22.5.2013
Forgangsröðun fjármagnsins
Við lifum í samfélagi þar sem forgangsröðun fjármagnsins er númer eitt. Það kristallaðist í gærkvöldi þegar Eir komst enn einu sinni í fréttir vegna lélegrar stjórnunar, lélegrar forgangsröðunar og lélegs fjármálavits af hálfu stjórnar Eirar.
Eins og venja er á Íslandi tekur enginn ábyrgð, enginn hefur beðist afsökunar og enginn hefur sagt af sér. Allt sem hefur gerst er bara business as ususal og það þó að íbúar Eirar, sem hafa unnið sitt langa líf og eiga nú rétt á sinni afslöppun og áhyggjuleysi, sitji með tapaðan ævisparnað og áhyggjur af því sem verður.
Þarna kristallast í raun allt sem er að í samfélaginu okkar. Manneskjan hefur ekki vægi, lífsgæði hafa ekki vægi, lífskjör hafa ekki vægi og velferð hefur ekki vægi. Það sem ræður ferð er fjármagnið og fjármálagjörningar og ábyrgð á gjörningnum er enginn því þarna er hið alráðandi fjármagn á ferð og á því tekur enginn ábyrgð.
Þetta er ekki fyrsta dæmið um það að manneskjan fari halloka í viðureign sinni við peninga og að það skuli geta gerst, það er að segja að manneskjan tapi fyrir pappír með mynd og tölu á, hlýtur eitt og sér að gera það að verkum að við setjum STÓR spurningamerki við forgangsröðunina í samfélaginu.
Ég fyrir mitt leiti sit allavega og fæ hroll niður bakið þegar ég hugsa um það hvað þetta er undarleg forgangsröðun.
Þessi forgangsröðun er nokkuð sem við verðum að breyta í þjóðfélaginu og það er ekki einu sinni spurning.
Athugasemdir
þetta er því miður veruleikinn í dag og ekkert sem bendir til að þetta muni lagast á næstu árum.Við höfum þó alltaf vissuna um hvað við sem samtaka þjóð erum fær um að gera og komandi kynslóðir munu geta flett því upp í bókum sögunnar.Spurningin hvort þjóðin sé ekki ennþá of södd til að rísa upp og krefjast réttar síns en ég spái því að það breytist á næstu misserum
Páll Heiðar (IP-tala skráð) 22.5.2013 kl. 10:38
Góð orð mín kæra og öll sönn, utan eitt sem gleymdist. Trú fólks á þjóð sína og sjálf sig hafa heldur ekki vægi í dag.
Þjóðin getur hæglega endurreist þjóðveldi með raunlýðræði hvenær sem er, en hún trúir ekki að það sé hægt. Hinn almenni maður bíður þess frekar að hlutir séu gerðir fyrir hann en að bera sig eftir þeim. Það hryggir mig að skrifa þennan daufa sannleika.
Því berst ég daglega fyrir því að fleiri Íslendingar vakni til dáða og taki virka afstöðu, hver svo sem hún er, bara að þeir vakni.
Guðjón E. Hreinberg, 22.5.2013 kl. 18:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.