8.5.2009
Fríið búið
Jæja ég er komin af stað aftur. Ég tók mér bloggfrí og ætlaði í raun að láta bloggið kjurrt liggja mun lengur en þetta.
Málið er að ég hélt í einlægni minni, kannski eftir að hafa setið kosningafundi og pallborð með hinum virtu þingmönnum fjórflokkana að stjórnarmyndun núna yrði í raun til málamynda. S og VG voru jú búin að fara stórum orðum um samvinnu eftir kosningar og láta í því liggja að ekki yrði að fara í miklar viðræður. Ég held nú að margir hafi tekið því sem svo að þar sem þessir tveir flokkar voru búnir að vinna saman í stjórn í 83 daga fyrir kosningar að þyrfti ekki að fara í langar viðræður um stjórnarmyndun.
Það sem komið hefur í ljós eftir kosningar er að mínu mati þetta:
Allt sem ég og fleiri höfum verið að reyna að segja um inngöngu í ESB hefur sýnt sig að vera á rökum reist. Þetta er stærra og lengra ferli en fólki hefur verið talið trú um á Íslandi. Evran er í sjónmáli í fyrsta lagi eftir 4 ár og mjög líklega seinna, raunhæft væri að tala um 8 ár. Fyrir kosningar enduðu öll svör Samfylkingarinnar á....svo göngum við í ESB. Þeim tókst að gera mál sem er að engu leyti flokkspólitískt að kosningamáli. Þetta er og verður Þjóðmál og ég held að allir , hvort sem þeir eru með eða á móti ESB, sjái skynsemina í að skoða málið vandlega og fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Stjórnvöld ættu að sjá sóma sinn í því að vinna í þessu máli þvert á flokka og upplýsa þjóðina á hlutlausan hátt með staðreyndum um ESB inngöngu og ekki bækling eins og kom frá Samfylkingunni sem minnti mann helst á spænska rannsóknarréttinn og nornaveiðar.
Það sem skiptir máli núna er að vinna hérna heima, það skiptir máli hvernig á að bjarga heimilum og fyrirtækjum frá gjaldþroti. Það er mikilvægt að þeir aðilar sem sitja við stjórnartaumana séu hugaðir og geti hugsað út fyrir kassann. Það er mikilvægt að lausnir séu fundnar sem þjóna hagsmunum þjóðarinnar. Það sem er mikilvægast þó er að flokkarnir inná þingi sjái sóma sinn í að vinna saman að lausnum.
Við þurfum ekki meira orðagjálfur og hver gerði hvað með hverjum, hvenær. Við Íslendingar erum nú bara þannig gerðir að þegar við vitum hvað verkefnið og stefnan eru , þá brettum við nú bara upp ermarnar og vinnum að því, það hefur ekki verið hægt vegna stefnuleysis þeirra sem sitja hér við stjórnvölinn. Ef við fáum ekki skýra mynd og hreinskilið tal, getum við heldur ekki brugðist við. Leikreglurnar hafa breyst en það virðist að þeir einu sem hafi ekki fattað það séu stjórnaraðilar þessa lands.
Skjaldborgin fína sem átti að reisa í kringum heimilin hefur sýnt sig að vera spilaborg sem heldur hvorki veðri né vatni. Það virtist sem ekkert hafi verið gert fyrir okkur í landinu, svo kemur upp úr kafinu að svo var samt, upplýsingaranar komust bara ekki útum dyrnar á stjórnarráðinu. Hvernig er það hægt á öld internetsins? Kallast þetta ekki bara sauðsháttur á venjulegri íslensku?
Biðreikningafrumvarp F listans og 20 % niðurfelling skulda B listans, voru almennar aðgerðir sem tekið hefðu kúfinn af hjá mörgum heimilum og gert það að verkum að þau þyrftu ekki að sjá fram á þrot. Ég varpaði fram spurningu hér í bloggi fyrir kosningar hversvegna svona leiðir hefðu ekki verið farnar. Ég fékk svar frá aðila í Samfylkingunni um að ekki væri hægt að gera þetta þar sem þá væri ekki hægt að standa við skuldbindingarnar við AGS, ég spyr hvort er mikilvægara við eða AGS?
Er betra að horfa upp á heimili sem hefði verið hægt að bjarga með svona aðgerð, fara í þrot og eiga sér ekki viðreisnar von? Hverjir eru yfirhöfuð skilmálarnir í samningum við AGS? Er ekki betra að skila þessu láni og vinna okkur útúr þessu sjálf? Hvernig á fólk að geta gert sér grein fyrir þessu þegar engar upplýsingar eru til staðar?
Aðgerð eins og biðreikningafrumvarpið, hefði með smá útfærslum verið hægt að nota fyrir fyrirtækin líka. Nei það er greinilega aftur betra að horfa uppá atvinnulífið fara norður og niður. Þarna hefði líka verið hægt að taka upp fjárfestingalánasjóð sem F listinn var með á stefnunni, einmitt til að bregðast við ástandinu hjá fyrirtækjum landsins og stofnun nýrra.
Við verðum að koma atvinnulífinu í gang, NÚNA og ekki eftir nokkra mánuði. Við verðum að fara að framleiða vörur innanlands til útflutnings, við verðum að fá gjaldeyri og tekjur inn í landið. Er komin einhver hugmynd upp á borðið í sambandi við hvernig á að auka framleiðni? Hvernig á að fá íslensk fyrirtæki til að framleiða innanlands? Hvernig á að auka fyrirtækjaflóruna í landinu? Er það með , hmm bíddu, D lofaði í kringum 6000 störfum í álverum sem er ekki á dagskrá að byggja, S lofaði í kringum 18000 störfum með mannaflsfrekum framkvæmdum ....og svo göngum við í ESB, VG var þar mitt á milli og með eða á móti, eða hvernig var það? Jú það átti að leyfa handfrjálsar veiðar....nota bene, eftir kosningar og ekki auka kvótann.
Þannig að í dag stöndum við hérna aftur á núllpunkti, fólk er reitt, því finnst það hafa verið hlunnfarið. Mér finnst alltaf athyglisvert þegar aðilar tala um að ekki eigi að fara í greiðsluverkfall, það komi sér illa fyrir viðkomandi, eins og fólk sé að íhuga þetta af illsku einni saman. Dettur stjórnarmönnum okkar og konu ekki í hug að þetta eru enn ein form af mótmælum. Þarna er fólk að mótmæla því að lánin hafi hækkað uppúr öllu valdi, að yfir höfuðið á því hafi verið dregin dula fjárglæfra sem það tók ekki þátt í, að það hafi ekki val og VERÐI að borga á meðan sömu fjárglæframenn leika lausum hala í vellystingum.
Eins og ég sagði leikreglurnar hafa breyst en þeir einu sem virðast ekki fatta það eru stjórnarmenn þessa lands.
Athugasemdir
Frábær pistill hjá þér Ásta mín. Og ég er algjörlega sammála þér í mörgu hér.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.5.2009 kl. 16:27
Margt er þarna athyglivert hjá þér Ásta mín. Þessi EBS langavitleysa er orðin annað pólitískt slys á eftir bankahruninu. Þessi samningur milli ríkisstjórnarflokkanna og allt þófið í kringum þetta eina mál hefur dregið þróttinn úr starfi við önnur verkefni. Það er ekki hægt að fyrirgefa það lengur hversu lengi hefur dregist að skýra frá þeim verkefnum sem þarf að hrinda í framkvæmd á næstu dögum.
Eins og þú réttilega bendir á þá er ekki neins að vænta úr þessum viðræðum við Brusselvaldið sem leysa mun þann bráða vanda sem nú brennur á fólki.
Árni Gunnarsson, 8.5.2009 kl. 18:26
Ég er á því að eina leiðin sé að setja á embættismannastjórn eða utanþingsstjórn eða hvað þetta er kallað. Sýnist að þessar kosningar hafi verið hreinn og klár fíflagangur, landsmenn hafðir að háði og spotti. Svo tekur lengri tíma en haldið var að semja um eitthvað sem þau virðast vera sammála um að vera ósammála um. En stóru plönin hljóta að fara að birtast eftir helgi, en fyrirkvíðanlegt kannski hvernig þau líta út.
Valgerður Sigurðardóttir, 8.5.2009 kl. 22:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.