Opið bréf til alþingismanna og ráðherra

Reykjavík 05.04 2011

 

Ó-kæri ráðherra/þingmaður

 

Við undirritaðar erum sjálfstæðar, einstæðar, ákveðnar mæður/námsmenn. Staða okkar er í grunnin ekki ólík, erum báðar í fullu námi, á námslánum, eigum beyglaða gamla bíla með engum lánum (oftast bensínlausir reyndar) og eigum sjö börn samanlagt. En ekki nóg með það, heldur erum við einnig frænkur, aldar upp af enn sjálfstæðari, einstæðum mæðrum sem veifuðu brjóstahöldurunum sínum og kyrjuðu rauðsokkusöngva fram á nótt. Í stuttu máli sagt erum við aldar upp við að taka ábyrgð á okkur sjálfum og okkar, vera sjálfstæðar og standa og falla með því sem við gerum. Okkur var einnig kennt að skulda eins lítið og hægt er, lifa ekki á lánum, borga skuldirnar okkar og almennt vera ábyrgar í fjármálum.

Nú er staðan þannig að við erum nákvæmlega eins og við vorum fyrir hrun en í dag er okkur orðið illmögulegt að halda því áfram þar sem að endinn sem áður náði saman er orðin að garnaflækju sem endar hvergi.

Ástæðan fyrir því að við skrifum þetta bréf er sú að við undrum okkur á aðgerðum ríkisvaldsins hvað varðar grunnneyslu almennings svo sem mat, bensíni, tannlæknakostnaði og ýmsu fleiru sem til fellur í barnafjölskyldum. Staðan er orðin sú að ekki má gera ráð fyrir nauðsynlegum aukaútgjöldum t.d. kaupum á íþróttaskóm, gleraugum eða klippingu nema því sé deilt á alla mánuði ársins því annars er peningurinn búinn fyrir miðjan mánuð.

Við sjáum miklar breytingar á kostnaði við heimilishald síðustu mánuði. Fjárhagsleg staða okkar hefur ekki breyst síðasta árið og fyrir hálfu ári síðan náðu endar saman í hverjum mánuði en í síðasta mánuði var bankabókin tóm í kringum 20. mars. Við höfum farið þá leið að spara við okkur allt sem hægt er að spara og því miður þýðir það t.d. að matarvenjur barnanna okkar eru nú töluvert aðrar en áður var.

Eftirfarandi eru útgjaldarliðir sem við getum ekki klofið við núverandi aðstæður:

  • Ávaxtaskálin fer að enda í appelsínum á jólunum en banana alla hina dagana þar sem að aðrir ávextir svo sem vínber, plómur, ananas og melónur hafa hækkað um meira en helming. Sömu sögu má segja um grænmeti þó að staðan þar sé aðeins skárri.

  • Meira er keypt af unnum, ódýrum mat sem er miður þar sem heilbrigði helst í hendur við hollar matarvenjur.

  • Önnur afleiðing af ódýru, óhollu mataræði eru tannskemmdir sem er ekki í frásögu færandi nema af því að við höfum ekki efni á því að fara með börnin til tannlæknis.
  • Líka gaman að segja frá því að þó að barni vanti gleraugu og vegna sjónskekkju verði að fara til augnlæknis þá höfum við ekki heldur efni á því.
  • Guð hjálpi íþróttaforeldrum þar sem íþróttaskór kosta jafn mikið og mánaðarleg afborgun af litlu bankaláni. Framtíðarhandboltahetjur Íslands munu væntanlega spila berfættir því að foreldrarnir gátu aldrei keypt skó.
  • Einnig er eins gott að engin börn þurfi innlegg, göngugreiningu eða annað sem krefst sérfræðiþjónustu. Vonum bara að allir eignist fullkomin börn með beinar tennur, 100% sjón og jafn langar lappir.

 

Við erum alveg tilbúnar að taka á okkur eðlilegar álögur til að rétta þjóðfélagið af en ef hækkanir á mat, bensíni og öðrum nauðsynjum halda áfram í sama takt og hafa verið þá er engin leið fyrir okkur að lifa frá mánuði til mánaðar. Við undrum okkur á uppsetningu norræna velferðakerfisins á Íslandi sem virðist á óskiljanlegan hátt herða lífsskilyrði okkar...til muna!! Einnig getum við ekki annað en íhugað hvort að staðan sé ekki að verða sú að einstætt foreldri „neyðist" inn í sambúð með öðrum aðila þar sem að það er ljóst að endar ná ekki saman nema með tveimur fyrirvinnum.

Eins og þetta lítur út fyrir okkur í dag eru Íslendingar aftur á leið til hinna rómuðu torfkofa með sjálfsþurftarbúskap, heimaprjónuðum fötum, pottaklippingu, grænmetisgarðs og þvingaðrar sambúðar þar sem að einn aðili getur ekki séð fyrir heimilishaldinu fjárhagslega.

Ó-kæri þingmaður/ráðherra, hvað leggur þú til að við gerum til að bæta stöðu okkar miðað við núverandi aðstæður?

 

Því miður með lítilli sem engri virðingu,

Ásta Hafberg og Eyrún Dögg Ingadóttir

           


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Nanna Ólínudóttir

Takk fyrir þetta Ásta mín, snilldarbréf hjá ykkur frænkum! Vonandi að þetta vekji liðið á Austurvellinum til umhugsunar, þó ég sé því miður ekki mjög bjartsýn í dag!

Berglind Nanna Ólínudóttir, 5.4.2011 kl. 12:51

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábært bréf, láttu okkur vita ef og þegar þið fáið svar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.4.2011 kl. 13:47

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég stóð í ykkar sporum í 20 ár. Ég vann myrkana á milli til að dætur mínar þyrftu ekki að líða fyrir aðstöðumuninn sem einföld fyrirvinna bjó þeim. Ég er enn að bíta úr nálinni fyrir það í mínu persónulega efnahagslífi en frosin laun og hækkandi vöruverð, skattar og vextir hjálpa ekki til... Það er útlit fyrir að konur sem kjósa að ala upp börnin sín einar sé refsað fyrir það með því að dæmast til fátæktar út lífið fyrir þvílíkt abnormal uppátæki

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.4.2011 kl. 01:17

4 identicon

This is what happens when a democratic majority rules (read: mob rule). 51 get to decide over the 49. Soon you must come to the understanding that it doesn't work - never had and never will. Sad to see all the suffering of once a small but great nation.

Frederik Krautwald (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 02:05

5 identicon

Ráðherra/þingmaður - líttu þér nær....

Ólöf Lóa Jónsdóttir (IP-tala skráð) 28.4.2011 kl. 15:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband