Nauðsyn neysluviðmiðs

 Almennir borgarar þessa lands eru farnir að finna fyrir efnahagsþrengingunum á eigin skinni í formi hærri skatta, hærra vöruverðs, jójó hækkunum á eldsneyti og hækkun lána svo ekki sé talað um atvinnumissi og launalækkanir. Þegar að staða fólks er orðin sú að það þurfi að standa í biðröðum til þess að fá mat fyrir sig og fjölskyldu sína, er þá ekki komin tími til að setja nokkur grundvallarspurningamerki.

Fyrsta spurningamerkið er það hvort að launastefna á Íslandi hafi ekki alltaf verið til háborinnar skammar. Þegar að fólk með vinnu þarf að standa í matarbiðröð, þá er eitthvað mikið að. Auðvitað verðum við að reikna inn forsendubrestinn sem varð á lánum fólks og ofantaldar hækkanir og lækkanir, en það er samt eitthvað áþreifanlega rangt við þetta.

Eins er undarlegt að öryrkjar og ellilífeyrisþegar skuli verða fyrir skerðingum á sínum högum í ástandinu sem nú er. Þetta fólk má alls ekki við neinni skerðingu á þeim lágum upphæðum sem því fellur til.

Einnig hefur heyrst að félagsmálastyrkur sé ekki greiddur út lengur nema viðkomandi geti sannað að hafa farið í 4 atvinnuviðtöl í þeim mánuði sem greiða á út. Þetta er að mínu mati fjarstæðukennt að fara fram á. Þeir sem hafa sótt um vinnu vita vel að af kannski 10 umsóknum fær viðkomandi eitt viðtal. Ef heppnin er með.

Við höfum tekið á okkur skerðingar á allan hátt síðustu 18 mánuði og sér ekki fyrir endann á því. Þess vegna er undarlegt að hlusta á Árna Pál tala um að auðvitað sé þörf fyrir að reikna út raunverulegt neysluviðmið, þó að það verði ekki notað. Hver er þá tilgangurinn spyr ég bara.

 Á hinum Norðurlöndunum er svona viðmið til. Það þýðir einfaldlega að manneskja, hvort sem er í launaðri vinnu, félags eða atvinnuleysis bótum, örorku,  eða ellilífeyri getur ekki farið undir X upphæð vegna þess að undir henni er ekki hægt að lifa.

Þetta er að mínu mati eitt það þarfasta sem þarf að gera á Íslandi í dag. Við hjá Frjálslynda flokknum höfum verið í vinnu með þetta undanfarið og eftir því sem við höfum getað reiknað okkur fram er ekki raunhæft fyrir neina manneskju á Íslandi í dag að fara undir 180.000 í raun framfærslu. Þarna erum við bara að tala um að ein manneskja hafi í sig og á og þak yfir höfuðið.

Þetta hefur verið atriðið sem flokkurinn hefur verið upptekin af lengi og má þar nefna frumvarp sem lagt var fram á þingi af þingmönnum flokksins um auka persónuafslátt sem myndi eyðast út við vissa upphæð en gerði það að verkum að aldrei væri hægt að fara undir vissa raunframfærslu á landsvísu. Þetta var kannski að fara bakdyramegin að leiðréttingu á framfærslunni en þegar þörfin er til staðar verður að bregðast við henni.

Við sem almenningur stöndum allavega frammi fyrir því á  áþreifanlegri hátt en áður að verða gera upp við okkur tek ég bensín eða borða ég mat. Fer ég til tannlæknis eða kaupi ég skó á börnin mín. Það versta við þetta er þó, að þegar þetta kemst loksins í umræðuna núna eftir hrun, er samt margt fólk sem hefur lifað svona árum saman í góðærinu á Íslandi.

Við erum í þeirri stöðu að við verðum að gera mjög vel upp við okkur hvað það er sem við viljum velja fyrir framtíðina okkar og við stöndum í þeim sporum að verða að velja nauðaþurftir og meira að segja velja á milli þeirra.

Við megum ekki láta það viðgangast að fólk sé að lifa undir framfærslu mörkum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband