13.6.2009
Er Feigðarós II á næsta leyti?
Því miður hefur Sigmundur nokkuð til síns máls.
Ég held að flestir sem hafa nennt að kynna sér AGS bara pínulítið, viti það að þeir standa vörð um fjármagnseigendur. Ég hef ekki ennþá í leit minni á netinu rekist á skjal þar sem talað hefur verið um AGS sem einhverja hjálp við þjóðir eða lífskilyrði fólks.
AGS er frekar Friedmann-ískt í uppbyggingu og eins og flestir vita var hans meginmarkmið að einkavæða allt sem hægt var og keyra inn algjörlega frjálshyggju uppbyggt kerfi. Það kerfi tekur ekki tillit til réttar fólks í launamálum eða lífsskilyrðum.
Icesave málið er allt á versta veg alveg sama hvernig því er stillt upp. Hvernig samist hefur byggir í raun á mistökum frá upphafi. Við erum nokkur sem höfum verið að ræða það að það er alveg undarlegt hvernig var brugðist var við þegar hrunið varð. Ríkisstjórnin hefði þeim tíma átt að senda fulltrúa sinn til þessara landa til viðræðna STRAX. Sá fulltrúi hefði með réttum áherslum getað komið því þannig fyrir að við hefðum getað haft allan tíma í heiminum (næstum því) til að semja um þetta mál.
Ef viðkomandi hefði einfaldlega sagt " Kæri Brown, við á Íslandi stöndum frammi fyrir stærsta hruni í sögu landsins, stjórnvöldum ber skylda til, með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi, að fá yfirsýn yfir málið fyrst og svo semja við ykkur þegar niðurstöður liggja fyrir" Þá hefði þurft að beygja sig undir það, við sem þjóð erum nefnilega ekki bara viljalausir Zombies í höndum stórþjóða. Hvaða stjórnvöld sem er í hinum siðmenntaða heimi hefðu skilið þessi rök.
Það að stjórnin sé að riða til falls kemur manni ekkert á óvart. Málin sem eru upp á borðinu eru of stór fyrir hvaða flokkastjórn sem er. Það er alveg á hreinu að á meðan það fólk sem situr innan veggja þingsins breytir ekki sínum viðhorfum til vinnunnar, hugsunarferlis og viðbragða munum við ekki komast út úr þessu, þó að við mundum kjósa 5 sinnum á ári.
Að mínu mati þurfum við þjóðstjórn sem er sett saman úr öllum flokkum til jafns við fagaðila, þingið í núverandi mynd verður lagt niður tímabundið og mótaðir verða hópar sem hver um sig sér bara um eitt málefni.
Þau málefni væru Icesave, AGS, skjaldborg heimilanna og fyrirtækja og atvinnu-uppbygging. Það er hægt að stofna einn ESB hóp ef fólk vill, en á núverandi tímapunkti er það ekki aktuelt mál að mörgu leyti.
Hver hópur vinnur sín mál með fagaðilum innan tímamarka og þegar launsar hugmyndir eru komnar upp á borðið eru þá kynntar fyrir þjóð og þingi (hinum hópunum) til samþykktar eða höfnunar.
Slagorð allra hópana er : Hvað þjónar hagsmunum okkar sem þjóðar best.
Það sem er að gerast núna í þjóðar og stjórnmálum mun að öllu leyti, ekki stýra okkur út úr þessum vandræðum. Hin íslenska þjóð verður líka að láta vita að henni misbýður. Við getum alveg verið viss um það að það er enginn sem mun gera það fyrir okkur, nema kannski Eva Joly. Á meðan við bíðum eftir að aðrir geri eitthvað brennum við út á tíma og gætum endað í stöðu sem hlekkjar okkur fjárhagslega sem þjóð um ókomna áratugi.
Getum við verið þekkt fyrir að láta hana draga allt hlassið fyrir okkur? Það finnst mér ekki en hvað finnst þér?
![]() |
Fjarar undan stjórninni" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.6.2009
Veruleikafirring á háu stigi?
Það sem eftir kemur er tekið af vef forsætisráðuneytisins. Þegar ég las alla fréttina vissi ég ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Við erum að fara í gagngeran niðurskurð sem mun hafa áhrif á öll stuðningsbatterí atvinnueflingar á landsbyggðinni og við eigum að verða eitt af 10 samkeppnishæfustu löndum í heimi árið 2020. Er það ekki svolítið 2007? Eða bara mjög svo veruleikafirrt?
Stýrihópur um mótun sóknaráætlunar og nýrrar atvinnustefnu skipaður
Forsætisráðherra hefur skipað Dag B. Eggertsson borgarfulltrúa formann stýrihóps verkefnisins um sóknaráætlun fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífgæða til framtíðar. Gerð þeirrar áætlunar og mótun nýrrar atvinnustefnu eru meðal forgangsverkefna ríkisstjórnarinnar.
Aðrir í stýrihópnum eru Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Sigrún Björk Jakobsdóttir, fyrrv. bæjarstjóri á Akureyri, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga og Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík.
Eitt meginmarkmið þessarar vinnu er að móta áherslur sem tryggja að Ísland verði eitt af 10 samkeppnishæfustu löndum heims árið 2020.
Stýrihópnum er ætlað að setja fram verkefnisáætlun og gert er ráð fyrir að þær áætlanir sem lagðar verði fram á Alþingi frá og með vetri komandi taki mið af verkefninu.
http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/3763Hvernig á það að hanga saman að fara í niðurskurð á öllu og efla atvinnuþróun og samkeppnishæfni?
Af hverju hefur þetta fólk bara ekki samband við okkur út á landi sem störfum í þessum stuðningsbatteríum. Það er búið að greina styrkleika flestra landshluta af atvinnuþróunarfélögum í samstarfi við sveitarfélög og atvinnulífið. Þetta er allt til, það eina sem vantar í flestum tilfellum er auðveldara aðgengi að fjármagni sem setur fólk ekki á hausinn að fá lánað. Við vitum hvað er hægt að fara í með stuttum fyrirvara og hvað það kostar, en nei nú á að stofna enn eina nefndina til einskins. Það þarf ekki alltaf að vera að finna upp hjólið upp á nýtt.
Þeim væri nær að stofna vinnuhóp sem samanstendur af fulltrúum allra landshluta og svo einhverra ráðherra eða stjórnarmanna, ef það á að fara í þessa vinnu á annað borð.
Annars er alveg hægt að setja spurningamerki við að ætla sér að verða með 10 samkeppnishæfustu löndum í heimi þegar Icesave skuldin miðað við samninga er orðin um 740 milljarðar á innan við viku.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.6.2009
Nóg komið
Enn og aftur stöndum við frammi fyrir erlendri fagmennsku versus íslenska kerfiskalla pólitík. Það gerðist um daginn í Seðlabankanum og það gerist aftur núna þegar Eva Joly kemur fram í Kastljósi.
Henni tókst að koma öllu mjög skilmerkilega frá sér þar, hvað, vantar, hvað þarf að gera, hvernig og hversvegna. Henni hlýtur að finnast hún vera í hillbilly landi kerfiskalla eftir að hún kom hingað, aumingja konan.
Steingrímur hefði ekki einu sinni átt að segja "við skoðum þetta" heldur " það kemur meira fjármagn í þetta verkefni strax á morgunn"
Búið, það er ekkert að ræða, þetta er þjóðarheill, það er þjóðarheill að eitthvað af þeim peningum sem eru horfnir úr landi komist aftur heim svo hægt verði að standa við greiðslur af flottu lánunum sem við erum með á vegum AGS, Iceslave og fleira.
Ég verð að segja að ég skammast mín í dag. Ég skammast mín fyrir að kerfið okkar og fólk innan þess virðist með engu móti geta tamið sér nútímalegri, skilvirkari og samhentari vinnubrögð og það á tímum þar sem við höfum ekki efni á öllu þessu þrefi og málþófi inn á þingi.
Nú er nóg komið og það fyrir löngu síðan.
![]() |
Skoða þörf á auknum útgjöldum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þarna kemur fram að vextirnir séu of háir. Kannski það komi "mömmu" okkar og "pabba" á óvart að þau hafi gert svona lásý díl fyrir þjóðina, en margir voru einmitt að nefna vextina sem áhættufaktor.
Þetta eru hærri vextir en ég borgaði af húsnæðisláninu mínu í Þýskalandi sem voru þá um 4,15 %. Þýskt vinafólk mitt borgar í dag 4,25 %. Þannig að eins og ég hef skrifað áður, út frá "vinalegum" Evrópskum staðli er búið að okra á okkur vel og vandlega.
Annað sem mér finnst vera ansi áhættusamt í þessu er að eignirnar sem eiga að fara upp í skuldina eru meira og minna útlán. Til hverra spyr ég? Fyrirtækja sem eru að fara á hausinn og geta ekki borgað?
Það er verið að keyra okkur yfir þolmörk með þessum samning. Steingrímur getur talað um vinalegheit alveg þangað til hann verður grænn í framan, en þetta flokkast ekki undir það. Þetta flokkast undir níðingsskap.
![]() |
Útlánin eiga að greiða Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.6.2009
Frestunartækni og visa- rað lausnin
Það getur vel verið að stjórnvöld telji sig vera að gera þjóðinni gott. En eru þau að því?
Steingrímur hin stóryrti fyrir kosningar hefur nú lagt upp laupana hvað munntauið varðar. Hann virðist vera sáttur við að matreiða okkur í skuldaánauð með samningum sem eru vægast sagt áhættusamir. við skulum ekkert ræða Jóhönnu sem er með rörsýn á ESB og mun greinilega ganga ansi langt til að koma okkur þangað.
Í fyrsta lagi að ganga út frá að virði eigna bankana muni duga fyrir skuldunum að mestu leyti er eitthvað sem fáir myndu gera í dag. Það er svo 2007 og ekki trúverðugt að neinu leyti. Ef við erum heppin þá munu þær duga og það væri hamingju lausn, en ef ekki? Er til einhver áætlun um það ef eignirnar duga bara fyrir 30 % af skuldinni? Þá áætlun vil ég sjá.
Í öðru lagi er ég nú ekkert að hrópa húrra fyrir vöxtunum, húsnæðislánið mitt í Þýskalandi árið 2005 var með 4,15 % þegar það var hæst vaxtaprósenta á því.
Það dugar mér ekki lengur sem íbúa í þessu landi að fá frestunartækni svar sem gengur út" ja við höfum 7 ár til að redda þessu" 7 ár er bara ekkert mjög langur tími og það er heimskreppa.
Sérfræðingar tala um að mjög líklega fari þetta að rétta sig af 2011, en aftur á móti er hagfræði enginn vísindi eða sannleikur, hagfræði er bara spá út frá einhverjum gefnum forsendum. Fjármálakerfið í heild sinni er hrunið og liðið undir lok. Greinilega þurfum við að byggja upp nýtt módel af því, en þeir sem sitja við stjórnvölinn, fjármálamenn, hagfræðingar og aðrir innan þessa kerfis reyna nú krampakennt að halda í það og gera samninga eins og enginn væri morgundagurinn.
Auðvitað EIGUM við að fara með þetta fyrir dómstóla. Það mun kosta okkur helling, en ef satt skal segja væri ég mun tilbúnari í skattahækkanir og niðurskurð vitandi það að eitthvað af peningunum færu í að fá réttláta lausn á þessum málum.Við sem þjóð gerðum ekkert rangt eða brutum lög. Við eigum ekki að vera gerð ábyrg fyrir rugli fárra manna.
En svo er ekki og í dag sitjum við uppi með frestunartækni og einhverskonar risa visa- rað greiðslu lausn sem mun keyra okkur um koll á löngum tíma.
Er ekki betra að fá skellin endanlega núna og geta svo byggt upp á okkar forsendum sem þjóð?
![]() |
Mjög mikilvægur áfangi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
6.6.2009
Fögnuður Breta
Ja hvers vegna fagna þeir? Jú líklega vegna þess að nú verður ekki farið með neitt fyrir dómstóla og þar af leiðandi ekki hægt að setja spurningamerki við virkni kerfisins innan ESB.
Þeir fagna því að lítil þjóð út í ballarhafi sem hefði getað velt reglum og kerfisvirkni beygði sig í von um að komast að borði ESB.
Þeir fagna vegna þess að nú geta þeir, ESB og AGS haldið áfram að telja sjálfum sér trú um að fjármálakerfi heimsins sem hrundi, muni ná sér á strik og ekki þurfi að endurskoða það.
Ég aftur á móti er með sorg í hjarta vegna kjarkleysis stjórnvalda, vegna þess að þjóðin var ekki sett í fyrst sæti og að við fórum ekki í endurskipulagningu á okkar eigin kerfi og fjármálum á eigin forsendum.
Ég vona af öllum mætti að þessi samningur verði felldur á alþingi og að við munum þvinga fram endureisn á okkar eigin forsendum af því að við getum það og höfum allt í það.
![]() |
Bretar fagna Icesave-samningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.6.2009
Fyrir hvern?
Hverjum er ríkisstjórn okkar að þóknast þarna?
Hvað er markmiðið með þessari undirskrift?
Er málið að sýnast stór og flott gagnvart alþjóðasamfélaginu í stað þess að viðurkenna að þetta sé of stór biti fyrir okkur?
Er ennþá verið að lifa í einhverju sýndarveruleika þar sem þetta "reddast" allt á einhvern undursamlegan hátt?
Það er heimskreppa en alltaf er viðkvæðið hér að eignir bankana munu fara upp í skuldirnar. Ok gefum okkur að kreppan lagist ekki á næstu árum, hvað verður þá um eignir bankana? Ekki halda þær virði sínu eða stíga í virði. Hvernig á þá að borga þetta eftir 7 ár? Það er áætlunin sem ég vil sjá.
Það er verið að gambla með framtíð okkar og barnanna okkar á altari sýndarmennskunnar. Það er ekki LEYFILEGT að gera það. Það þarf að sýna langtíma áætlun út af þessum samningum í 3 útgáfum, allt gengur vel og hægt að losa okkur út úr þessu með eignum bankana að 7 árum liðnum, allt gengur ok og eftir stendur einhver skuld þegar eignir bankana fara upp í greiðslu á láninu, allt gengur ömurlega og eignir bankana hafa bara engan veginn náð að borga neitt. Hvað á að gera þá?
Í dag erum við sem þjóð matreidd á borði ESB að skilmálum AGS, er það virkilega það sem við viljum? Viljum við halda áfram að láta leiða okkur eins og viljalaust verkfæri í okkar eilífu þrælslund til slátrunar?
Ef þetta væri að gerast erlendis myndi fólk mótmæla og láta í sér heyra og okkur myndi finnast það rosa flott. En við gerum ekki svoleiðis vegna þess að nágranninn gæti sé okkur og fundist við hallærisleg. Frekar töpum við landi og láði í okkar eigin hégóma.
Það eru til leiðir út úr þessu , en því miður er ekki verið að hlusta og því lengri tími sem líður því erfiðara verður að snúa á réttan kjöl.
Getum við haldið áfram að sitja undir þessu? Eða réttara sagt, ætlum við að halda áfram að sitja undir þessu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.6.2009
Auglýsingaherferð AGS ?
Þetta athygliverða myndband varð á vegi mínum. Ég er svona mikið að íhuga hvort AGS sé í auglýsingaherferð fyrir sjálfa sig vegna fjármálakreppunnar um allan heim. Kannski þeim vanti fleiri viðskiptavini.
Þeir gera myndbandið og taka viðtöl við sjálfa sig í því, mjög athyglisvert.
Ég tók sérstaklega eftir að aðeins er talað um bankakerfið og stuðning við krónuna í þessu myndbandi. Hvorugt hefur náð sér á strik, eru þá forsendur fyrir þessu láni brostnar? Kannski bara tími til komin að fara að skila því? Einnig hjó ég eftir að hvergi er verið að tala um fólkið í landinu að neinu marki. Kannski við skiptum ekki máli ?
Þetta er að þeirra mati greinilega viðskipti, krónur og aurar og útkoman verður að vera rétt undir strikinu. Þetta er engin góðgerðarstofnun og þeir eru ekki að lána okkur pening svo þjóðin geti átt sómasamlegt líf hér.
Myndbandið í heild: http://www.imf.org/external/mmedia/view.asp?eventID=1329
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Frjálslyndi flokkurinn lagði fram svokallað biðreikningafrumvarp skömmu eftir hrun.
Frumvarpið gekk út á að vertryggingarálag var fryst í 5 % og vextir í 5. Með því móti hefði fólk með verðtryggt lán aldrei farið yfir 10 % vexti og verðtryggingu.
Það sem eftir stóð hefði átt að leggja á svokallaða biðreikninga í nafni viðkomandi skuldara. Með því að gera þetta hefði verið hægt að lækka byrðar heimilanna svo um munar. Þarna hefði einnig skapast ráðrúm hjá stjórnvöldum til þess að fá yfirsýn yfir stöðuna og vinna í rólegheitum að raunhæfum einstaklingsbundnum langtíma aðgerðum og leiðréttingum skulda. Gert var ráð fyrir að meirihluti þess sem inn á biðreikningana færi, yrði afskrifað að endingu.
Þarna hefði einnig skapast gulrót til að koma verðbólgunni eins hratt niður og hægt er vegna þess að þá lækkar verðtryggingin. Um leið og hún kæmist í 5 % hættir að leggjast inn á biðreikninginn.
Takmarkið var að á meðan væri verið að vinna í langtíma aðgerðum fyrir heimilin í landinu, hefði átt að finna leiðir til að afnema verðtrygginguna.
Með smá útfærslum hefði verið hægt að nota þessa aðferð fyrir myntkörfulán og óverðtryggð lán.
Almenn aðgerð sem hefði ekki verið erfitt að keyra inn á skömmum tíma, sem tæki í raun mið af stöðu hvers og eins svo enginn hefði "grætt" meira en aðrir.
Mér skilst að hún hafi dalað uppí viðskiptanefnd og aldrei skilað sér lengra. Síðan hefur hún hvorki heyrst né sést.
Reyndar hef ég einnig fengið það svar frá S manneskju að almennar aðgerðir séu ekki í boði þar sem ekki er hægt að standa við skuldbindingar okkar við AGS.
Skjaldborg heimilanna ???????
![]() |
Ríkið fær 2,7 milljarða - lánin hækka um 8 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.5.2009
The Big sell Out á RÚV í kvöld
Ég vona að sem flestir hafi tekið sér tíma í að horfa á þennan mjög svo fræðandi þátt í kvöld. Þarna var farið í hnotskurn í það sem hlýtur að vera stefna AGS. Ekki get ég ímyndað mér að við sem þjóð fáum einhverja sérsamninga við þá þó að við virðumst halda að við séum alltaf í þeirri stöðu að fá eitthvað sér og öðruvísi en allir aðrir.
Mér þótti athyglisvert að AGS vildi ekki veita viðtal í þessum þætti, heldur sendi myndband í formi teiknimyndar, sem að mínu mati var svo hjákátlega asnalegt að ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Þar kom nú samt fram að stefnan er einkavæðing til framfara og nýsköpunar. Fyrir hvern spyr ég?
Eftir þennan þátt hvíla á mér svo margar spurningar og mér er ofboðið að öllu leyti. Er þetta það sem við erum að kalla yfir okkur? Ég veit að við álítum okkur ekki vera eins og Bólivía, Filipseyjar eða Suður Afríka en samt er fólkið í þessum löndum að tala um sömu hluti og við.
Vexti sem þarf að borga af AGS/ AB láninu út í hið óendanlega.
Niðurskurð í velferðarkerfinu.
Þetta eru ekki skuldir sem ég bjó til, af hverju þarf ég að borga þær.
Hvað verður um börnin mín í framtíðinni.
Ætli ein af spurningum okkar verði í framtíðinni, hversvegna er búið að einkavæða vatnið?
Þetta er hlutur sem við verðum virkilega að hugsa vel út í og af alvöru. Við getum ekki lengur á nokkurn hátt sem persónur í þessu þjóðfélagi leyft okkur að stinga höfðinu í sandinn og vona að þetta líði hjá. Það mun ekki gera það og að mínu mati eftir áhorf þáttarins, með því að fara AGS leiðina aldrei.
Við skulum muna það að við sem þjóð höfum staðið af okkur ýmislegt í gegnum tíðina, við skulum muna að við eigum mannauð og hugmyndir, við skulum muna að við eigum vel menntað fólk og fólk sem hefur þor og dug til að gera hluti. Við eigum nýtanlegar auðlindir og kunnum að mestu að nota þær.
Fyrir hvern erum við að gera hlutina, fyrir hvern erum við að fara í endurreisn á okkar efnahagslífi? Er það fyrir okkur sem þjóð eða alþjóðasamfélagið?
Hverjir eiga eftir að þurfa að búa hér í landinu? Við eða alþjóðasamfélagið?
Hverjir munum erfa þetta land? Börnin okkar eða alþjóðasamfélagið?
Ég mæli með því að fólk horfi á þennan hátt. Þetta er líklega það næsta sem við komumst í að fá uppgefið hvað samningurinn við AGS inniheldur, því ekki hafa stjórnvöld verið að kynna okkur hann í öllu gagnsæinu sem var prédikað hér fyrir kosningar.
Að öðru leyti er ég hreinlega orðlaus með öllu og sit með hjartað ofan í tám af hræðslu við það að við náum ekki að fara út úr þessum kröggum með þjóðarheill að farabroddi vegna þess að við tókum skyndiákvörðun um lán.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)