Framboð af framboðum

Þegar litið er til íslenskrar stjórnmálaflóru þessa dagana er alveg skýrt að þetta árið verðum við ekki í vandræðum með hvað við eigum að kjósa. Þetta árið er nóg af framboðum í boði.

Margir tala niður þessa flóru og grósku í íslenskum stjórnmálum, segja að þetta sé bara rugl og vitleysa og hafi ekkert upp á sig. Fussum svei er svolítið viðhaft um þetta allt, eins og að þeir sem standi að þessu öllu séu bara óknyttastrákar sem brutu rúðu. 

Fyrir mér horfir þetta öðruvísi við. Ég sé  þessi framboð koma með skýr skilaboð út í þjóðfélagið.

Skilaboð um að fjórflokkurinn hefur tapað öllum trúverðugleika.  Skilaboð um um að fólk er búið að fá sig fullsatt af stjarnfræðilegum kosningaloforðum með engu innihaldi. Skilaboð um  að breytinga er þörf í stjórnmálaflóru landsins sem aldrei fyrr. Skilaboð um að lausnir þurfi að vera raunhæfar og niður á jörðinni til að á þær sé trúað. Skilaboð um  að það þýði ekki lengur að fóðra íslenska alþýðu á sömu frasapólitíkinni og vanalega til að ná kosningu.

Fólk sem hefur ákveðið að stofna stjórnmálaflokka, hreyfingar og einkaframboð fyrir þessar kosningar er flest að því vegna þess að þörfin fyrir endurnýjun í íslenskum stjórnmálum fjallar ekki  um það að fjórflokkurinn endurnýi mannskapinn hjá sér og pússi aðeins siðareglurnar, heldur fjallar hún um að fólk trúir ekki lengur fjórflokknum né stjórnarháttum hans og getur ekki treyst á  þau úrræði sem hann hefur raunverulega viðhaft í sinni stjórnartíð.

Skilaboðin eru skýr í íslenskum stjórnmálum  og okkur ber að fagna því að þetta sé að gerast. Við erum að taka fyrsta skrefið í því að breyta stjórnmálasögu lands sem hefur verið í heljargreipum sömu flokkana í áratugi. Við erum að taka fyrsta skref í að sýna fram á að það er hægt að breyta og bæta þjóðfélagið. 

Við eigum að fagna þessu framboði af  framboðum því þau sýna að á Íslandi býr hugsandi fólk sem þorir að taka skref í átt til alvöru breytinga. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Það er ekki hægt að bjóða fram inn á þetta þing án þess að breyta því áður.

Guðni Karl Harðarson, 10.3.2013 kl. 21:49

2 Smámynd: Ásta Hafberg S.

http://thjodarsalin.blog.is/blog/thjodarsalin/entry/1274561/ Það þarf að komast inn til að breyta því.

Ásta Hafberg S., 10.3.2013 kl. 21:52

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Jú Guðni það þarf að breyta því innanfrá.Annars er það ekki hægt.Ég er sammála því að þessi gróska er einungis til góðs.Ég er fylgismaður einstaklingsframboða og tel að þau eigi að vera valkostur en fagna að sjálfsögðu nýjum framboðum.Ég held samt að því miður séu ekki mörg sem koma manni að.

Jósef Smári Ásmundsson, 10.3.2013 kl. 23:01

4 Smámynd: Ásta Hafberg S.

Nei en þau eru byrjun á skrefinu sem við munum halda áfram að taka. Við erum byrjuð nú þegar. Auðvitað eigum við að þora að kjósa nýju framboðin.

Ásta Hafberg S., 10.3.2013 kl. 23:12

5 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Ásta, smáframboð hafa engin völd til að breyta ef þau ná inn á þing.

Guðni Karl Harðarson, 11.3.2013 kl. 12:50

6 Smámynd: Ásta Hafberg S.

Nei Guðni en fleiri en eitt hafa það. Ég veit ekki betur en að flest þeirra séu tilbúin til samstarfs.

Ásta Hafberg S., 11.3.2013 kl. 12:57

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég tek hér undir þetta með þér Ásta, þessi fjöldi framboða sýnir einungis að fólk er búið að fá nóg loksins, og ekkert á vísan að róa í dag með fjórflokkinn, loksins er í sjónmáli nýr frelsisfoss, sem vonandi verður til þess að stjórnmálin verði á hærra plani en nú er. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.3.2013 kl. 18:48

8 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Ég hef ekki trú á flokkapólitík lengur.Mun þessvegna ekki kjósa núna frekar en áður.Reikna reyndar ekki með að taka þátt í kosningum framar á lífsleiðinni þar sem ég er að festa rætur hér í Noregi.En það breytir því ekki að ég hef taugar til gamla landsins og langar að vinna að því að einstaklingsframboð verði valkostur í þarnæstu alþingiskosningum 2017.Óska að sjálfsögðu eftir áhugasömu fólki í vor eftir kosningar en vona að nýju framboðin spjari sig vel.Reyndar vil ég bæta því við að þessi 5000 regla sem mér skilst að sé er fáránleg.Á íslandi eru hvað 150000 manns.Ef deilt er í þá tölu með 63 fulltrúum fæst ca.2500 sem á að vera á 1 fulltrúa.

Jósef Smári Ásmundsson, 11.3.2013 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband