Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Bætt lýðræði

Það er þannig að þjóðfélög og samfélög eru breytingum háð. Með tímanum verða stjórnarhættir, efnahagskerfi, lýðræðisuppbygging og fleira sem eitt sinn hafði sína nýtni og var samfélögum til góða,  úrelt og úr sér gengin, kannski meira að segja bara gamaldags og lúin. Sem sagt það þjónar ekki tilgangi sínum fyrir þjóðfélagið og samfélagið að viðhalda þeim.

Þar stöndum við á Íslandi í dag. Við stöndum frammi fyrir því að kerfin okkar eru allt hér að ofan og annað hvort þjóna þau fáum eða engum en sjaldnast heildinni.

Mér finnst þetta kristallast í mörgu sem er að gerast í þjóðfélaginu okkar í dag. Hvernig farið er með málefni inn á þingi, hvernig tekið er á fjármálakerfinu og hvernig farið er með veiðigjaldið.

Við erum búin að ganga í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave og biðla til forseta landsins vegna fjölmiðlalagana á sínum tíma, þannig að í raun er búið að skapa mjög sterkt fordæmi fyrir því að almenningur segi sína skoðun og taki málin í eigin hendur.

Þetta getur ekki verið annað en jákvætt EN það er galli á gjöf Njarðar að vissu leiti. Eins og þetta er í dag þá er þetta ekki mjög markvisst því hver og einn þarf að fara í mikla vinnu við að fara af stað með undirskriftarlista, halda öllu til haga og gera það bæði gagnsætt og sýnilegt til að trúverðugleikinn haldist.

Þetta leiðir mig að þeirri hugsun að auðvitað ætti að gera ráð fyrir þessu. Auka lýðræði almennings til að ákveða og hafa eitthvað um málin að segja. Það eru til einfaldar leiðir til að gera þetta. Til dæmis vefsíða þar sem fólk fyllir út eyðublað sem er skilgreint sem undirskriftarsöfnun og aðrir komast ekki inn á nema með rafrænum skilríkjum, sem standa flestum til boða í dag. Einnig væri hægt á sama stað að gera umræðuhluta, þar sem almenningur getur rætt sín á milli og þess vegna við alþingismenn  mögulegar lausnir og breytingar. 
Í nútímasamfélagi eru leiðirnar ekki erfiðar til aukins lýðræðis fyrir almenning en einhvern veginn virðast flestir stjórnmálamenn flokkana ekki sjá eða ekki vilja sjá að hægt sé með einföldum aðgerðum að gera Ísland að frumkvöðli í lýðræðisbreytingum. 


Það er alltaf erfitt að byrja

En byrja er það sem liggur framundan hjá okkur sem þjóð. Ef horft er yfir völlinn í dag er það öllum ljóst að við gleymdum alltaf að byrja, við settum það að byrja í síðasta sæti og hoppuðum yfir girðinguna þar

sem hún er lægst.

En í dag er staðan sú að við VERÐUM að byrja, byrja á fyrirtækja og atvinnu-uppbyggingu á landsvísu, byrja að stokka upp kvótakerfi og auðlindir byrja að endurskipuleggja kerfið okkar og síðast en ekki síst byrja að hlúa að velferð og hagsmunum okkar sem þjóðar.

Vegna þess að þar liggur hundurinn grafinn, við höfum um áratugaskeið látið sem svo að byrjunin hafi átt sér stað þó svo sé ekki. Um áratugaskeið hafa allar áætlanir þjóðinni til handa miðast við eitt kjörtímabil ef það hefur þá náð því. Þessa þróun verðum við að stoppa ekki seinna en núna. Við verðum að gera upp við okkur hverskonar Ísland við viljum sjá rísa úr rústum þess sem áður var.

Eitt er víst að duginn og kjarkinn eigum við, við verðum bara að vita  hvar vandamálin liggja til að geta brett upp ermarnar og byrjað.Frjálslyndi flokkurinn hefur nú þegar brett upp ermarnar og er tilbúinn í vinnuna, en á raunsæjan hátt. Í dag eru ekki til töfralausnir sem koma okkur aftur upp á engum tíma.

Við munum verða að einbeita okkur að atvinnuuppbyggingu á landsvísu og þar hafa Frjálslyndir sett saman lausnir sem byggjast á því að gera starfandi fyrirtækjum kleift að endurfjármagna sig og nýjum fyrirtækjum kleift að taka að láni fé til að hefja atvinnurekstur. Þetta er í formi Fjárfestingalánasjóðs sem rekin væri með tilkomu ríkisins og hagsmunaaðila á landsvísu. Lánin munu verða á viðráðanlegum vöxtum til langs tíma svo uppbygging geti átt sér stað. Þetta er nauðsynlegt vegna þess á næstu árum, munum við verða að treysta á íslensku krónuna. Það verður að hlúa að henni sem gjaldeyri og verður það  gert með fyrirtækjum sem geta framleitt sína vöru innanlands til útflutnings, öðruvísi byggjum við ekki upp traust erlendis á krónunni. Ríkið mun þurfa að nota fjármagn til endurreisnar atvinnulífsins og er þá betra að það sé í formi láns til fyrirtækja heldur en beinni fjárfestingu, við vitum jú ekki hvenær fyrirtæki verða seljanleg aftur með góðu móti.

Frjálslyndi flokkurinn lagði fram hið svokallaða biðreikningafrumvarp sem var ætluð sem almenn aðgerð til handa heimilunum í landinu. Er þetta í hnotskurn áætlun þar sem verðtryggingar álag er fryst í 5 % + raunvextir, myndi það þýða að í stað þess að vera að borga yfir20 % í vexti og verðbætur væri fjölskylda að borga 10 % . Það sem útaf stendur er svo lagt á biðreikning. Með þessu er hægt að kaupa tíma til að finna raunverulegar lausnir fyrir heimilin í landinu, því það hefur núverandi stjórn ekki tekist. Einnig er hægt að fá yfirsýn yfir hve mikið muni vera á biðreikningum til afskriftar. Þetta yrði líka gulrót til að ná verðbólgu niður í 5 % þar sem að þá hættir að leggjast inn á biðreikninga. Markmiðið er svo að afnema verðtrygginguna með öllu á nokkrum árum.  

Við gerum okkur alveg grein fyrir að með þeim skuldum sem ríkið hefur tekið á sig er gat á ríkisfjárhagnum. Taka þarf til hendinni með það að markmiði að semja niður eitthvað af þeim skuldum sem við sitjum uppi með. Samfara því mun þurfa að fara í skattahækkanir og niðurskurð að einhverju leyti. Frjálslyndi flokkurinn telur að stóreignaskattur verði ein lausn og hátekjuskattur önnur. Frítekjumark láglaunafólks verður aftur á móti að hækka. Að okkar mati er hægt að fara í niðurskurð á utanríkisþjónustu, varnarmálastofu og öðru þvílíku. Verður í lengstu lög að halda heilbrigðiskerfinu frá niðurskurði.

Frjálslyndir hafa lengi verið talsmenn afnáms kvótakerfisins, þetta er stórmál sem ekki verður afgreitt á einum degi. Hugmynd okkar gengur út á að inndraga aflaheimildir og skuldir vegna þeirra í auðlindasjóð. Verður kvótinn svo leigður út af ríkinu og greiðsla fyrir hann væri í formi prósenta af fengnu verði á fiskmarkaði. Færi hluti af gjaldinu svo til þess sveitarfélags þar sem kvótinn er leigður, hluti til ríkisins og hluti í skuldapottinn. En þetta er langtímaverkefni sem þarf að ígrunda vel. Aftur á móti er vel hægt að leyfa frjálsar handfæraveiðar smábáta. Erum við þar að tala um 2 rúllur á mann. Má áætla að um heildarafli á ári sé um 20.000 tonn. Þessi aðgerð getur skapað um 300 störf með stuttum fyrirvara og er í raun bráðnauðsynleg í núverandi ástandi.

Þetta er byrjun á því að byggja upp þjóðina og landið með raunsæjum markmiðum og áætlunum. Þetta er byrjun sem Frjálslyndi flokkurinn er tilbúin að taka þátt í. En þetta verður líka að vera byrjun á samvinnu á milli flokka á þingi með hagsmuni þjóðarinnar í fyrsta sæti og ekki í því þriðja eins og oft virðist vera.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband