Kosningaloforðin

Það er athyglisvert að fylgjast með umræðunni núna rétt fyrir kosningar. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að sitja pallborð með 1. sætum hinna flokkana í Deiglunni á Akureyri og svara spurningum.

Það sem sló mig fyrst var að hinir 4 stóru flokkar virðast ekki geta litið út fyrir FLOKKINN og svarað hreint og beint þeim spurningum sem beint var til þeirra. Meirhluti svartíma þeirra fór í hver hefði gert hvað með hverjum hvenær.

 Loforðin sem hafa komið upp fyrir hverjar einustu kosningar voru dreginn upp, flutningskostnaður, göng og vegagerð, heibrigðisþjónusta og smá atvinnuuppbygging í bland. Ég get ekki skilið hvernig þetta er hægt, dúkka upp á nokkura ára fresti og lofa öllu fögru og gera svo mest lítið.

Nokkra hluti ætti hreinlega að taka út úr loforðapakkanum. Til dæmis hefði bara átt að gera langtímaáætlun um vegagerð og göng FYRIR LÖNGU SÍÐAN, sem farið hefði verið eftir óháð ríkisstjórn. Samgöngur og bæting þeirra er þjóðþrifamál á Íslandi og ekki létt verk og hefst ekki svo vel sé nema sem langtímaverkefni.

Heilbrigðismál eru ákaflega mikilvægur þáttur og þar hefði líka átt að gera langtímaáætlun FYRIR LÖNGU SÍÐAN um uppbyggingu og staðsetningu heilbrigðisþjónustu í landinu. Þarna hafa oft á tíðum geðþóttaákvarðanir ráðið ferðinni sem er okkur ekki til góðs.

Við þurfum að hugsa upp á nýtt hvað þessa hluti varðar og taka þá út úr hinum pólitíska pakka því þetta hefur ekkert með pólitík að gera heldur öryggi þeirra sem búa hér í þessu landi.

 


Hvernig minnkum við atvinnuleysið?

Stærsta verkefni okkar fram undan er minnkun atvinnuleysis í landinu. Því miður er ekki hægt að segja annað en þar erum við með ærið verkefni fram undan. Ég segi því miður vegna þess að það sem við erum að takast á við núna er ekki bara kreppan sem er skollin á, heldur líka sú staðreynd að stjórnvöld hafa ekki verið með neina markvissa atvinnu-uppbyggingar stefnu fyrir landið.

Fyrir landsbyggðina hefur þetta verið samfelld harmaganga síðustu áratugina. Bæir hafa svo til lagst af og ekki hefur verið farið í neina markvissa uppbyggingu. Þannig að í dag eigum við eitt stykki kreppu og ekkert of mörg fyrirtæki sem væri hægt að ýta undir núna og styrkja til stækkunar og meiri framleiðni.

Við verðum að taka þá vinnu núna, við verðum að byggja okkur fyrirtækjaflóru sem er margþætt og dreifðari en nú er. Sú stefna að setja eggin alltaf í eina körfu er nokkuð sem hefur ekki hjálpað okkur núna og við ættum að venja okkur af þessari vitleysu.

Við eigum margt gott og marga sem eru alveg til í að fara í vinnuna sem felst í því að koma nýjum fyrirtækjum á fót. Það sem við eigum og getum virkjað núna er til dæmis:

  • Fiskurinn, frjálsar handfæraveiðar o.fl.
  • Landbúnaður, framleiðsla á býlum beint til neytenda
  • Ferðaþjónusta,ótakmarkaðir möguleikar
  • Grasalyf og hráfæði
  • Tækni og iðnaður
  • Handverk og hönnun
  • framleiðsla innanlands
  • Útflutningur á ofangreindu

Við eigum fólkið sem er með hugmyndirnar, sumar komnar vel á veg og aðrar kannski skemmra á veg komnar. Þarna liggja mörg tækifæri og hægt að virkja okkur sjálf mun betur en nú er gert. Auðvitað er þetta versti tími til að fara í þessa vinnu en þarna er því miður skýrasta dæmi um getuleysi stjórnvalda síðustu ára.

Nú er talað um að ríkið verði að fjárfesta í fyrirtækjum, taka þau yfir og selja seinna. Þetta finnst mér vera vanhugsað. Einhversstaðar þarf ríkið að fá pening til að fjárfesta og hvað ef ekki er hægt að selja aftur? Er þetta þá bara enn meira tap hjá ríkissjóði?

Eins og staðan er í dag mun alltaf verða einhver fórnarkostnaður í þeim ákvörðnum sem teknar verða varðandi þjóðarbúskapinn, að halda annað er rugl. Mér finnst samt að í stað þess að taka yfir fyrirtæki og selja seinna, ætti ríkið að setja á fót lánasjóð í samvinnu við hagsmunaaðila.

Lánasjóður þessi myndi lána fyrirtækjum til endurfjármögnunar og þeim sem eru að fara að opna ný fyrirtæki. Þessi sjóður ætti að lána öllum og ekki bara sérútvöldum atvinnugreinum. Auðvitað þyrfti aðhald í formi enduskoðenda og fagaðila sem færu yfir stöðu fyrirtækja sem þurfa endurfjármögnun og viðskiptaáætlanir.

Þetta væri í formi langtímalána á viðráðanlegum vöxtum. Best væri að gefa fyrirtækjum 2 ár þar til fyrstu afborganir falla svo þau nái að byggja sig upp. Með því að fara þessa leið þarf ríkið ekki að taka allan kostnað á sig við fjárfestingar sem geta endað með ósköpum. Þarna er komin leið til að halda í uppbyggingu á landsvísu og ríkið er ekki bara að tapa pening.

Með markvissri og skjótri aðstoð og ráðgjöf frá þeim aðilum sem nú þegar eru til staðar, eins og nýsköpunarmiðstöð og atvinnuþróunarfélögum um nær allt land ætti að vera hægt að bregðast fljótt við og keyra lífvænleg fyrirtæki í gang. Ekki má þarna hengja sig í stærð þeirra heldur lífslíkur. Fyrirtæki sem byrjar í þremur starfsmönnum getur alveg verið komið í 6 nokkrum árum seinna.

Það er ekki til nein létt leið núna og mjög liklega ekki nein skjót leið heldur. Við sem þjóð höfum sýnt það og snnað í gegnum tíðina að við höfum hæfileikan til að takast á við erfiðleika og vinna úr þeim. Núna er tíminn þar sem við þurfum að virkja okkur sjálf og byggja upp til framtíðar með þeirri atorku og kjarki sem hefur einkennt okkur í gegnum tíðina.


Hagsmunum hvers er verið að gæta?

Það er sorglegt að fylgjast með með umræðum inn á Alþingi okkar íslendinga þesa dagana. Þar fara sjálfstæðismenn hamförum í málþófi, löngum ræðum og orðagjálfri. Þeir halda því fram að ástæða þessarar leiksýningar sé sú að ekki sé hægt að fara í breytingar á stjórnarskr´nni með svo stuttum fyrirvara.

Meginástæða þessa orðagjálfurs, söngs í pontu og þvílíkum uppákomum liggur hér í þessari grein sem ég læt fylgja með í heild sinni.

 Við lögin bætist ný grein sem verður 79. gr. laganna og orðast svo: 
 Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.
 Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.
  Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.

Í raun er sjálfstæðismönnum nokkuð sama um allar breytingar á stjórnaskránni nema þessa. Þarna er verið að vega að veldi þeirra að eigin mati og opna fyrir þjóðnýtingu kvótans. Eins og kom skýrt fram á landsfundi þeirra munu þeir gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda yfirráðum yfir fiskinum í sjónum.
Á meðan sjálfstæðismenn halda uppi málþófi sjálfum sér og eiginhagsmunum sínum til heiðurs verður þjóðin að bíða og horfa upp á vitleysuna dag eftir dag.

Er þetta réttlætanlegt?

Eru þessir menn ekki inn á þingi til að gæta hagsmuna ALLRA landsmanna og ekki sérútvalins hóps?

eru það hagsmunir ALLRA landsmanna að viðhalda kvótakerfi sem viðheldur atvinnuleysi og engri endurnýjun í mörgum byggðarlögum?

Er það hagur ALLRA landsmanna að byggðarlögin gefi endanlega upp öndina þar sem ekki er hægt að fiska vegna kvótaleysis?

Sjálfstæðismenn hafa að öllu leyti misskilið tilgang sinn á Alþingi og ættu að endurskoða mjög vandlega hvað geta talist hagsmunir ALLRA landsmanna.

 

 

 

 


Málefnahandbók frjálslynda flokksins

Málefnahandbók frjálslyndra í máli og myndum.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

2. flokks borgarar Íslands og "hagræðingin"

Sumir borgarar þessa lands hafa valið að búa út á landsbyggðinnni, það er líka gott og blessað því ekki getum við öll búið á höfuðborgarsvæðinu. Það sem hefur slegið mig á ferð minni hér um NA- kjördæmið er að alveg sama hvert maður kemur mætir manni flott orð sem heitir "hagræðing".

Öllu er verið að hagræða í burtu úr þessum litli þorpum, hér á Fáskúðsfirði átti að "hagræða" slökkvistöð og áhaldahúsi og þar með "hagræða" í burtu þeim 2 sjúkraflutningamönnum sem eru alltaf á staðnum. Það getur nú verið mikilvægt að hafa þá þegar læknir sést hér núorðið hugsanlega, kannski, gæti verið einhverntíma.

Ég var á Þórshöfn fyrir nokkrum dögum og þakka gestrisnina þar ;) þar var líka verið að "hagræða" rosalega flott og var það sjúkraflutningarnir, ef fólk kíkir  á landakort sést að það er bara, svo ég segi það beint út, helvíti langt á sjúkrahúsið á Akureyri. Ekki veit ég hvað hinir háu hagræðingarherrar hafa hugsað sér í sambandi við hvernig Þórshafnar búar ættu að komast þangað þegar ekki er sjúkrabíll, en hugsanlega hafa þeir áætlað að það hlyti að vera bóndi í sveitinni sem ætti kerru og hest. Málinu reddað.

Svo er nú ekki hægt að segja að vegagerðin hafi farið hamförum í malbikun á þessu svæði svo ekki er nú heldur greið leið að fara. Sjúkraflug kemst frá Akureyri á ca. 40 mín. og þá á eftir að fljúga aftur til baka í aðrar 40 mín.

Svona er staðan  á miklu fleiri stöðum út á landi, læknisþjónusta af skornum skammti eða þetta eru kandídatar að æfa sig, ekki að það sé af hinu illa, en maður hefði nú haldið að út á landi þar sem læknir þarf að vera í standi til að bregðast hratt og örugglega við svo sjúklingurinn haldist nú á lífi á meðan sjúkrabíllinn eða flugvélin komast á staðinn, að þar væri lögðt áhersla á að hafa reynslumikla og vel lærða lækna. En nei það er bara ekkert alltaf tilfellið.

Svo fær maður óhjákvæmilega á tilfinninguna að það sé búið að koma inn hjá þeim sem hafa dirfst að vera á landsbyggðinni að þeir eiga að vera SVO þakklátir ef malbikaður er smá vegakafli eða það skyldi nú slysast svo til að góður læknir er á svæðinu.

Fyirgefið en það er árið 2009, við breytum ekki Íslandi eða náttúru þess nema að takmörkuðu leyti og það er ekkert gaman ef við byggjum öll á mölinni. Það er greinilegt að stjórnvöld hafa verið algerlega óhæf um að setja upp langtímaáætlanir í sambandi við vegagerð, heilbrigðisþjónustu og fyrirtækja og atvinnuuppbyggingu á landsvísu.

Eins og alltaf hefur verið miðað við eitt kjörtímabil í einu og eftir situr landsbyggðin sem 2. flokks borgarar og þverrandi von um það að einhver hlusti.

Þessi ferð sem ég hef farið hefur einnig sýnt mér hversvegna fólk kýs þá sem koma frá þeirra sveitarfélagi, það er einfaldlega vegna þess að það er að vona að með því að kjósa viðkomandi muni eitthvað, hugsanlega, kannski gerast í samgöngumálum , heilbrigðisþjónustu eða einhverju öðru sem hefur setið á hakanum í áratugi í viðkomandi sveitarfélagi.

 Enda sér maður að um leið og líður að kosningum byrja loforðin að steyma fram um hina og þessa vegi eða göng. Mál eru tekin upp á þingi af þingmönnum sem ekki hafa sést allt kjörtímabilið, NÚ á að hamra á málunum svona rétt fyrir kosningar bara til að sýna einhvern skugga af lit, og fólk kýs í þeirri von að NÚ gerist það loksins......

og svo gerist ekkert nema "hagræðing"=niðurskurður

 

 


Raunhæf lausn fyrir heimilin í landinu

Eftirfarandi er ein af þeim aðgerðum sem frjálslyndi flokkurinn telur að sé raunhæf svo heimili og fyrirtæki hafa möguleika á að afstýra gjaldþroti. Hefur þetta verið lagt fyrir sem fumvarp á alþingi. Allar athugasemdir eru vel þegnar.

Sú leið sem lögð er til að farin verði er að frysta viðmiðunarhlutfall til hækkunar höfuðstóls lána við 5% hámark þannig að það fari aldrei upp fyrir það mark á því tímabili sem tiltekið er í frumvarpi þessu. Sé raungildi viðmiðunarhlutfalls á tímabilinu hins vegar lægra en 5% þá ber að miða við það.  

Með þeirri reglu að allt verðtryggingarálag umfram 5% leggist inn á biðreikning samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu gefst ríkisstjórninni tóm til að taka raunverulega á málinu m.a. til að ákveða afskrift  eftir almennri reglu á þeirri fjárhæð sem safnast hefur á biðreikninginn. Verði það ekki gert mun fjöldi íbúða lenda sem eign sjóða og lánastofnana vegna greiðsluerfiðleika fólks og myndu lánveitendur þá þurfa að afskrifa verulegar fjárhæðir. Vegna þessa þarf að taka á þessum vanda heildstætt. Færsla á biðreikning byggir ekki á beiðni hvers og eins lántaka heldur er um almenna aðgerða að ræða til handa öllum sem skulda verðtryggð lán sem tengjast íbúðakaupum. Þrátt fyrir þessa almennu reglu getur hver og einn einstaklingur sagt sig frá henni og greitt áfram samkvæmt upphaflegum kjörum lánasamningsins

Í tengslum við gildistöku þessa ákvæðis skal ríksstjórnin láta framkvæma kostnaðarmat vegna frystingarinnar og ákvarða hvernig farið verði með greiðslur þeirra fjármuna sem útaf ganga eða afskriftir á þeim hluta sem færður hefur verið á biðreikninginn, í ljósi þess að íbúðaverð á landinu lækkar hratt. Þá liggur fyrir að endursala eigna getur orðið þung á næstunni og næsta víst að andvirði skulda fæst ekki í öllum tilfellum endurgreitt að fullu.

 

Það sem sumir sáu en aðrir ekki......

´

Áminning frá síðustu kosningum. Þarna var greinilegt að sumir gerðu sér grein fyrir hvert stefndi þó aðrir hafa lokað bæði eyrum og augum fyrir staðreyndum.

http://www.xf.is/Files/Skra_0034372.pdf


Án fyrirsagnar

Ég hef verið að hugsa um að í dag er komin upp mjög sérstök staða í þjóðfélaginu, ekki bara hér heldur um allan heim. Ýmsir sérfræðingar hafa komið fram með hinar ýmsu launsir og skoðanir á því hversvegna þetta mikla hrun varð.

Hvervegna hrunið varð er kannski ekki erfiði þátturinn, það eru augljósir þættir þar að verki sem hægt er að taka afstöðu til.

Hvað á að gera til að ráða bót á því virðirst vera mun erfiðara mál og greinilegt að ekki er sama við hvern er talað þar.

Sumir segja 20 % niðurfellingu allra skulda í landinu, meiri stóriðju, meiri framkvæmdir og fjárfestingar á vegum ríkisns og aðildarviðræður vegna inngöngu í ESB.

Þegar horft er yfir völlinn á allar þessar hugmyndir og lausnir spyr maður sig hvað af þessu virkar og hvaða langtíma áhrif hefur viðkomandi aðgerð.

Komið hefur fram í Fréttablaðinu að 20 % niðurfelling skulda mundi kosta um 800 milljarða. Hver á að borga það? Verður það ekki við sjálf á endanum? Þetta er ansi mikill peningur fyrir þjóð sem á nú þegar fullt af skuldum.

Ég set spurningamerki við raunhæfi stóriðjuframkvæmda þar sem að það er ekki bara hrun og kreppa hér, heldur um allan heim. Álframleiðendur draga saman og aðrir aðilar sem gætu haft einhvern áhuga á að opna hér verksmiðju eru ekki í sem bestum málum heldur. Þannig að hvað er raunhæft í þessari lausn í dag? Hve mikið er hægt að lækka skatta og orkuverð svo svona lausnir nái fram að ganga við núverandi aðstæður? Og hvað mun það kosta okkur á endanum? Hve mikið erum við að fá í ríkissjóð frá svona starfsemi?

Framkvæmdir á vegum ríkisins eru tvíeggja sverð miðað við álit sérfræðinga í kreppum. Það er avinnuskapandi en er yfirleitt bundið við lántökur ríksins til að frjármagna þessar framkvæmdir. Það getur orðið að neikvæðri hringrás og aukið á skuldir ríkisins svo um munar. Er þá skynsamlegt að ríkið fari út í beinar framkvædir til atvinnusköpunar á sinn kostnað?

Aðildarumræður vegna inngöngu í ESB hafa verið mjög litaðar af umræðu um að með því getum við tekið upp Evru. Umræðan hefur oft snúist um að við getum örugglega fengið flýtimeðferð inn í sambandið, það gæti alveg verið og kannski ekki hægt að útiloka . Aftur á móti er nú komin upp sú umræða innan sambands  að hleypa ekki fleiri löndum inn eftir Króatíu. En hvort sem farið verður í aðildarviðræður eða ekki, þá er staðreyndin sú að evruna tökum við ekki upp nema að uppfylla vissar enahagslegar forsendur. Hvaða leið ætlum við að fara til að uppfylla þær? Hvað ætli það taki okkur mörg ár?

Oft er ég að hugsa hvort málið sé ekki hreinlega það að sú staða sem komin er upp í alþjóðasamfélaginu er án fordæmis. Þetta er ekki til í skólabókum, framtíðarsýn eða neinu öðru sem til er fyrir. Er þá ekki erfitt að bregðast við miðað við módel sem sett eru upp fyrir hluta af þessum aðstæðum og ekki heildina? Þarf kannski ekki að fara út yfir þann viðtekna viðbragðaramma sem til er og finna lausnir frá grunni? Eru ekki margir hlutir sem voru aktuel fyir 6 mánuðum síðan orðnir úreltir og einskins nýtir?

Hvernig svo sem við ákveðum að leysa málin munum við þurfa að gera það af eigin rammleik og dugnaði með gagnrýni í hugsun og spurningar á vörunum.

 

 


Heimilin,fyrirtækin og skuldirnar

Alveg virðist með endemum hvað þessi 20% skurður á skuldir allra landsmanna ætlar að verða langlífur. Hver mannvitsbrekkan á fætur annari hoppar hæð sína í loft upp af gleði yfir þessari lausn á vandamálunum sem blasa við í þjóðfélaginu. Hvernig getur það verið? Hugsar fólk bara ekkert lengra, eða erum við orðin vön því að láta mata okkur af hverri víðáttuvitleysunni á eftir annari og setjum bara ekki spurningamerki við neitt?

Svona lausn getur bara ekki gengið upp og sýnir mest veruleikafirru þeirra sem setja hana fram. Enn og aftur verður manni ljóst að það virðast vera 2 þjóðfélög í gangi hérna, annað þar sem allt er bara alveg í lagi og hitt þar sem er kreppa sem þarf að vinna á á réttan hátt.

Þess vegna gladdi það mig að sjá Guðjón Arnar í Kastljósi í gær, hugmynd sú er hann setti fram þarna er ein af ástæðunum fyrir því að ég gat gengið í þennan flokk. Það segir sig sjálft að í því ástandi sem nú gegngur yfir þjóðfélagið verðum við að kaupa okkur tíma til að koma raunhæfum lausnum í gang, við gerum það ekki nema frysta vísitöluna á einhverju x stað í einhvern x langan tíma. Þá er hægt að fara að vinna í afnámi verðtryggingar o.s.fr. Við getum ekki bara látið heimilin og fyrirtækin í landinu bíða og bíða á meðan verið er að finna lausnir og vona bara að þau lifi af fjárhagslega.

Annað er líka að þó svo að við færum í einhverjar ESB aðildarviðræður þá er Evru upptaka eitthvað sem mun taka nokkur ár þannig að sú uppbygging sem við förum í næstu árin mun miðast við íslenska krónu. Reyndar sá ég í fréttum í gær að hin virta Frú Merkel kanslari Þýskalands er að leggja til að Króatía fái inngöngu núna og svo verði sett stopp fyrir aðildaviðræður nýrra ríkja. Hvað gerum við þá?

Við erum í þeirri stöðu að við munum þurfa að fara í uppbyggingu hér innanlands með okkar eigin gjaldmiðil á okkar eigin forsendum. Sem þýðir það að við ráðum sjálf og höfum val um það hverskonar þjóðfélag við viljum sjá rísa hér úr rústunum. En upp úr stendur að við verðum að byggja okkur upp á þann hátt við við séum sjálfbær og óháð öðrum.  Við þurfum að gera heimilinum í landinu kleift að fara ekki í gjaldþrot nema að litlum hluta. Við þurfum að byggja upp fyrirtæki og atvinnu  í sem flestum geirum. Og við verðum að gera okkur grein fyrir að þetta kemur ekki ókeypis, alveg sama hvaða aðgerðir verður farið í núna mun það kosta okkur eitthvað, spurningin er bara hvað erum við tilbúin að borga og hve lengi.


Nýtt Ísland er einhver von um það

Eftir prófkjörin um helgina virðist nokkuð víst að íslenska þjóðin muni kjósa yfir sig sömu súpuna og var hér viðvöld fyrir og í hruni. Ný andlit innan flokkana eru um það bil ekki til og þau andlit sem geta kallast ný eru sum óhjákvæmilega tengd hruninu á einn eða annan hátt.

Ég horfi yfir þetta með hræðslusting í hjartanu. Það er svo margt sem við verðum að gera núna fyrir framtíðina að við getum ekki leyft okkur sem þjóð að gera þau mistök að kalla yfir okkur sama fólkið með sömu úreltu viðhorfin enn einu sinni. Þetta skuldum við börnum okkar og barnabörnum. Við sem þjóð berum ábyrgð gagnvart þeim og ber skylda til að búa svo í haginn að þau geti átt sér líf í þessu landi sem við getum horft til með stolti. 

Á þessu sviði höfum við val. Við getum valið að fara aftur þangað sem við vorum með sama fólkið við stjórnvölinn, það er jú öruggt, við vitum hvað við höfum og fáum ef við gerum það. Við þurfum ekki að fara að takast á við ný viðhorf og lausnir með þessi andlit við stjórnvölinn og munum geta siglt þessu landi að feigðarósi með falska öryggiskennd af því að við þekkjum það sem við höfum.

Eða við getum verið hugrökk og valið eitthvað annað, valið minni flokka eða nýja flokka inn á þing, við getum skoðað hvaða framtíðarlausnir þessi aðilar hafa og valið eftir því. Séð hvort eitthvað af því nýja fólki sem kemur inn þar hafi eitthvað að segja af viti. það þýðir að við verðum að vera huguð í hjarta og velja óöryggi hins nýja og óþekkta.

Hver segir að ríkistjórn tveggja stórra flokka sé eitthvað betri en stjórn sett saman úr fleiri minni flokkum?

Er það eitthvað svona vísindalega sannað að stjórn sem er samansett á þann hátt stjórni eitthvað betur? Því miður hef ég nú bara ekki tekið eftir því hérlendis að svo hafi verið. Er málið ekki bara hverskonar viðhorf þeir sem sitja við stjórn hafa til starfsins?

Ef fólk er ekki samvinnuhugsun á annað borð þá skiptir engu hvort við stjórnvölinn séu 2 stórir flokkar eða 20 minni. Þá skiptir heldur engu hvort fólk er nýtt eða gamalt í þessum geira.

Númer eitt í dag er að mínu mati að við gerum okkur fulla grein fyrir að til þess að við komumst heil til hafnar munum við VERÐA að vinna saman. Við munum VERÐA að setja lausnir á borðið sem hægt er að framkvæma og eru raunhæfar. við munum VERÐA að leggja á okkur það óþekkta og óörugga til þess að ná árangri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband