ESB ekki góðgerðastofnun

Það hafa verið margar umræður hérlendis um það hvernig eigi að snúa þessari bagalegu stöðu við sem land og þjóð hefur lent í undanfarið. Fyrir kosningar drukknuðu bara því miður margar góðar hugmyndir í ESB herferð og styrkja málinu mikla.

Ég hef viljað halda því fram að þessi kreppa sem nú ríður yfir hefði komið á endanum. Ef bankakerfið hefði ekki verið orðið of stórt hefði hún verið í smærri skala.

Ástæðan fyrir því að ég vil halda þessu fram er að það hefur aldrei verið farið í sameinað uppbyggingar átak á fyrirtækjum hérlendis með innlenda framleiðslu til útflutnings. Allt hefur miðast að því að gera sem stærst og best og það gleymdist alveg að horfa á það að við erum lítið land sem eigum undir högg að sækja einmitt vegna smæðar gjaldmiðilsins.

Það VERÐUR að byggja upp innlenda atvinnustarfsemi á sem flestum sviðum með það í huga að hægt sé að framleiða innanlands til útflutnings. Með því að gera það er LÍKA hægt að stabílísera krónuna hægt og rólega.

 Með því að stofna Fjárfestinga/lánasjóð atvinnulífsins sem bæði endurfjármagnar fyrirtæki og lánar þeim sem eru að stofna ný, langtímalán á hagstæðum vöxtum hefði verið hægt að fara í massífa uppbyggingu, guð veit að ef það er eitthvað sem Íslendingar eiga nóg af þá eru það hugmyndir og góðar og vel úthugsaðar viðskiptaáætlanir eru í mörgum skúffum út um allt land.

Þessi sjóður væri þá stofnaður með aðild Lífeyrissjóða og annarra hagsmunaaðila sem eiga aur.

Svo eigum við nú þegar stuðningsbatterí sem hægt er að virkja betur s.s Impru, Nýsköpunarmiðstöð, atvinnuþróunarfélög og Útflutningsráð.

Við Íslendingar þurfum að líta okkur nær, við erum búin að vera að eyða óhemju mörgum árum í að vera stærst og best á alþjóðamælikvarða og bera okkur saman við stórþjóðir.

Við erum bara um 300.000 sálir hér í þessu landi og höfum lifað hér í gegnum súrt og sætt, eitthvað sem við getum verið mjög stolt af.  Þó við séum ekki stórþjóð getum við ennþá verið stærst og best á okkar eigin forsendum.

Ég ætla ennþá að halda því fram að ESB umsókn á núverandi tímapunkti er " þetta reddast" lausn Samfylkingarinnar. Þetta segi ég ekki vegna þess að ég er á móti ESB heldur vegna þess að ESB er ekki góðgerðastofnun og mun ekki geta "bjargað" okkur út úr ástandinu.

Það verðum við að gera sjálf.

 


mbl.is Andsnúnir inngöngu Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Öllu þessu er ég sammála. En þegar þessi þjóð er daglega mötuð á því að nú þurfi að bregðast hratt við og koma á fót orkufrekum iðnaði þá deyr allur þróttur úr fólki og það bíður og vonar - vonar að nú verði farið að virkja fyrir ný álver.

Burt með öll skíthús-Hér á að koma villa! sagði góður maður í sveitaplássi um miðjan tug síðustu aldar. Hann vildi rífa hrörlegt húsnæði fjölskyldunnar og byggja villu, eins og reisuleg steinhús voru nefnd í þá daga. Þetta gekk upp því hann átti jú peninga til að byggja steinhúsið fyrir. En í dag eiga Íslendingar ekki peninga og ekki lánstraust heldur. Þess vegna er það heimskuleg tálsýn að hér verði reist stór orkuver með virkjunum. Það vantar allt sem til þarf.

Það er enginn mengunarkvóti fyrir nýtt álver hvað þá tvö. Ekki einu sinni til kvóti fyrir stækkun á álveri. Það er enginn samningur í höfn sem tryggir okkur viðunanlegt verð fyrir orkuna og það er meira að segja ekki mikill áhugi á meiri framleiðslu á þessum málmi. Og það er búið að stöðva samning um lánið til virkjunar hitasvæðisins sem O.R. ætlaði til orkusölu handa Helguvík. Og það er ekki búið að tryggja leyfi fyrir orkuflutningi, hvorki frá þeirri virkjun né Þjórsárvirkjunum sem marga landníðslumenn dreymir um.

Nú gildir einfaldlega að virkja hinn marglofaða íslenska mannauð og leita uppi "eitthvað annað!" 

Árni Gunnarsson, 18.7.2009 kl. 15:47

2 identicon

Já þetta er alveg rétt hjá þér Árni, allar áherslur þessarar ríkistjórnar eru einhvern veginn á skjön við raunveruleikann. Ég efast um að þau hafi plan B tilbúið fyrst orkuframkvæmdir virðast ekki ætla að ganga upp. Alveg eins og það er ekki til nein áætlun ef svo skyldi fara að eignir bankana ganga ekki nema að litlum hluta upp í Icesave.

Þetta finnst mér ekki vera þjóðinni bjóðandi að neinu leyti.

Ásta Hafberg (IP-tala skráð) 18.7.2009 kl. 22:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband