17.8.2010
Af hverju mótmæla ?
Já af hverju erum við og eigum við að vera að mótmæla gott fólk?
Við eigum að mótmæla því að það hefur ekkert breyst hvað varðar vinnubrögð, vinavæðingu, hugmyndafræði og spillingu eftir að nýja stjórnin tók við.
Þýðir það að við viljum aðra stjórn samansetta af D og B? Nei það þýðir það ekki.
Það þýðir að við höfum komist að á eigin skinni að ekki skiptir máli hvort hér sé við stjórnvölinn vinstri eða hægri stjórn vinnubrögðin eru þau sömu og það gengur bara ekki upp. Við höfum séð að þessu fólki er ómögulegt að hugsa út fyrir kassann og þar af leiðandi er það að reyna að tjasla á sárin með sömu aðferðum og komu okkur í skítinn...sorry virkar ekki til langframa.
Við eigum að vera að mótmæla skerðingu á hendur ellilífeyrisþegum og öryrkjum, sem er sá hópur þjóðfélagsins sem minnst má við þeim.
Hvers vegna eigum við að mótmæla því? Jú vegna þess að við berum samfélagslega ábyrgð á því að allur almenningur geti lifað í þessu landi, hvort sem við höfum það gott eða ekki sjálf.
Við eigum að vera að mótmæla skattahækkunum sem eru og munu sliga okkur um ókomin ár. Þarna munum við öll finna vel fyrir því í veskinu þegar að fram líða stundir og ef við stoppum þetta ekki gerir það engin. Lítil og meðalstór fyrirtæki ásamt fjölskyldum landsins eru þeir aðilar sem munu finna mest fyrir þessu.
Við eigum að vera að mótmæla því að Skjaldborgin varð aldrei meira en hugmynd sem aldrei komst lengra en að vera bara það. Lausnir sem hafa verið settar fram eru meira og minna vanhugsaðar, illa unnar, virka ekki til langframa og í raun hafa þær ekki tekið á þeim forsendubresti lána sem hér varð við hrun.
Við eigum að vera að mótmæla að Rannsóknarskýrslan var bara óþægileg fyrir stjórnmálamenn í stuttan tíma og að svo til enginn hefur staðið upp og tekið ábyrgð, sagt af sér eða bara komið fram fyrir alþjóð og beðist afsökunar á því að hafa verið fífl.
Við eigum að vera að mótmæla því að ólögleg lán eru ekki, kannski, hugsanlega gæti verið kannski ólögleg og samt ekki. Það virðist ekki vera hægt að taka skýra afstöðu með almenningi í þessu máli og því eigum við að mótmæla gott fólk.
Það er af nógu að taka og þetta er ekki tæmandi listi, en eitt er víst ef við berjumst ekki fyrir okkur sjálf mun engin gera það. Þeir sem ennþá sitja heima og halda virkilega að þessi stjórn muni galdra fram einhverja undralausn hljóta að hafa stungið hausnum svo kyrfilega í sandinn að ekki verður hægt að grafa hann upp aftur.
Við hljótum að vera farin að sjá það að það skiptir engu máli hvar í flokki við stöndum því að vinnubrögð hafa ekki breyst. Það hlýtur hreinlega að hafa kennt okkur almenningi að við VERÐUM að vinna saman þverpólitískt og sameina okkur um að koma okkur út úr vitleysunni.
Það liggur við að ég segi að íslenska þjóðin er eins og kona sem hefur verið barin í mörg ár...hún skilur loksins við ofbeldismanninn og fer að lifa smá lífi. Skömmu síðar er hún aftur komin í samband við annan ofbeldismann sem lemur hana sundur og saman. Í staðinn fyrir að standa upp fyrir sjálfri sér og berjast fyrir sér og sínum leggst hún niður og lætur sparka í sig liggjandi líka.
Erum við svona?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.