24.4.2009
Það gleymdist
Hvað var það sem ríkistjórn hinna 80 daga gerði fyrir fólkið í landinu?
Jú við getum tekið út séreignasparnaðinn....fínt ef maður á hann. Aftur á móti er spurning um hve vel hann nýtist þegar hann er greiddur út á löngum tíma.
Við fengum óskertar barnabætur. Það nýtist sumum og öðrum ekki. Það gerði það reyndar að verkum að loksins síðan við hjónin komum til landsins fáum við einhverjar barnabætur. Tekjumarkið er jú frekar hallærislegt , svo um leið og maður er orðin næstum því meðaltekjumanneskja sést ekki mikið af þeim.
Hækkun vaxtabóta, ja þýðir það að við fáum smá. En gæti líklega hjálpað einhverjum.
Greiðsluaðlögunin, miðað við upplýsingar getur hún tekið 4-7 mánuði. Ég reyndar set stórt spurningamerki þarna. við erum nú frekar stolt fólk og að þurfa að fara þennan langa ferli held ég að margir geti ekki kyngt.
Gjaldrotum, uppboðum og svartlistingum átti að halda niðri, miðað við mínar upplýsingar hefur það ekki gerst.
Gera átti auðveldara að frysta lán hjá Íbúðalánasjóði, en þar gleymdist víst að breyta reglugerðum svo hægt væri að auðvelda ferlið. Eins og staðan er í dag vinnur Íbúðalánasjóður eftir reglum fyrir hrun og er með Ríkisendurskoðun á bakinu um að farið sé eftir þeim.
Það sem mér er óskiljanlegt er hvers vegna ekki var farið í almenna aðgerð, eins og biðreikningana til að forða því að fleiri og fleiri kæmust í þrot? Hversvegna hafði þetta fólk ekki dug í sig til að sýna það og sanna í eitt skipti fyrir öll að við þjóðin skiptum mestu máli. Það hefði verið hægt að forða fólki frá því að fara í þrot fjárhagslega og þá einbeita sér að því að hjálpa þeim sem virkilega þurftu á því að halda. En það var ekki gert. Nú verður staðan sú að fólk sem hefði ekki þurft hjálp mun verða að fá hana fyrr en seinna. Er eitthvað rökrétt við þetta.
Staðreyndin er sú að nýju bankarnir keyptu skuldir þeirra gömlu á hálfvirði, en innheimta þessar skuldir á okkur 100%. Hvar eru afskriftir almenningi til handa?
Það gleymdist greinilega að fara dýpra í hlutina, eða viðurkenna vöntun á yfirsýn. Biðreikningafrumvarpið hefði getað skapað þessa yfirsýn og ró til að finna raunverulegar lausnir. Það hefði meira að segja skapað yfirsýn yfir afskriftir heimilanna í landinu.
Ég er hrædd um að ef fólk kýs fjórflokkana yfir sig á sama hátt og áður séum við eins langt frá samvinnu og hag fólksins í landinu og mögulegt er. Hvað viljum við?
Athugasemdir
Ásta,
menn verða að muna að það tekur tíma að koma hlutum í framkvæmd. Þessi ríkisstjórn hefur verið við völd í rétt rúma 80 daga, hún kom málunum í gegnum Alþingi, setti reglur, gaf tilmæli og annað slíkt og síðan tekur það viku eða þrjár (og stundum fimm) að koma hlutum í farveg innan þeirra stofnanna sem sjá um framkvæmdina. Til að svara einstaka atriðum sem þú minnist á:
"gjaldþrotum, uppboðum og svartlistingum" verður haldið niðri með greiðsluaðlöguninni, til þess er hún. Það er rétt að við erum stolt fólk, en ég er sannfærð um að fólk vill frekar fara greiðsluaðlögunarleið og halda íbúð sinni og framtíðartekjum, heldur en að fara gjaldþrotaleið og missa allt.
Hækkun vaxtabótanna lækkar heildargreiðslubyrði ársins hjá mjög mörgum fjölskyldum. Allir þeir sem vegna samanlagðrar skulda- og eignastöðu hafa fengið fullar vaxtabætur hingað til, fá 25% hækkun, það munar aldeilis um minna.
Það má ekki gleyma því að reglur Íbúðalánasjóðs um greiðsluerfiðleikaúrræði eins og þær voru fyrir hrun, voru mjög góðar og hafa hjálpað mjög mörgum aðilum undanfarna mánuði. M.a. hafa frystingar vegna sölutregðu verið mikið notaðar af aðilum sem sitja með tvær fasteignir í fanginu. Ég veit ekki hvaða hluta þessara reglna þú ert að tala um að hafi ekki verið settar og þætti vænt um að fá frekari skýringar svo ég geti tekið afstöðu til þess hvað þú átt við.
Varðandi almennar aðgerðir eins og hugmyndir Frjálslyndra um biðreikninga, hugmyndir Borgarahreyfingar um afturfærslu vísitölu eða hugmyndir Framsóknar um niðurfellingu, þá eru þær allar því marki brenndar að þær eru ómarkvissar (þ.e. þær eru fyrir fleiri en þá sem mest þurfa, jafnvel fyrir þá sem enga aðstoð þurfa) og þannig líklegar til þess að vera óhagkvæm nýting á mjög litlum fjármunum ríkisins. Við verðum að forgangsraða björgunaraðgerðum okkar þannig að þeir sem eru verst staddir fái fyrstir aðstoð, það hefur núverandi ríkisstjórn gert með úrræðum fyrir þá sem eru í greiðsluvanda. Á sama tíma hefur verið komið með úrræði til þess að draga úr líkum á að greiðsluvandi aukist hjá þeim sem ekki eru þegar í greiðsluvanda (hér skipta vaxtabæturnar miklu máli, sem og heimild til þess að taka út séreignalífeyrissparnað, sem hvoru tveggja eykur greiðslugetu fjölskyldunnar - svo ekki sé minnst á greiðslujöfnunarúrræðið, þar sem hægt er að styðjast við vísitölu sem lækkar greiðslubyrðina).
Eins er það ekki rétt að nýju bankarnir hafi keypt lánasöfn eldri bankanna á hálfvirði - frá því hefur ekki verið endanlega gengið eins og fréttir dagsins bera með sér. Hins vegar er ekki ólíklegt að lánasöfnin verði keypt á lægra virði en nafnvirði þeirra gefur til kynna. Að sjálfsögðu verður síðan haldið áfram að innheimta samkvæmt nafnvirði, þar til að greiðslufalli skuldara kemur. Það er nefnilega lykilatriðið, lánasöfnin eru keypt á undirverði vegna þess að mat aðila er að það fáist ekki greitt meira en sem nemur því verði. Ef menn fara að hræra frekar í eftirgjöf, þá er verið að rýra eignasafn bankanna enn frekar, sem eykur líkurnar á því að ríkið þurfi að leggja fram aukið eigið fé til þess að tryggja að eiginfjárhlutfall bankanna sé í samræmi við alþjóðlegar reglur.
Það gleymdist nefnilega alls ekki að fara dýpra í hlutina, vandinn liggur í að búið er að reikna flesta þessa þætti og menn hafa gert sér grein fyrir því að ríkið stendur verr fjárhagslega ef í aðgerðirnar er farið en ef þeim er sleppt. Með því móti gætum við ekki staðið við samkomulag það sem gert var við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem leiddi til þess að lánakjör okkar á fjármögnunarmarkaði yrðu enn verrri sem leiddu til þess að enn lengri tíma tæki fyrir okkur að loka fjárlagagatinu, því vaxtakostnaður myndi stóraukast. Það myndi að lokum leiða til þess að vandinn yrði dýpri og það tæki lengri tíma að komast út úr kreppunni.
Þess vegna eru aðgerðirnar með þessum hætti, þeim verst settu er bjargað fyrst en á sama tíma reynt að tryggja að aðrir komist ekki í þá stöðu. Síðar, þegar komið er betur í ljós hvernig innheimtur verða á lánasöfnum banka og vaxtakjör, niðurskurður og tekjuaukning ríkissjóðs skilar ítarlegri fjárhagsáætlun næstu þriggja ára, þá er rétti tíminn til þess að skoða almennari aðgerðir sem ríkið og aðrir kröfuhafar ráða við.
Elfur Logadóttir, 24.4.2009 kl. 15:13
Elfur, Almennar aðgerðir eins og biðreikningarnir hefðu gert það að verkum að fólk sem fer núna að nálgast þrot hægt og rólega hefði getað sleppt því og staðið við sínar skuldbindingar. Þeir sem eru borgunarmenn fyrir sínu, hefðu ekki þurft að taka þátt í þessum biðreikningum. Þetta er almenn aðgerð en er góð upp á það að gera að stjórnvöld gætu einmitt notað tímann í ró til úrlausna.
Ég sé reyndar neðar í svari þínu að aðgerð sem þessi hefði hefði gert það að verkum að ekki væri hægt að standa við skuldbindingar við AGS, hvaða hagsmunum er verið að þjóna? Þjóðarinnar eða AGS?
Mér var tjáð af ráðgjafa hjá Íbúðalánasjóði að reglugerðum hefði ekki verið breytt vegna hrunsins til að greiða og einfalda götu þeirra sem eru í vandamálum. Það er til dæmis ennþá svo að ef greiðslubyrði skuldara er ennþá hærri en greiðslugeta eftir frystingarárið, á þeim útreikningum sem þinn viðskiptabanki lætur Íls. í té þá færð þú neitun á allt ferlið og hefur í raun engan möguleika að komast út úr þessu. Einnig er nokkuð ljóst að sumir muni ekki ná sér á strik fjárhagslega á þessum tíma. Fólk sem veit að það muni tapa tekjum til dæmis í næsta mánuði getur ekki sótt um frystingu sem fyrirbyggjandi aðgerð.
Það virðist sem skuldasafn bankana verði selt á lágu verði og gert er ráð fyrir að skuldari geti ekki greitt. Hvað verður um hann þá ? Uppboð?
Að mínu mati er bara einn tapari hér í fleirtölu og það er þjóðin í heild. Lausnir eru ekki bara lausnir og þó eitthvað líti vel út á blaði, getur verið ansi erfitt að fá það til að ganga upp í real life.
Ásta (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 07:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.