Litla týnda þjóðin

Einu sinni var lítil þjóð sem bjó í sátt og samlyndi við náttúröflin og landvættina á lítilli eyju út í ballarhafi. Þessi þjóð var friðsamleg og að mörgu svolítið trúgjörn. Hún trúði því að allt væri í himnalagi í litla lýðveldinu og að af hverju strái drypi hunang.

Dag einn gerðust miklar hamfarir í litla lýðveldinu sem þjóðin kunni ekki deili á. Þjóðin stóð máttvana, magnvana, hissa og ráðalaus frammi fyrir manngerðum náttúruhamförum, þó var þessi litla þjóð vön og kunni að bretta upp ermar og spýta í lófa og takast  á við náttúruhamfarir í aldanna rás. Þetta var sem sagt ekki í eðli sínu ráðalaus þjóð.

Þjóðin varð reið og safnaðist á torg út og hrópaði á réttlæti sér og sínum til handa. Því litla þjóðin hafði ekki haft hugmynd eða gert sér grein fyrir að meðal þeirra leyndust skúrkar af verstu gerð. Þessi skúrkar, í dulargervi bankamanna, höfðu tæmt sjóði litlu þjóðarinnar og í skjóli nætur komið þeim fyrir í paradís skúrkanna, þar sem ekki var hægt að ná til þeirra aftur.

Litla þjóðin stóð á torgum vikum saman og barðist gegn óréttlæti sem henni var fyrirmunað að skilja að yfir hana gengi. Litla þjóðin notaði það sem hún átti til í þessari baráttu og gaf sig alla í verkið eins og hennar er von og vísa í erfiðleikum.

Þegar fyrsta baráttan skilaði þjóðinni nýjum valdhöfum, varð hún í hjarta sínu glöð og með henni kviknaði von. Þjóðin trúði því að nýju valdhafarnir myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að ná í rassinn á skúrkunum fljótt og örugglega, sækja sjóðina og verja litlu þjóðina fyrir árás annarra skúrka frá skúrkaparadísinni.

Nýju valdhafarnir settust í ráðastóla og tíminn leið, litla þjóðin trúði að núna væri hún á réttri leið til betri framtíðar. Tíminn og leið og það kom á daginn að litla þjóðin hafði enn einu sinni í trúgirni sinni og von látið gabba sig. Nýju valdhafarnir hleyptu skúrkunum inn í landið bakdyramegin og báru hag litlu þjóðarinnar ekki fyrir brjósti eins og hún hafði trúað.

Skrímslið kom og þóttist ætla að hjálpa litlu þjóðinni út úr erfileikunum. Það kom með gilda sjóði til að lána litlu þjóðinni og valdhafarnir tóku því fegins hendi. Litla þjóðin hefur svo vaknað óþyrmilega af þyrnirósarsvefni, því skrímslið  krefst þess að litla þjóðin gefi eftir þau forréttindi að hugsa hvert um annað.

Valdhafarnir sem litla þjóðin batt allar sínar vonir við  sviku hana í hendur skrímslinu. Skrímslið í samvinnu við valdhafa gerði áætlanir litlu þjóðinni til handa sem gerðu henni erfitt um vik að gera það sem hún hafði alltaf gert, redda sér.

 Litla þjóðin var vön að vinna og standa fyrir sínu. Nú stóð hún frammi fyrir því að lífsviðurværi voru numin brott, húskofarnir lentu í höndum skúrkana og litla þjóðin týndist á tilfinningalegum og efnislegum vergangi.

Eftir því sem tíminn leið misst litla þjóðin vonina og viljann til að berjast. Vonleysið var mikið hjá litlu þjóðinni sem skildi ekki hvernig valdhafarnir gætu skilið hana eftir í reiðileysi.

 Litla þjóðin stendur því  frammi fyrir því í dag að verða að finna aftur fram forn lífsgildi sem hún týndi þegar að hin efnislegu gildi urðu hið eina sanna verðmæta og stöðu mat. Nú verður litla þjóðin að þjappa sér saman og muna að það sem skiptir máli í lífinu er fjölskylda, náungakærleikur, samtaða og samvinna.

Með þetta að leiðarljósi getur litla þjóðin barist fyrir réttlæti og endurreisn samfélags sem er ekki spillt af skúrkum sem vilja aðeins nýta sér litlu þjóðina sér til framdráttar.

Köttur út í mýri setti upp á sig stýri úti er ævintýri.........

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Það er ekkert annað eftir fyrir almenning í landinu en að taka málin í sínar eigin hendur. Ég verð sífellt reiðari og reiðari.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 18.11.2010 kl. 22:45

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ásta Þetta er góð grein og sönn. Arinbjörn værir þú musteris riddari þá mættir þú gera það sem þarf og þyrftir ekki að segja frá því.

Valdimar Samúelsson, 19.11.2010 kl. 00:22

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála þetta er ÖMURLEGT ástand.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.11.2010 kl. 11:37

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Virkilega góður pistill. Ég held að svo mikil orka hafi farið í búsáhaldabyltinguna að þjóðin sé  ekki búin að ná vopnum sínum á ný.

Ég óttast að þegar að því kemur að þjóðin rumskar þá megi búast við alvarlegri aðgerðum en við höfum þekkt.

Það átti enginn von á grænum skógum og fuglasöng þegar vinstri stjórnin tók við. Öllum var ljóst að gangan yrði erfið en fólkið var reiðubúið að takast á við verkefnin með valdhöfunum. En óneitanlega brá okkur í brún þegar við komumst að því að við höfðum verið blekkt og ríkisstjórn velferðar og réttlætis tók til við að berja okkur í hausinn.

Sú var lengi trú á Íslandi að ekkert væri börnum hollara en að vera flengd daglega. Þessi trúarbrögð hefur okkar norræna velferðarstjórn haft að leiðarljósi og ekki líkur á að trúskipti séu í nánd.

Tími uppgjörs mun koma. 

Árni Gunnarsson, 19.11.2010 kl. 14:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband