25.5.2013
Þing og þjóð
Nú er ný ríkisstjórn tekin við taumunum og eru ansi skiptar skoðanir á henni alveg eins og þeirri sem sat á undan. Fólk er annað hvort mjög hrifið eða flemtri slegið yfir þessari nýju stjórn.
Reyndar virðist það vera sem svo að flestir, óháð því hvort að þeim lítist á nýju stjórnina eða ekki, séu með stórann kvíðahnút gangvart næstu fjórum árum á þingi vegna þess að það er hrætt um að þau verði gegnsýrð af málþófi, rifrildum og þrasi eins og síðustu fjögur ár voru.
Fólk orkar hreinlega ekki fjögur svoleiðis ár í viðbót.
Sú staðreynd að traust fólks á alþingi var nánast ekkert á síðasta kjörtímabili er líka eitthvað sem allir flokkar á þingi núna þurfa að taka til greina. Traust fólks í þinginu hvarf vegna lélegra vinnubragða, loforða sem voru brotin og vegna þess að fólk upplifði ekki tengingu milli þings og þjóðar.
Sem sagt almenningur upplifði að þingmenn gátu ekki sett sig í aðstæður þeirra eða sýnt skilning fyrir því sem var að gerast út í þjóðfélaginu og leyst það almenningi til hagsbóta.
Þetta traust er ekki endurskapað þó kosningar séu nýafstaðnar, það er bara á skilorði.
Þessar kosningar núna voru svona eins og síðustu kosningar, reiði og vantraustskosningar. Reiði og vantraustskosningar eru kosningar þar sem fólk kýs öfugt við það sem var fyrir til að refsa. Það gerðist 2009 og það gerðist líka núna að hluta. Svona kosningar eru ekki farsælar fyrir neina þjóð, sérstaklega ekki ef þær endurtaka sig.
Ný stjórn er tekin við og nú ætlar almenningur að gefa henni séns. Vandamálið er að þolinmæði almennings er ekki mikil og þetta þing verður að vanda sig við að byggja brú á milli þings og þjóðar aftur og helst sem fyrst svo að einhver sátt fari að myndast á ný.
Ef þessi stjórn meinar það sem er í stefnuyfirlýsingunni þá mun hún núna róa lífróður í að skapa traust og vinna traust almennings á stjórnmálum aftur. Hún mun gera allt sem hún getur til að breyta vinnuaðferðum, draga mismunandi aðila utan úr þjóðfélaginu að borðinu til skrafs og ráðagerða, stunda alvöru samræðupólitík, auka aðkomu almennings að málum og fá stjórnandstöðuna í samstarf með sér.
Þessi upptalning er bara lítill hluti af því sem þarf að gerast til að það sé hægt að fara að byggja upp samfélag í sátt og það er vonandi að þessari stjórn beri gæfa til að gera það sem stendur svo fagurlega í stefnuyfirlýsingu þeirra og byrja þá pólitísku heilun sem þarf að eiga sér stað milli þings og þjóðar.
Athugasemdir
Frábær pistill Ásta og góð nálgun á stöðu þjóðar í dag. Fólk vildi trúa því að nú fylgdu nýir tímar nýju fólki en nú hefur tónninn verið gefinn og margir vaknaðir með ærandi kosningatimburmenn. Gömlu foringjarnir sem voru algjörlega hunsaðir í kosningabaráttunni voru mættir til myndatöku þegar stjórnin var tilkynnt og minntu óþægilega á sig.Ef ég ætti að spá fyrir framtíðina þá fara stjórnarflokkarnir í næstu kosningar með nýja leiðtoga sem boða nýja tíma og stór hluti kjósenda mun gleypa það hrátt.
Páll Heiðar (IP-tala skráð) 1.6.2013 kl. 10:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.