langt undir fátæktarmörkum.

Þeir sem hafa menntað sig og uppfylla fjölmargar stéttir þessa lands og borga af námslánum hafa heldur ekki mannsæmandi laun.
Þetta hefur velferðarráðuneytið sjálft reiknað út og gefið út tölur því til staðfestingar. Ekkert er samt gert til að laga ójöfnuðinn í þjóðfélaginu og stjórnvöld snúa blinda auganu að almenningi.
Skítt með kjarnafjölskylduna á Íslandi. Skítt með fólkið.

Lágmarkslaun hér eru beinlínis hlægileg miðað við verðlag hér á landi og hvorki hægt að lifa eða deyja af þeim.
Það skiptir miklu máli hvað þú færð fyrir peningana þína og hér hefur matur bensín og öll þjónusta hækkað og hækkað og ekkert er að gert til að gæta hagsmuna almennings. Skattpíning á almenning er orðin óþolandi. Dugleysi og mistök ríkisstjórnarinnar eru algjör og nú bætist Harpan við sem byggð var í miðju hruni af flottræfilshætti og við verðum rukkuð fyrir í auknum sköttum og enn meiri niðurskurði á velferð.

Hér er allt á uppleið segja þeir samt sem sitja við stjórnvölin.
Hvernig má það vera ?
Hvernig stendur á því að ekki er hægt að borga almenningi mannsæmandi laun á Íslandi ?
Þegar stórt er spurt er fátt um svör en þessi láglaunastefna hér á landi virðist hanga yfir okkur eins og svartidauði. Eins og ólæknandi pest sem ekki fást nein meðul við.
Við erum ekki margar vinnandi hræður hér á landi sem höldum uppi skattkerfinu enda erum við fámenn þjóð og þess vegna er það enn undarlegra að launþegum sé stöðugt haldið í fátæktargildru okurs og lágra launa.
Nú er líka svo illa komið fyrir almennum launþegum þessa lands að verkalýðsforystan er næstum með öllu ónýt og beitir sér ekki fyrir skjólstæðinga sína.
Þó er einn sem heldur merkinu á lofti og það er Vilhjálmur verkalýðsforingi á Akranesi enda er hann víst fyrir vikið ekki vinsæll af kollegum sínum. Hér áður höfðum við Gvend Jaka og Aðalheiði og þá var verkalýðshreyfingin frumkvöðull þess að kalla saman almenna launþega og leggja áherslu á launakröfur.
Nú eru verkalýðsleiðtogar með ofurlaun og sitja í makindum á fínum skrifstofum. Þeir ganga ekki erindi skjólstæðinga sínna en sitja við fótskör atvinnurekenda og borða kleinur. Þeim dettur ekki í hug að boða til mótmælafunda í sambandi við launakjör. Dugleysi þeirra er algjört.

Núverandi ríkisstjórn lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum að skattleggja almenna launþega í tveimur skattaþrepum í staðinn fyrir eitt. Skattpíningin er algjör og þetta var gert til þess að geta kroppað aðeins meiri peninga upp úr vösum okkar allra sem greiðum okurvexti og lifum við verðtryggingu á lán sem stjórnvöld virðast líta á sem náttúrulögmál. Ekkert er gert hvorki til að setja þak á eða afnema verðtrygginguna og er þetta á svig við alla siðmenningu því þetta fyrirbæri þekkist ekki í siðmenntuðum löndum. En íslensk alþýða má blæða áfram og borga af verðtryggðu lánunum sínum og er dæmd til þess að tapa.

Af hverju er verðtryggingin ekki afnumin eða af hverju eru launin okkar ekki verðtryggð ?
Almenningi mætir æpandi þögn og ósanngirni frá ríkisstjórninni með fjölmörg mál sem þarf bæta svo hægt sé að gera búsetu hér á landi aðlaðandi.
Ríkisstjórnin er reyndar alls staðar með lúkurnar ofan í vösum okkar þannig að margir eru í þeirri stöðu að geta ekki hreyft sig.
Eiga nóg með að reyna að láta enda ná saman í hverjum mánuði sem ekki tekst hjá öllum þorra manna. Matarbiðraðir hjá hjálparstofnunum lengjast stöðugt en það nefnir ríkisstjórnin aldrei.
Það passar ekki inn í glansmyndina. Það rispar lakkið.
En millistéttin á Íslandi í dag er orðin skítblönk. Margir hafa hreinlega hætt að borga á lánum til þess að geta keypt sér mat á okurverði og haldið einhverjum lágmarksstandard fyrir fjölskyldur sínar.

Ríkisstjórnin yppir líka öxlum yfir öllu því mannvænlega fólki sem flúið hefur dýrtíðina hér á landi og farið til Noregs. Búið að missa hús sín og íbúðir á uppboði eða velja að flýja í tæka tíð.
Ég þekki alltof margt bráðduglegt fólk með ung börn sem þannig hefur valið að yfirgefa fósturjörðina til þess að setjast að í mannvænlegra umhverfi þar sem tekið er tillit til barnafjölskyldna. Þó veit ég að þetta hefur ekki verið neitt auðvelt val fyrir þetta fólk sem helst vill búa á Íslandi og í nánd við ættingja og vini.
Þetta er hættuleg þróun að æ fleiri huga að brottflutningi frá Íslandi því hér er einfaldlega ekki hægt að búa lengur.
Fólk flyst ekki lengur af landsbyggðinni til Reykjavíkur heldur frá landsbyggðinni til Noregs.
Sá mannauður sem þarna tapast er dýrmætur og fjölskyldur splundrast þegar afi og amma sjá á eftir barnabörnum sínum á öllum aldri úr landi.

Við hér á Íslandi berum okkur oft saman við Norðurlöndin og núverandi ríkisstjórn kenndi sig á sínum tíma við norræna velferð. Þessi samlíking er bókstaflega hlægileg miðað við núverandi ástand hér á landi og ekki Íslandi í hag.
Þessi velferð finnst bara ekki hér því miður. Velferð þýðir að einhver beri umhyggju fyrir okkur og því er ekki að heilsa í þessu tilfelli.
Stjórnvöld hafa eftir hrun básúnað fímmtíu úrræði til að hjálpa heimilinum í landinu.
Fyrirspurnum til forsætisráðherra með beiðni um að fá skriflega hver þessi fimmtíu úrræði séu hefur ekki verið svarað.

En ónýtu töfralausnirnar birtust samt ein af annarri upp úr hattinum og almenningi var lofað hjálp sem á endanum skilaði engu.
Umboðsmaður skuldara átti að bjarga heimilunum og róa þeim út úr brimgarðinum.
Ein leiðin var 110% niðurfelling skulda. Þegar upp er staðið kemur í ljós að 110% niðurfellingaleiðin er vita gagnslaus og fjármálastofnanir þverskallast við að fara eftir þeim lögum og reglugerðum sem settar hafa verið.
Ríkisstjórnin básúnaði á sínum tíma að heimilunum í landinu yrði bjargað. Nú eru heimilin á vonarvöl og árangurslausum fjárnámum og uppboðum á húsnæði fólks hefur fjölgað en það eina sem ríkisstjórnin gerir í því máli er að reyna að þagga það niður. Þessari þöggun verður haldið áfram og blekkingarnar munu bara aukast.
Ekki er séð fyrir endan á uppboðum og fjöldi fólks á í fá hús að venda. Leigumarkaðurinn er óhagstæður og varla hægt að leigja sér hundakofa nema fyrir fúlgu fjár.

Lán almennings voru fryst eftir hrun en þegar þeirri frystingu lauk þá var staðan síst betri þar sem úrræði voru engin og ekki höfðu launin hækkað neitt til að borga skuldirnar. Bullið heldur bara áfram.
En ríkisstjórnin er steinhætt að tala um heimilin í landinu heldur hundsar heimilin í landinu svo og allan almenning.
Kjaftasnakkar stjórnvalda tala núna bara um góða stöðu RÍKISSJÓÐS koma fram í sjónvarpi og skrifa blaðagreinar allt til að fegra stöðuna.
En hver blæðir fyrir hina svokölluðu góðu stöðu ríkissjóðs ?
Það eru almennir borgarar þessa lands sem ekki geta sig hreyft vegna peningaskorts.
Bankakerfið er kapituli út af fyrir sig og eru þær stofnanir eins og ríki í ríkinu. Þær sitja með skilanefndir á háum launum sem gera ekki annað en að hrella almenning sem í mörgum tilfellum getur ekki borið hendur yfir höfuð sér.
Venjulegt heiðarlegt fólk sem hefur unnið fyrir sér og sínum allt sitt líf en sér nú ævistarfið fara í hundana vegna stökkbreyttra ólöglegra lána.
Hæstiréttur kveður upp úrskurði yfir fjármálastofnunum sem þær sömu stofnanir fara ekki eftir.
HÆSTIRÉTTUR ! Ef ekki er farið eftir hæstarétti hverjum er þá farið eftir ? Til hvers þá að hafa hæstarétt ?

Því miður erum við fólkið í landinu steinhætt að treysta Alþingi og fjölmörgum öðrum undirstöðustofnunum þessa samfélags og það ekki að ástæðulausu. Alþingi er rúið öllu trausti.
Það er allt á ská og skjön í þessu þjóðfélagi og ég spyr mig að því hvort við séum bara svona heimsk hér á Íslandi.
Hvað er eiginlega að hérna ? Fyrir hverja er Ísland ?
Kannski fyrir túrista sem geta borgað offjár fyrir að tylla tánum í Bláa Lónið.
Eða auðmenn sem komust upp með það að dæla milljörðum úr landi fyrir hrun og lifa feitt á góssinu. Ræningjar hrunsins ganga hér um með bros á vör eða hafa flúið til útlanda með góssið. Eru sumir farnir að fjárfesta aftur hér á landi óáreittir með stolið fé og lítið er aðhafst þrátt fyrir sérstakan saksóknara.
Það er ekki nóg að Ísland sé fallegt land auðugt af orku og túristavænt ef hinn almenni borgari þrífst ekki lengur í eigin landi vegna lágra launa dýrtíðar og okurs á öllum sviðum.
Lífeyrissjóðirnir hafa vílað og vélað með fé almennings fyrir hrun og svo er það almenningur sem á að taka afleiðingunum. Það mætti alveg minna forsvarsmenn lífeyrissjóðina á það að þetta eru ekki þeirra peningar heldur okkar.
Nú eftir hrun þegar skorið er niður þá er ekki tekið tillit til almannahagsmuna. Það er skorið niður í heilbrigðisþjónustu hjá gamla fólkinu og öryrkjum. Niðurskurður hjá lögreglunni og á sjúkrahúsum er kominn að þolmörkum og svona má lengi telja.
Úti á landi er læknalaust og konum er gert að ferðast landshluta á milli til að eignast börn. Sjúkrahúsum lokað og gamla fólkið flutt á milli staða eins og skynlausar skepnur. Skepnur eru samt ekki skynlausar.

Á sama tíma eru embætti í stjórnsýslunni sem ekki má hrófla við. Það má ekki hrófla við toppunum og silkihúfunum. Hér áður fyrr til sveita voru bæði hreppsstjórar og oddvitar. Þessi embætti voru síðan lögð niður og við tóku bæjarstjórar í hinum ýmsu sveitarfélögum landsins og svo auðvitað sýslumenn. Nú á seinni árum hafa hin ýmsu sveitarfélög verið sameinuð úti á landi og þá hafa sparast nokkur bæjarstjóraembætti og bæjarstjórnir.
Þegar litið er til suðurlands þá eru hér samvaxin Reykjavík Kópavogur Hafnarfjörður Seltjarnarnes og Mosfellsbær. Þessi sveitarfélög þyrfti að sameina og hafa einn borgarstjóra yfir þeirri borg. Þar mundi sparast mikið í stjórnsýslunni.
Af hverju er þetta ekki hægt ?
Ég heyri skelfingarvein í fjarska. Einhver myndi missa spón úr aski sínum.
Í Árósum næst stærstu borg í Danmörku sem er borg með yfir 250.000 þúsund íbúa er aðeins einn borgarstjóri og gengur bara vel.
Enda eru frændur okkar á Norðurlöndunum mun agaðri í allri stjórnsýslu en gengur og gerist hér á Íslandi þar sem frænda og vinagreiðar eru algengir við embættisveitingar og mjög oft farið á skjön við stjórnsýslu við mannaráðningar.
En hér á Íslandi virðist svo vera að ef lítill flokkur manna komi saman þá verði að búa til bæjarstjóraembætti.
Það má líka spara í utanríkisþjónustunni en viljinn er bara ekki fyrir hendi. Hvar eiga þá fyrrverandi ráðherrar að fá vinnu þegar þeir missa stólinn eftir kosningar ?

Mál málanna er að nú þarf fólk að stíga fram.
Almenningur sem er í sárum eftir hrunið þarf að stíga fram og segja sögu sína um afdrif sín hjá Umboðsmanni skuldara og segja frá viðskiptum við bankastofnanir og ýmsar fjármálastofnanir sem fella niður skuldir auðmanna og stórfyrirtækja en nánast handrukka og hundelta venjulegt fólk.
Hvað mörg mál eru til úrvinnslu hjá Umboðsmanni skuldara og hvað margir hafa fengið þar viðunandi úrlausn sinna mála ?
Ríkisstjórnin er steinhætt að tala um heimilin í landinu eða Umboðsmann skuldara. Nú ríkir þöggun og tilraun til blekkinga. Í staðinn fyrir að horfast í augu við eigið dugleysi gagnvart almenningi þá er ríkisstjórnin nú á fullu við að réttlæta dugleysi sitt og fegra veruleikann sem reyndar er mjög dapur fyrir fjölmargra borgara þessa lands.

Fjármálastofnanir hlusta ekki á þegar fólk hringir í hundraðasta skipti til að fá leiðréttingu mála sinna.
Þvingar fólk til að fara dómstólaleiðina sem mörgum óar við. Það er bæði dýrt og orkufrekt og það vita þeir sem sitja við kjötkatlana.
Sumir skammast sín fyrir að hafa misst allt sitt en það er engin ástæða til. Stökkbreyttu lánin og verðtrygging á lán eru ekki almenningi að kenna. Eða efnahagsbólan.
Hvað þá lág laun fyrir fulla vinnu sem tryggja það að endar ná ekki saman.
Í úrvinnslu hrunsins var ekki tekið tillit til hins venjulega borgara sem vinnur fyrir brauði sínu og vill bara fá að lifa nokkurn veginn mannsæmandi lífi með fjölskyldu sinni.
Það voru mikil mistök hjá ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð.
Við almenningur þolendur hrunsins verðum nú að losna úr úlfakreppu uppgjafar og doða sem einkennir marga núna.
Fólk er búið að standa í skriffinnsku viðtölum símtölum og ýmsu öðru við bankastofnanir núna á fjórða ár eftir hrun og er orðið örþreytt og uppgefið en sem betur fer erum við orðin meðvitaðri um blekkingar og svik stjórnvalda sem snúa blinda auganu að almenningi.
Það er staðreynd málsins.
Við erum orðin meðvituð um svikin og blekkingarnar og ef stjórnvöld halda það að hægt sé að blekkja okkur áfram þá er það misskilningur.
Ríkisstjórnin vonast sennilega til þess að almenningur sé búinn að gefast upp og reyna að afgreiða mótmælendur sem rugludalla og vitleysinga. Sem er fjarri lagi.
Meira að segja kemur þekktur ráðherra í sjónvarp nýlega og lýsir því yfir að nú sé atvinnuleysi hér 4.5 %. Hann gleymdi að segja frá því að þeir sem detta út af atvinnuleysisbótum sem fjölmargir gera núna og fara á félagslegar bætur eru ekki taldir með í hópi atvinnulausra.
Þannig að þessi prósenta stens alls ekki enda engin ný atvinnutækifæri í sigtinu sem munar um nema fáein skammtímaúrræði í sumarvinnu.
Við erum ekki tölur á blaði.
Nú eiga allir að vera kátir því stutt er í næstu kosningar og eitt af því fáa sem stjórnvöld hugsa um í dag er hvernig hægt sé nú að fegra og blekkja og koma með fallega tölfræði til að reyna að sannfæra okkur um að allt sé hér á uppleið svo að hægt sé að hanga á ráðherrastólunum eftir næstu kosningar.
Á meðan situr hinn almenni borgari kominn með meira en upp í kok og hugsar um það hvort það sé til fyrir næstu afborgunum eða mat þennan mánuðinn. Allt sem við viljum er að eiga venjulegt líf.
Það er augljóst eftir allan þennan tíma sem liðin er frá hruni að sár hrunsins gróa seint og sum aldrei. Afleiðingar hrunsins á almenning mun varpa dimmum skugga í framtíðinni.
Aðalverkefni næstu ríkisstjórnar verður að sópa draslið upp eftir núverandi ríkisstjórn og byggja upp trú okkar á því að hægt sé að búa á Íslandi og að við þurfum ekki að búa hér við okur og óréttlæti.
Það verður líka verkefni nýrrar ríkisstjórnar að ná þeim fjármunum til baka sem auðmenn dældu út úr landinu fyrir hrun.
Verk núverandi ríkisstjórnar í skattpíningu almennings og hundsun gagnvart almennri velferð verður henni til ævarandi skammar.


Vegagerð og kosningar

Maður hefði nú haldið að það hefði verið hægt að gera langtíma áætlun um vegagerð á Íslandi. Ísland er erfitt yfirferðar á köflum og að vera með skynsamlega 15 ára áætlun sem væri farið eftir væri bara gott.
Fyrir utan það að þá væri búið að taka besta kosningaloforð þingmanna kjördæmana út á landi í burtu þar sem að þeir hafa oftar en ekki notað vegabætur sem kosningaloforð.
Á stöðum eins og Norfirði til dæmis þar sem beðið er og vonað að einhvern tíma verði byggð göng, hafa þeir lofað og lofað til að tryggja það að þeir nái kjöri enn eitt kjörtímabilið.
Það er í raun hryggilegt að þingmenn geti spilað þessu spili fram í hvert sinn sem á að kjósa og það er hryggilegt að kjósendur sem eru orðnir úrkula vonar um vagbætur skuli kjósa þá aftur og aftur í úrkula von um að NÚ gerist það!
Það hryggilegasta er þó að þrátt fyrir að til sé einhver rammaáætlun um vegagerð að þá er hún ekki meira niðurnjörvuð en svo að það virðist vera hægt að draga svona mál upp og nota í kosningabaráttuna eftir hentisemi.
Svei attan segi ég nú bara.
mbl.is Nefnd fer yfir vegi og skipulag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósk okkar um þingrof og kosningar

Eftirfarandi texti hefur verið sendur öllum þingmönnum í tilefni þess að nú fer undirskriftarvefurinn kjosendur.is í loftið þar sem safnað verður undirskriftum þeirra sem óska eftir þingrofi og svo kosningum á þeim forsendum sem þeir hafa.

Kæri þingmaður.

Við sendum þér bréf með upplýsingum um fyrirhugaða undirskriftarsöfnun vegna kröfu um alþingiskosningar á grundvelli vantrausts á sitjandi ríkisstjórn. Erindið sem við eigum við þig að þessu sinni er í beinu framhaldi af fyrra erindi og í tilefni opnunar vefsins: http://kjosendur.is/

Við vonum að þú sjáir þér fært að svara eftirfarandi spurningu: Komi til þess að einn eða fleiri þingmenn beri upp vantrauststillögu fyrir þingið, munt þú þá:

a) Styðja tillöguna.

b) Greiða atkvæði gegn tillögunni.

c) Sitja hjá við atkvæðagreiðslu.

Einnig er óskum við eftir stuttum rökstuðningi við valkosti. Svar óskast sent á kjosendur@gmail.com. Í anda þeirra sem boða gegnsæi verða öll svarbréf sem berast birt almenningi í landinu ásamt nöfnum þeirra þingmanna sem ekki svara erindinu.

Fyrir hönd aðgerðarhóps v/fyrirhugaðrar undirskriftarsöfnunar við vantraust á sitjandi ríkisstjórn,

Ásta Hafberg og Addý Steinarrs.


Já af hverju á móti, það er enginn önnur leið.....

Spurning Lagarde er svo sakleysisleg og lýsir kannski í hnotskurn því áliti sem fólk innan fjámálakerfisins hefur. ÞAÐ ER ENGINN ÖNNUR LEIÐ að þeirra mati. Eina leiðin sem AGS hefur farið með lönd síðustu áratugi er akkúrat þessi leið, leið niðurskurðar velferðakerfis, skattahækkana og endurreisnar fjármálakerfisins á kostnað almennings. Sú leið var farin hér og sú leið er farin í öllum öðrum löndum líka.
Lagarde dettur ekki einu sinni í hug að til væri önnur leið, önnur aðferð eða máti að nálgast þessa hluti á vegna þess að hún er föst í hugmyndafræðilegum kassa sem gerir það að verkum að fyrir henni er ekki til neitt annað kerfi en það sem hún vinnur í alla daga.
Vinstri flokkarnir sem nú eru að taka við í Grikklandi munu lenda í því sama og vinstri flokkar og umbótaflokkar í flestum öðrum löndum sem hafa tekið við aðstoð AGS. Öll loforð þeirra gagnvart almenningi verða að engu því að þeir beygja sig allir á endanum undir vald fjármagnisins í boði AGS.
Já það er enginn önnur leið.....eða hvað?
mbl.is Gríski harmleikurinn heldur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krefst....og hver hlustar ?

Ok nú er Hreyfingin nýbúin að ljúka viðræðum við stjórn sem gaf það skýrt út að ekkert yrði gert meira í málum heimilana í viljayfirlýsingu til AGS sumarið 2010. Kannski hélt Hreyfingin að Jóhanna og Steingrímur hefðu tekið enn eina U-beygjuna í málefnunum en svo er ekki, lánamál heimilana eru og verða eins og þau eru.
Nú stígur Samstaða fram í beinu framhaldi og KREFST þess að ríkisstjórnin víki og boðað verði til kosninga.
Ok ég er kannski svona grunn en ég hef ekki betur séð en að þetta sé þaulsetnasta ríkisstjórn sem við höfum haft. Hún hefur staðið af sér allt sem á henni hefur dunið, sem hefði verið ágætt ef forgangsröðunin hefði verið rétt, en svo er ekki.
Það sem ég skil ekki í þessu öllu er hvernig fólki sem hefur nú verið inná þingi í næstum 3 ár detti í hug að ríkisstjórnina muni eitthvað hlusta all í einu og segja " Ó hey, þau eru ekki að fíla okkur gerum eins og þau vilja".
Hingað til hafa þau bara alls ekki gert það.
Mikið vildi ég bara óska að þessi nýju öfl myndu ekki setja fram í fjölmiðlum einhverjar samningsumleitanir sem endar í "Við verjum þau ekki vantrausti" eða kröfur um að þessi stjórn víki, heldur tækju sig saman í andlitinu og yrðu svolítið alvöru og settu bara fram vantrausttillögu í stað þess að þvaðra og blaðra endalaust.
Blaður er blaður alveg sama hvaðan það kemur og ekki hluti af nýjum vinnubrögðum nýs Íslands því miður.
Vertu breytingin sem þú boðar eða vertu heima hjá þér.......
mbl.is Samstaða krefst kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má ekki hrófla við neinu...

Takið eftir að það er ekki til neitt plan B. Það lýsir sömu vanhugsun og verið hefur til dæmis hérlendis í sambandi við hrunið og málefni tengt því. Plan B er ekki til, og hvers vegna ætli svo sé?
Jú ég met það sem svo að Plan B er ekki til vegna þess að það á að viðhalda þessu ónýta fjármála og viðskiptakerfi, sem byggist nota bene upp á því að mergsjúga auðlindir og vinnukraft um allan heim svo við getum keypt vörurnar á lægra verði.
Ef það á að búa til plan B hvort sem er hér eða erlendis þá neyðast þessir aðilar til að fara að hugsa út fyrir kassan og um uppsetningu kerfisins og áhrif þess á almenning og guð forði þeim frá að gera það. Það er jú stórhættulegt að setja spurningamerki við núverandi kerfi, hvað þá að gagnrýna það eða biðja um breytingar á því.
Kannski vitið þið það og kannski ekki, þar sem lítið sem ekkert hefur verið fjallað um það í okkar duglausu mainstream fjölmiðlum, að það er búið að vera að mótmæla um mest alla Evrópu, Kanada og USA um nokkra hríð.
Hverju hefur þetta fólk verið að mótmæla? Jú það hefur verið að mótmæla því kerfislega öngstræti sem hin vestrænu ríki eru komin í, þau hafa verið að mótmæla að lýðræðið er dáið og kjósendur eru bara hjörð sem kemur og kýs á mokkura ára fresti en hefur ekkert að segja, þau eru að mótmæla viðskipta og fjámálakerfi sem er hampað fram yfir almenning, þau eru að mótmæla niðurskurði í velferðakerfum og því að almenningur er látin borga brúsann í hvert skipti sem fjámálaheimurinn skítur upp á bak.

Það er nefninlega fjöldinn allur af venjulegu fólki sem hefur séð að kerfið er komið að enda og veit að það verður að breyta því ef að almenningur á að eiga sér einhverja von um mannsæmandi líf.


mbl.is Áfram gert ráð fyrir aðild Grikkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki benda á mig.....

Segir Jón Ásgeir....
og stjórnendur lífeyrissjóðanna
og þingmenn í hrunstjórninni og andstöðu
og ráðherrar í sömu stjórn og andstöðu
og bankastjórar gömlu bankanna
og ASÍ
og FME
og SA
og núverandi ríkisstjórn og andstaða
og við kyngjum þessu öllu vitandi að þegar allir ofantaldir aðilar neita að taka ábyrgð og breyta einhverju þá verður það ekki gert. Ef það á breyta einhverju verðum við víst að gera það sjálf.....er það ekki?
mbl.is Hafnar því að bera ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband