Færsluflokkur: Bloggar

Baráttan um endurnýjun og réttlæti

Í áratugi höfum við haft sömu flokkana á þingi aftur og aftur og aftur. Við vitum hvernig þeir vinna og fyrir hverju þeir standa. Við vitum  að þeir hafa stjórnast af eiginhagsmunavinavæðingu til margra ára. Við vitum líka að þeir hafa ekki gert neitt til að breyta kosningalögum, koma á persónukjöri né auka lýðræði fyrir fólkið í landinu.
 Síðast en ekki síst vitum við að starf þeirra fyrir almenning og hag almennings hefur verið gloppótt og án markmiða, það hefur einkennst af skyndilausnum fyrir kosningar. Hækkum skatta, lækkum skatta hagfræði sem hefur enga virkni til langframa.

 Nú eru kosningar á laugardaginn og enn er það fjórflokkurinn sem mælist hæst í skoðanakönnunum, enn er það fólkið sem annað hvort kom landinu í rugl eða kom því ekki úr rugli sem mælist hæst í skoðanakönnunum. Afsprengi þeirra mælist einnig hátt fyrir að vera með ekkert vesen.  

Ég veit ekki með ykkur en ég sé þessar kosningar ekki sem kosningar þar sem ég vel bara hinn partinn af fjórflokknum til að refsa þeim hluta sem sátu við stjórnvölinn síðustu 4 ár. Ég sé ekki tilgang í því að kjósa neinn af fjórflokknum því að þegar ég horfi yfir sviðið á störf þeirra veit ég að þeir hafa ekki breyst og munu ekki setja velferð mína eða barnanna minna í forgang eftir kosningar.

Ég skil heldur ekki röksemdarfærsluna um að atkvæði falli dautt niður ef maður kjósi nýju framboðin. Sýnir það ekki vankanta kosningalagana að framboð þurfi 5% á landsvísu til að ná manni á þing? Er það ekki hluti af því sem við viljum breyta? Og haldið þið að við munum breyta því með fjórflokknum? Í alvöru?

Ég stend í dag frammi fyrir því að kjósa nýtt framboð og kannski mun atkvæði mitt falla dautt niður, en ég mun gera það einfaldlega vegna þess að ég veit innst inni, eins og ég er viss um að þú veist líka innst inni lesandi góður, að ef að ég ætla einhvern tíma að upplifa alvöru breytingar og réttlæti í íslensku þjóðfélagi þá verð ég að leggja mitt á vogarskálarnar til þess að það verði að veruleika.
 Ef ég ætla einhvern tíma að upplifa alvöru velferð fyrir almenning, alvöru breytingar á kosningalögum, heilbrigðis og menntakerfi í forgang, alvöru mannréttindi og alvöru alhliða framtíðarmarkmiðasetningu fyrir þetta  land þá get ég ekki kosið fjórflokkinn. Það er bara svo einfalt í allri sinni mynd.

Ég mun kjósa með hjartanu á laugardaginn, ég mun kjósa eitt af nýju framboðunum og ég vona að þú lesandi góður muni líka kjósa með hjartanu því þar getur maður ekki feilað.

 


Huglægt atvinnuviðtal

Kosningarnar framundan held ég að verði spennandi. Ég ætla ekki að segja jafn spennandi og landsliðleikur í handbolta, ennnn gætu slagað þangað.

Mér finnst nefnilega það að það séu svona mörg framboð í boði ekki vera mínus heldur plús. Loksins er einhver flóra flokka og fólks sem er tilbúið að leggja hönd á plóginn við að koma þessu landi áfram.

Ég er reyndar sjálf á þeim stað að ég sagði: "Allt nema fjórflokkinn" Með tilkomu B.F breyttist það svo í "Allt nema fimmflokkinn".

Sumir geta túlkað það sem svo að ég sé með einhverja fordóma gagnvart þessum flokkum en það er bara því miður ekki svo. Ég met það sem svo að þessir flokkar + afsprengið hafi haft mörg ár, áratugi, til að gera góða hluti fyrir land og þjóð og ekki tekist nema að mjög takmörkuðu leiti. 

Ef fjórflokkurinn + afsprengi hefðu verið í vinnu fyrir fyrirtæki út í bæ þá hefðu þeir verið reknir fyrir mögum árum síðan. Fyrir mér er það aðalmálið. Mat á afköstum, getu og færni í starfi. Mat mitt þarna er að þeir eru hreinlega ekki færir í starfið og þar af leiðandi mun ég ekki ráða þá.

Þetta er mitt persónulega viðhorf og ein af mörgum ástæðum fyrir því að ég hef haldið áfram að rembast eins og rjúpan við staurinn í ýmsum hópum, Lýðræðisfélaginu Öldunni og nú  sem framkvæmda og kosningastjóri hjá Dögun. 
Mín von er nefnilega sú að íslensku almenningur hafi tekið fimmflokkinn í huglægt atvinnuviðtal og hafi ákveðið að ráða hann ekki til áframhaldandi starfa vegna vanhæfni sinnar til að gæta hagsmuna almennings.
Þannig geng ég allavega að kjörborðinu 27. apríl og fagna því að svo margir flokkar séu í boði fyrir fólk að pæla í, taka í huglægt atvinnuviðtal og vonandi ráða til starfans.

 


Framboð af framboðum

Þegar litið er til íslenskrar stjórnmálaflóru þessa dagana er alveg skýrt að þetta árið verðum við ekki í vandræðum með hvað við eigum að kjósa. Þetta árið er nóg af framboðum í boði.

Margir tala niður þessa flóru og grósku í íslenskum stjórnmálum, segja að þetta sé bara rugl og vitleysa og hafi ekkert upp á sig. Fussum svei er svolítið viðhaft um þetta allt, eins og að þeir sem standi að þessu öllu séu bara óknyttastrákar sem brutu rúðu. 

Fyrir mér horfir þetta öðruvísi við. Ég sé  þessi framboð koma með skýr skilaboð út í þjóðfélagið.

Skilaboð um að fjórflokkurinn hefur tapað öllum trúverðugleika.  Skilaboð um um að fólk er búið að fá sig fullsatt af stjarnfræðilegum kosningaloforðum með engu innihaldi. Skilaboð um  að breytinga er þörf í stjórnmálaflóru landsins sem aldrei fyrr. Skilaboð um að lausnir þurfi að vera raunhæfar og niður á jörðinni til að á þær sé trúað. Skilaboð um  að það þýði ekki lengur að fóðra íslenska alþýðu á sömu frasapólitíkinni og vanalega til að ná kosningu.

Fólk sem hefur ákveðið að stofna stjórnmálaflokka, hreyfingar og einkaframboð fyrir þessar kosningar er flest að því vegna þess að þörfin fyrir endurnýjun í íslenskum stjórnmálum fjallar ekki  um það að fjórflokkurinn endurnýi mannskapinn hjá sér og pússi aðeins siðareglurnar, heldur fjallar hún um að fólk trúir ekki lengur fjórflokknum né stjórnarháttum hans og getur ekki treyst á  þau úrræði sem hann hefur raunverulega viðhaft í sinni stjórnartíð.

Skilaboðin eru skýr í íslenskum stjórnmálum  og okkur ber að fagna því að þetta sé að gerast. Við erum að taka fyrsta skrefið í því að breyta stjórnmálasögu lands sem hefur verið í heljargreipum sömu flokkana í áratugi. Við erum að taka fyrsta skref í að sýna fram á að það er hægt að breyta og bæta þjóðfélagið. 

Við eigum að fagna þessu framboði af  framboðum því þau sýna að á Íslandi býr hugsandi fólk sem þorir að taka skref í átt til alvöru breytinga. 

 


Hvar mun fólk búa?

Síðustu 6 vikur hef ég verið í húsnæðisleit á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef verið heppin og leigt hús í Mosó á frekar viðráðanlegu verði síðustu 2 og 1/2 árin.

Nú er svo komið að húsið var selt og þá var bara að bretta upp ermarnar og fara að leita. Þetta er ekki auðvelt verk því við erum stór fjölskylda og þurfum frekar mikið pláss.

Samt er það svo að þegar ég þurfti að flytja með allt liðið fyrir 2 og hálfu ári voru frekar margar stórar eignir til leigu og ég var viku að finna annað húsnæði fyrir okkur.
Nú er ég búin að leita í 6 vikur og það er EKKERT að finna og þá meina ég EKKERT. Ég bind mig ekki við hverfi og leita á öllu höfuðborgarsvæðinu, auðvitað er verðið að spila inn því mér finnst fásinna að borga 280- 400.000 fyrir þetta.

Þannig að það er lítið sem ekkert að hafa og það sem er í boði er fokdýrt. Það sem verra er þá er ég farin að heyra sögur, sögur um fólk sem er í sömu stöðu og ég, eða var í henni, en neyddist til að flytja inn á vini og ættingja með börn og bú. Ég er farin að heyra sögur af fólki sem þarf að slíta sundur fjölskyldur sínar og senda börnin til einhvers ættingja/foreldris sem kannski býr í allt öðru bæjarfélagi  af því að ekki tókst að fá húsnæði.
Þetta fólk er í fullri vinnu og hefur alltaf reddað sér sjálft en nú getur það það ekki lengur. 
Við erum ekki bara að tala um að það sé vöntun á húsnæði fyrir stórar fjölskyldur, það er líka vöntun á húsnæði fyrir litlar fjölskyldur, og það sem er í boði er of dýrt fyrir venjulegt fólk að borga.
Það setur að mér hroll að hugsa til haustsins þegar enn fleiri bætast í hóp þeirra sem þurfa að leigja eftir að uppboðshrinan dynur yfir. 

 


Um hvað erum við að fara að kjósa í apríl?

Nú eru framboðin að stíga fram á sviðið eitt af öðru. Þau eru orðin svo mörg að heyrst hefur að það þurfi heilan regnskóg til að búa til kjörseðla. 
Að öllu spaugi slepptu þá fagna ég persónulega að hér skuli vera að fæðast flóra stjórnmálaafla því það sýnir að þörfin á endurnýjun og að óskin um breytingar er mikil. Vakning hefur átt sér stað þar sem almenningur er að skilja að fjórflokknum er ekki treystandi nema að einhverju takmörkuðu leiti. Það virðist sem almenningur landsins sé búin að fá nóg af að leyfa stjórnmálaöflum að leika sér að lífi og afkomu þeirra sem hér lifa eins og ekkert sé.

En þá er spurningin hvað er það sem brennur á fólki? Hvað er það sem skiptir mestu máli í íslensku þjóðfélagi í dag? Hvað er það sem fólk mun leggja áherslu á að flokkar hafi fram að færa sem fara fram í vor.

Hjá mér eru það nokkur atriði sem ég ætla bara að lista upp í einhverri röð.

a) Tekið á skuldavanda heimilana á raunhæfan máta

b) Grunnframfærsluviðmið lögfest

C) Neyðarlausn á vandamálum þeirra sem eru að fara að missa húnsæði sín vegna þess að frystingum er lokið

d) Afnám verðtryggingar

d1) Raunhæfar breytingar á efnahags og fjármálakerfi landsins sem leiða gott af sér fyrir almenning

e) Vinnustaðagreining á alþingi og störfum þess 

 f) Unnið í að setja á alvöru þáttökulýðræði

g) Gagnsæi í vinnubrögðum stjórnsýslu og annarra

h) Uppgjör við hrunið

i) Raunhæf uppbygging í atvinnumálum og aukning þjóðartekna. 

Þetta er bara svona það sem poppar upp í hugann á mér en listinn er lengri. Þegar ég les þetta yfir þá sé ég að mér er mest í mun að heimilum landsins verði bjargað á einhvern raunhæfan máta áður en eitthvað annað verður gert.

Ekki veit ég hvað aðrir ætla að leggja áherslu á þegar þeir fara í kjörklefa í apríl en fyrir mig skipta heimili landsins mestu máli. Framboð sem hafa þau í fyrsta sæti munu því koma til greina hjá mér.


23 ATRIÐI UM KAPÍTALISMA....sem ekki er sagt frá

Ég ætla ekki að fara að gefa mig út fyrir að vera bókagagnrýnandi að neinu leiti en ég var að lesa þessa og verð bara að tjá mig ofurlítið um hana. Ég ætla líka að skrifa um þessa bók því að að mínu mati er það samfélagsleg skyldu okkar að kynna okkur málefnin út frá fleiri en einu sjónarhorni. Þetta verðum við að gera ef við ætlum nokkurn tíma að breyta og bæta samfélagsmyndina okkar og kerfi. Það er engu samfélagi hollt að leggja alla ákvarðanatöku og áætlanir í hendur fárra aðila án þess að samfélagsþegnar myndi sér skoðun á málefnunum.

En nú að bókinni góðu.

Staðreyndin er sú að með því að hafa tekið upp algert nýfrjálshyggju-efnahagskerfi, eins og meirihluti „siðmenntaðra“ landa gáfum við skotleyfi á efnahaginn eins og hann lagði sig.

Reglugerðir voru rýmkaðar, lög milduð og eftirlit eiginlega bara meira að nafninu til en í alvöru. Þetta ættum við bara öll að vita eftir hrunið. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er svo bara það að þetta hagkerfa módel virkar ekki til lengdar alveg sama hvernig því er snúið.

Bókin, 23 ATRIÐI UM KAPÍTALISMA....sem ekki er sagt frá er svo skilmerkileg að ALLIR og þá meina ég bókstaflega ALLIR geta skilið hana og það sem meira er gott fólk, hún er skyldulesning fyrir okkur öll.

Nógu lengi er búið að setja hagfræði upp sem svo hrikalega illskiljanlegt fyrirbæri að til þess að skilja hana verði maður að vera með dulda spáhæfileika og geta talað við látna.

Í krafti þess hafa hagfræðingar getað sett upp ýmis efnahagsleg módel sem hafa ekkert annað markmið en skammtímahagnað á kostnað langtímafjárfestinga. Sem þýðir bara á venjulegri íslensku að þolinmótt fjármagn, sem þarf til dæmis til fyrirtækja og atvinnusköpunar hefur ekki verið til staðar nema að litlu leiti.  Þetta er eitt atriði af mörgum,  sem er útskýrt í þessari bók svo skilmerkilega að þetta rennur inní hausinn á manni eins og ljúfasta lag.

Til þess að við lendum ekki í sömu stöðunni aftur með hrun og kreppu verðum við að fara að íhuga breytingar á efnahagskerfunum okkar. Til þess að gera það verðum við að hafa smá skilning á því um hvað málið snýst og þar kemur þessi fína bók inn. Hún er auðskiljanleg, vel upp sett og meira að segja hnittin á köflum. 

Gerið nú sjálfum ykkur og framtíðinni greiða og skellið ykkur í lestur þessarar bókar. 


Heimilin og framtíðin

Nú er Icesave frá og amen fyrir því. Þá er þurfum við að fara að snúa okkur að næsta vandamáli og það stærsta vandamálinu sem við stöndum frammi fyrir.
Heimilum landsins og stöðu þeirra.
Ef við lítum á síðustu ár og þær lausnir sem settar voru af stað fyrir heimili landsins er ekki um auðugan garð að gresja í raunverulegum langtímalausnum.
Okkur var boðið upp á allt að 3 frystingar á húsnæðislánum, hverja ár í senn, margir nýttu sér það og gátu með því móti keypt sér smá frið. Nú eru þessar frystingar að detta út og þeir sem hafa verið með lán í frystingu eiga ekki í fleiri skjól að venda. Hve margir ætli hafi náð að bæta stöðu sína á þessu tímabili?
Miðað við hækkanir á mat (ca. 87% hækkun matarkarfan), bensíni,sköttum, gjöldum, útsvari og öðru í þjóðfélaginu á síðustu árum, get ég ekki séð að fólk hafi náð að bæta fjárhagslega stöðu sína þó það hafi fengið allt að 3 frystingar.
Því miður tel ég að á næstu mánuðum muni vanskil hjá ÍLS og fleiri fjármálastofnunum vegna húsnæðislána aukast til muna.
Það sem hræðir mig við þetta er að engin raunveruleg lausn er uppi á borðum. Það er ekki verið að tala fyrir leiðréttingu skulda inná þingi, ekki afnám verðtryggingar, ekki kjarabótum í einhverskonar þjóðarsátt í formi lækkunar matarverðs eða einhvers sem eykur líkurnar á því að heimilin muni merja það fjárhagslega.
Eins og er eru um 63.000 heimili í landinu sem eiga erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman og það er mæling sem var gerð á meðan frystingar lána voru enn við líði.
Mér hrís hugur við því hvernig næstu mánuðir munu þróast í íslensku þjóðfélagi fyrir heimilin og ber þá von í brjósti að einhver flokkur eða afl muni setja heimilin og kjör þeirra í fyrsta sæti.

Við getum....

Nú er komin niðurstaða í Icesave og það okkur í vil. Þetta er frábært, gott, meiriháttar og hjartavermandi á allan máta.
Ég ætla ekki að skrifa hér um hver gerði hvað og hversvegna með hverjum í öllu þessu ferli sem Icesave er búið að vera.
Nei ég vil frekar íhuga hvað við höfum og getum lært af þessu ferli öllu.
Hvað gerði þetta ferli fyrir okkur sem þjóð? Hvað var í þessu ferli svo sérstakt og svo öðruvísi?
Það sem greinir ferli Icesave frá öllu öðru sem við höfum verið að takast á við er að þjóðin kom að málinu, þjóðin fékk möguleika á að segja sína skoðun um eitthvað gríðarlega stórt sem varðaði þjóðarhagsmuni um langa framtíð. Þjóðin stóð saman, fann samkenndina, styrkinn og þorið og tók skynsamlega ákvörðun í erfiðu máli.
Þessi ákvörðum var engin skyndiákvörðun, þetta var ekkert fljótafgreitt mál. Það áttu sér stað miklar umræður um málið í þjóðfélaginu. Fólk las, og skeggræddi, leitaði sér upplýsinga og fræddist.
Almenningur setti sig inn í eitt erfiðasta og flóknasta mál þjóðarinnar, gagnrýndi og settist á rökstóla.
Uppúr öllu þessu ferli kom ákvörðun í formi þjóðaratkvæðagreiðslu, ákvörðun sem var byggð á öllum upplýsingum sem hægt var að fá á þeim tíma.
Þetta gott fólk er angi af þáttökulýðræði og við sýndum og sönnuðum að það er hægt að afgreiða stór mál þjóðarinnar með aðkomu hennar í svoleiðis lýðræði.
Þetta form af lýðræði eigum við að vera að styrkja í þjóðfélaginu okkar. Þetta form af lýðræði eigum við að setja á oddinn í næstu kosningum og auka eftir þær.
Því hér hefur verið sýnt og sannað að hér býr skynsöm þjóð sem getur margt með samtakamætti.
Ég er glöð og hrærð í hjartanu að tilheyra fólki sem okkur.
Til hamingju þjóðin mín með þessa flottu ákvörðun sem við tókum. Okkur eru allir vegir færir ef við stöndum saman og það ættum við að hafa að leiðarljósi í framtíðinni.

Vaðið í sama pollinn......

Ég hef verið að skoða ýmislegt síðustu árin. Uppbyggingar efnahags og stjórnsýslukerfa, líftíma þeirra og þróun og niðurstaða mín er sú að við stöndum á breytingar punkti. Ekki bara við Íslendingar heldur flest öll vestræn ríki líka.
Við höfum nú verið með efnahags og stjórnsýslu kerfi sem hafa nýst okkur og þróast með okkar samfélögum þar til nú þegar þau springa og við sjáum að endurskoðunar og breytinga er þörf.
Munurinn á okkur hér á Íslandi, ef litið er til Evrópu og Bandakíkjana er að við erum lítið eyjasamfélag. Fyrir þá sem ekki vitið þá er til heil félagasamtök (ISISA) lærðra og ólærðra sem eru bara í því að skoða þessi samfélög.
Lítil eyja samfélög eru öðruvísi uppbyggð og með aðrar þarfir heldur en stór vestræn samfélög og þar af leiðandi er ekki vinnandi vegur fyrir þau að taka bara upp kerfi, hvort sem er í efnahag eða stjórnsýslu, án þess að endurhanna þau svo þau passi eyjasamfélagi.
Okkar þarfir og áherslur, til dæmis hvað varðar vöru-inn og útflutning, liggja á öðrum sviðum en hjá Dönum sem keyra bara yfir næstu landamæri til viðskipta.
Það sem þetta botnar í er að við hrunið skapaðist visst svigrúm til endurhugsunar á þessum hlutum. Og spurningarnar sem stjórnmálamenn hefðu átt að vera að spyrja í samvinnu við almenning voru til dæmis.:"Hvað hentar okkar stærð af samfélagi?", " Hvað getum við nýtt annarstaðar frá og hvað verðum við að hanna sjálf í kerfinu?", "Hvernig fáum við það besta út úr því sem til er án þess að ganga á lífsgæði og afkomu okkar sem samfélags?" Og svo framvegis í lange baner.
Þetta var ekki gert og verður ekki gert af þessari ríkisstjórn, ég efast líka um að það verði gert af þeirri næstu. Þess vegna vöðum við sama pollinn aftur og aftur í átt að engu og það í sjálfu sér ekki góð staða.
Ég er enn þeirrar skoðunar, 4 árum eftir hrun, að við fengum flott tækifæri í þessu hruni og það var okkar að nýta það. Ég er líka þeirrar skoðunar að við munum nýta þetta tækifæri þó það verði ekki, eins og nú lítur út fyrir, fyrr en með þarnæstu ríkisstjórn.
Vonin um að við förum að vaða aðra ferskari polla er til staðar og fer ekki neitt.

Nú árið er liðið....

Um ómunatíð hefur mannfólkið notað áramót til að líta yfir farin veg, vega og meta aðstæður og atburði og íhuga hvað mætti betur fara. Ég ætla að gera heiðarlega tilraun í eitt svona stykki um þjóðfélagsmálin og gang þeirra síðasta árið. Við vitum öll að þegar hér tók við ný ríkisstjórn voru loforðin mörg. Heimilin átti að vernda, eitthvað rámar mig í breytingar á fjármála og efnahagskerfi, smá endurskoðun á vinnuferlum og stjórnsýslu, afnám verðtryggingar og ýmislegt fleira sem gaf falleg loforð um nýtt Ísland.

Heimilin í landinu

Á þessu ári gerðist ekkert til að leiðrétta skuldir heimila landsins. 110% leiðin og frystingar lána eru bara liður í að ýta á undan sér vandamáli sem er svo stórt að engin virðist þora að eiga við það. Á meðan á frystingum stóð var ekki unnið að neinum raunverulegum lausnum á vanda lántakenda þessa lands. Staðan er því sú að eftir áramótin munu fara að hrynja inn vanskil hjá ÍLS og bönkunum þar sem fólk mun þurfa að fara að borga eða borða. Gjaldþrotum mun einnig fjölga svo um munar.  

Engin af fjórflokknum tók á verðtryggingunni þrátt fyrir fögur loforð þar um. Þetta ætti að sýna okkur kjósendum svart á hvítu að engin af fjórflokknum mun nokkurn tíma taka á þessu verðtryggingarvandamáli og ég vil biðja fólk að íhuga það fram að kosningum hvort það sé tilbúið að láta ljúga sig fullt aftur um þetta mál.
Verðtryggingin er hluti af efnahagslegu vandamáli sem hefði þurft að taka á en var ekki gert.

Ekki gerði ríkisstjórnin neitt í samráði við til dæmis ASÍ og SA til koma til móts við heimili landsins í formi kjarabóta fyrst að ekki voru fundnar raunverulegar lausnir á skuldavandanum. Þar hefði verið hægt að gera ýmislegt eins og til dæmis setja þak á verðhækkanir matvöru og svo framvegis. Þetta hefur verið gert áður og ætti að vera hægt aftur.
Þannig að þegar uppi er staðið var ekkert gert af viti fyrir heimili landsins á þessu ári heldur þó að hrunið sjálft hafi gefið alla möguleika á nýjum vinnuaðferðum og nálgunum.

Efnahags og fjármálakerfi 

Við hrunið sköpuðust aðstæður til að endurskoða efnahags og fjármálakerfi landsins frá grunni. Það var ekki gert og á árinu sem var að líða höfum við orðið enn oftar vitni að því að efnahagskerfið er úrelt og að fjármálakerfið er bara að fara í sama far og það var fyrir 2007. Það voru ekki settar harðari reglur eða skattar eða eftirlit.
Í raun stóð fjórflokkurinn bara vörð um kerfið eins og það var. Ýmis teikn eru á lofti um að þetta muni ekki ganga vel til lengdar. Vogunarsjóðir hafa of mikil ítök innan bankana og það er fátt sem ver okkur fyrir þeim til lengdar.
Eins og ég byrjaði að segja þá skapaðist tækifæri við hrunið til gagngerrar endurskoðunar á uppsetningu efnahags og fjármálakerfis okkar. Ef við lítum svo til Evrópu og USA sjáum við að vandi þeirra er svipaður og okkar. Fyrir mér þýðir það að þessi kerfi hafi runnið sitt æviskeið. Það er ekkert vont við það, öll kerfi hafa átt sinn líftíma í mannkynssögunni og það er ekkert undarlegt við að þetta kerfi sé orðið úrelt. Þetta er ekki fyrsta form efnahagskerfis í sögu mannsins og örugglega ekki það síðasta. 
Við ættum að fagna því að geta verið fólkið sem breytti og endurskoðaði kerfin í stað þess að vera hrædd við að taka skrefin. ég mun allavega fylgjast vel með því fram að kosningum hvaða flokkar koma með eitthvert raunverulegt útspil hvað þetta varðar. 

Stjórnsýsla

Ég ætla ekki að skrifa neitt hér heldur vísa bara í fyrri færslu hér . Þessi pistill segir allt sem mér finnst um stjórnsýsluna, alþingi og aðrar stofnanir landsins. Við þurftum að taka vel til í vinnuaðferðum og fleiru en það var aldrei gert. 

Atvinna og uppbygging hennar

Enn og aftur sköpuðust aðstæður við hrunið til að endurskoða marga hluti í sambandi við atvinnuuppbyggingu á landinu. Þegar ég flutti til landsins aftur eftir 16 ára veru erlendis, komst ég til dæmis að því að hér hafði í raun aldrei verið til nein atvinnuþróunar stefna til langframa. Hér virtist vera tekið á atvinnu-uppbyggingar vandamálum með því að ráðast í verkefni eins og Alcoa. Eitthvað sem er gert vegna hugmyndafæðilegs gjaldþrots í þessum málum.
Verkefni eins og Kárahnjúkar og Alcoa eru því miður í þeirri stærðargráðu að þau mynda efnahagslega bólu sem springur svo framan í okkur á endanum. 
Við erum lítið land og lítið efnahagskerfi og ættum að dreifa okkur á fleiri smærri verkefni sem auka tekjur okkar til langframa.

Tækifærin eru hér fjölmörg en þau hafa enn og aftur ekki verið nýtt sem skildi. Ísland er lítið land með mikla möguleika en það er okkar að taka höndum saman og nýta þá. Því miður hefur fjórflokkurinn enn og aftur sýnt fram á að hugmyndaflugið í þessum málum er um það bil ekkert.  

 Þegar litið er yfir sviðið er staðan í raun sú að eins og hin árin frá hruni, þá hefur þetta ár verið notað af hálfu stjórnmálamanna í að plástra á svöðusárið með litlum plástrum sem munu ekki stoppa neina blæðingu til langframa. Það er nauðsynlegt að endurhugsa hlutina frá grunni og taka aðrar nálganir á vandamálin. Við leysum þau ekki með sömu aðferðum og komu okkur í þau.

Að mínu mati eigum við alla von í heiminum en það er okkar kjósenda að ganga inn í þennan kosningavetur með mjög opin og gagnrýnan huga á það sem við sjáum og heyrum. Það erum við sem erum að fara að kjósa okkur starfsmenn til næstu fjögurra ára og það er okkar sem atvinnurekenda að ráða starfsmenn sem geta valdið starfinu. 

Ég óska ykkur gleði og farsældar á nýju ári flotta fólk. 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband