Hagsmunir hverra?

Um daginn fóru Gylfi og Steingrímur til Washington og áttu fundi með AGS um málefni Íslands innan sjóðsins. Þeir fóru mikinn í að tala um að AGS hefði tekið vel í endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands. Þeir voru vongóðir um að áætlunin yrði endurskoðuð þrátt fyrir Icesave.

Ekki veit ég hvort Steingrímur og Gylfi séu með eindæmum einfaldir í hugsun, en mér finnst skrýtið ef þeir hafa haldið að Icesave myndi ekki skipta máli fyrir endurskoðun AGS á efnahagsáætlun landsins.

Starfsfólk AGS gæti svo sem alveg vilja endurskoðunina en það er alltaf háð vilja stjórnar AGS og fara ekki fram hjá henni í störfum sínum.  AGS þjónar ekki hagsmunum okkar sem þjóðar og eru ekki hér sem hjálparstofnun við land í neyð. Því fyrr sem við förum að átta okkur á því því betra.

Við Íslendingar settum spurningamerki við lánastarfsemi við lönd í neyð með því að segja nei við Icesave. Þetta er kerfi sem hefur verið keyrt inn á síðustu 25 árum, einmitt af stofnunum eins og AGS og fleiri. Þetta kerfi byggir á því að þjóð kemst aldrei almennilega út úr skuldavanda sínum og verður háð utanaðkomandi aðstoð og lánum til langframa. Þetta kerfi hefur einnig byggt á því sem við höfum orðin áþreifanlega vör við hér á landi, að samningsstaða lands sem þarf lánin er um það bil enginn.  Við getum verið stolt af þessu spurningamerki og eigum ekki að hnika frá því. Þarna stendur sem sagt hnífurinn í kúnni varðandi endurskoðun áætlunar okkar. Við neitum að láta allt yfir okkur ganga og krefjumst réttlátra samninga.

Starfsmenn sjóðsins sem hafa með málefni Íslands að gera hafa farið fögrum orðum um afskriftir skulda almennings við  Hagsmunasamtök Heimilanna, en á fundi með þeim hóp sem ég starfaði með um málefni AGS og efnahagsáætlun, var bara talað um að Ísland færi úr því að vera menntað þjónustusamfélag í að verða samfélag sem framleiðir hrávöru fyrir önnur lönd. Ekki var nefnt einu orði að afskriftir á hendur almenningi væru nauðsynlegar fyrir uppbyggingu Íslands.

Það hefur verið talað mikið um að Ísland komist ekki upp úr öldudalnum nema með lánum og aðstoð frá AGS. Ég er enn þeirrar skoðunar að þegar til langs tíma er litið væri heillavænlegra fyrir okkur sem þjóð að afþakka lánin og hafa eins lítið með AGS að gera og mögulegt er.

AGS er ekki að starfa fyrir okkur heldur þá aðila sem punga sem mestu inn í sjóðinn og hafa þar hagsmuna að gæta. Það er ekki verið að gæta hagsmuna þjóðarinnar nema að litlu leyti og það eigum við ekki að sætta okkur við.


mbl.is Íslandslán ekki á dagskrá AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband