Hvernig minnkum við atvinnuleysið?

Stærsta verkefni okkar fram undan er minnkun atvinnuleysis í landinu. Því miður er ekki hægt að segja annað en þar erum við með ærið verkefni fram undan. Ég segi því miður vegna þess að það sem við erum að takast á við núna er ekki bara kreppan sem er skollin á, heldur líka sú staðreynd að stjórnvöld hafa ekki verið með neina markvissa atvinnu-uppbyggingar stefnu fyrir landið.

Fyrir landsbyggðina hefur þetta verið samfelld harmaganga síðustu áratugina. Bæir hafa svo til lagst af og ekki hefur verið farið í neina markvissa uppbyggingu. Þannig að í dag eigum við eitt stykki kreppu og ekkert of mörg fyrirtæki sem væri hægt að ýta undir núna og styrkja til stækkunar og meiri framleiðni.

Við verðum að taka þá vinnu núna, við verðum að byggja okkur fyrirtækjaflóru sem er margþætt og dreifðari en nú er. Sú stefna að setja eggin alltaf í eina körfu er nokkuð sem hefur ekki hjálpað okkur núna og við ættum að venja okkur af þessari vitleysu.

Við eigum margt gott og marga sem eru alveg til í að fara í vinnuna sem felst í því að koma nýjum fyrirtækjum á fót. Það sem við eigum og getum virkjað núna er til dæmis:

  • Fiskurinn, frjálsar handfæraveiðar o.fl.
  • Landbúnaður, framleiðsla á býlum beint til neytenda
  • Ferðaþjónusta,ótakmarkaðir möguleikar
  • Grasalyf og hráfæði
  • Tækni og iðnaður
  • Handverk og hönnun
  • framleiðsla innanlands
  • Útflutningur á ofangreindu

Við eigum fólkið sem er með hugmyndirnar, sumar komnar vel á veg og aðrar kannski skemmra á veg komnar. Þarna liggja mörg tækifæri og hægt að virkja okkur sjálf mun betur en nú er gert. Auðvitað er þetta versti tími til að fara í þessa vinnu en þarna er því miður skýrasta dæmi um getuleysi stjórnvalda síðustu ára.

Nú er talað um að ríkið verði að fjárfesta í fyrirtækjum, taka þau yfir og selja seinna. Þetta finnst mér vera vanhugsað. Einhversstaðar þarf ríkið að fá pening til að fjárfesta og hvað ef ekki er hægt að selja aftur? Er þetta þá bara enn meira tap hjá ríkissjóði?

Eins og staðan er í dag mun alltaf verða einhver fórnarkostnaður í þeim ákvörðnum sem teknar verða varðandi þjóðarbúskapinn, að halda annað er rugl. Mér finnst samt að í stað þess að taka yfir fyrirtæki og selja seinna, ætti ríkið að setja á fót lánasjóð í samvinnu við hagsmunaaðila.

Lánasjóður þessi myndi lána fyrirtækjum til endurfjármögnunar og þeim sem eru að fara að opna ný fyrirtæki. Þessi sjóður ætti að lána öllum og ekki bara sérútvöldum atvinnugreinum. Auðvitað þyrfti aðhald í formi enduskoðenda og fagaðila sem færu yfir stöðu fyrirtækja sem þurfa endurfjármögnun og viðskiptaáætlanir.

Þetta væri í formi langtímalána á viðráðanlegum vöxtum. Best væri að gefa fyrirtækjum 2 ár þar til fyrstu afborganir falla svo þau nái að byggja sig upp. Með því að fara þessa leið þarf ríkið ekki að taka allan kostnað á sig við fjárfestingar sem geta endað með ósköpum. Þarna er komin leið til að halda í uppbyggingu á landsvísu og ríkið er ekki bara að tapa pening.

Með markvissri og skjótri aðstoð og ráðgjöf frá þeim aðilum sem nú þegar eru til staðar, eins og nýsköpunarmiðstöð og atvinnuþróunarfélögum um nær allt land ætti að vera hægt að bregðast fljótt við og keyra lífvænleg fyrirtæki í gang. Ekki má þarna hengja sig í stærð þeirra heldur lífslíkur. Fyrirtæki sem byrjar í þremur starfsmönnum getur alveg verið komið í 6 nokkrum árum seinna.

Það er ekki til nein létt leið núna og mjög liklega ekki nein skjót leið heldur. Við sem þjóð höfum sýnt það og snnað í gegnum tíðina að við höfum hæfileikan til að takast á við erfiðleika og vinna úr þeim. Núna er tíminn þar sem við þurfum að virkja okkur sjálf og byggja upp til framtíðar með þeirri atorku og kjarki sem hefur einkennt okkur í gegnum tíðina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta er svona nokkurn veginn sá pistill sem ég hefði glaður ritað mitt nafn undir. Og það geri ég nú hér með.

Árni Gunnarsson, 7.4.2009 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband