Föðmum torfkofann ; )

Eftir því sem lengra líður frá kosningum verð ég meira og meira hissa á okkur sem þjóð. Við kusum yfir okkur enn eina óhæfu stjórnina og ætlum að láta þar við sitja. Hvar er sjálfsbjargarviðleitnin sem hefur komið þessari þjóð áfram í gegnum aldirnar?

 Ég segi nú bara hvað kom fyrir okkur Íslendinga? Erum við orðin óhæf um að koma með lausnir á vandamálum og vinna okkur upp á eigin forsendum?

Þetta er kannski klisja en fjandinn hafi það við erum samt þjóð sem bjuggum í torfkofum í eina harðbýlasta landi sem til er, lifðum af móðuharðindi og örkuðum stranda á milli í sauðskinnskóm, geri aðrir betur.

Það getur bara ekki verið að við setjumst niður núna og gefumst upp bara af því að ekki er nein töfralausn í boði. Við þurfum að finna okkur sem þjóð aftur, hverju stöndum við fyrir? Hvað kunnum við og vitum? Er það bara ekki hellingur þegar að er gáð?

Er málið ekki bara það að við erum orðin svo vön að þetta "reddist" að við getum ekki hugsað lengra en það. ESB var okkar " þetta reddast", innganga átti að redda okkur út úr verstu efnahagskreppu þessa lands á no time.

Málið er nú bara það að þessa kreppa hefði  komið fyrr eða síðar hvort eð er. Hversvegna segi ég það ? Jú vegna þess að við fórum ALDREI í grunninn á þjóðfélaginu, við byggðum aldrei upp stoðir í atvinnulífinu sem hefðu getað tekist á við eitthvað af þessum hamförum sem ríða nú yfir, við byggðum aldrei upp neina fyrirtækjaflóru á landsvísu. Við unnum ekki heimavinnuna okkar.

Við getum svo sem sótt um í ESB, en það breytir því ekki að við verðum að byggja upp atvinnu og fyrirtækja líf hér á landsvísu. Við förum ekki langt innan ESB ef við gerum það ekki.

Við eigum líka svo ótalmargt sem við getum byggt upp og gert á landsvísu. Þar má nefna fiskveiðar og vinnslu, handverk og hönnun, ylrækt,  framleiðslu, iðnað, ferðaþjónustu og hugvit af ýmsum toga.

Ég er alveg viss um það að ef iðnaðarráðuneytið myndi auglýsa eftir fullunnum viðskiptahugmyndum kæmu inn á borð ótrúlegur fjöldi hugmynda á fjölbreyttum sviðum á skömmum tíma. Ef rétt væri haldið á spilunum ætti ekki að vera erfitt að ýta fólki úr vör með þessi fyrirtæki.

Frjálslyndir gerðu sér grein fyrir þessu og voru með á sinni stefnuskrá hugmynd að fjárfestingalánasjóð sem hefði einmitt getað verið stuðningur við sprota á þessum erfiðu tímum og endurfjármagnað illa stödd fyrirtæki. Sumir hafa sagt að þetta sé ekki hægt og það sé ekki vaninn að gera svona. Fyrirgefið að ég segi það en það er ekkert hefðbundið við stöðuna sem þjóðfélagið er í og þar af leiðandi er ekkert hægt að hengja sig í hefðbundnar lausnir á vandamálunum.

Ef stjórnin okkar gæti nú bara litið yfir múra ESB og séð hvað við eigum mikið af hæfileikaríku, duglegu og áræðnu fólki ( og þá er ég ekki að tala um í anda útrásarvíkingana) sem er tilbúið í heimavinnuna og uppbygginguna þá værum við strax að fara á réttari kúrs.

Við getum verið stolt af okkur sem þjóð, við getum verið stolt af því að við komum úr torkofum og gengum um í sauðskinnskóm. Við þurfum að sættast við þessa fortíð og hætta að reyna að vera stærst, best, flottust og ríkust. Við erum um 300.000 sálir og getum vel sniðið okkur stakk eftir vexti sem er samt flottur og bestur, á okkar eigin forsendum.

Göngum bara í þetta og hættum að velta okkur upp úr ESB, það er alltaf hægt að sækja um þar en við erum að renna út á tíma með okkar eigin uppbyggingu.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gerður Pálma

Flott grein Ásta, og tímabær, þetta er einmitt mál málanna,við eigum nægar stoðir til þess að byggja á en stjórn okkar frábæra lands áttar sig enn ekki á hvar þær liggja. 
Hvernig er hægt að vekja upp þá einföldu staðreynd að það verður að byggja grunn áður en höllin byggist.

Gerður Pálma, 12.5.2009 kl. 20:16

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mikið óskaplega er ég sammála þessum pistli þínum og er tilbúinn að setja nafn mitt við hann frá orði til orðs.

Ég er í hópi þeirra fáu sem til frásagnar eru um það líf sem torfbæirnir fóstruðu. Og mér er ljúft að vitna um að það var langt frá svo ömurlegt og gleðisnautt eins og þeir vitna sýknt og heilagt til sem ræða um það eins og dýpstu kvöl og niðurlægingu. Það líf gerði að vísu kröfur um þann manndóm að takast á við verkefnin og sigrast á þeim. Nokkuð sem álitsgjafar nú á tímum telja ekki á nokkurn mann eða konu leggjandi. Í dag eigum við svo óþrjótandi möguleika sem jafnvel villtustu draumar drengs náðu ekki til á mínum bernskudögum.

En nú þykir enginn pólitíkus marktækur sem hæðist ekki að torfbæjum og fjallagrösum um leið og hann býðst til að skapa svona 20 þúsund störf fái hann til þess umboð frá þjóðinni. Og það eru sko engin tóskapar-eða fjallagrasatörf.

Árni Gunnarsson, 12.5.2009 kl. 20:38

3 Smámynd: Grétar Mar Jónsson

Góð færsla og bestu kveðjur.

Grétar Mar Jónsson, 12.5.2009 kl. 21:18

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já, þakka þér Ásta.

Einmitt, mér nægir alveg ágætlega að vera bara venjulegur Íslendingur. Það hefur aldrei háð mér

Sjáfur var ég í sveit í torfbæ í mörg mörg sumur sem polli (en það var þó rafmagn) og tek undir orð Árna. Sennilega er ég örlítið þakklátari fyrir vikið því ég man tímana tvenna, þó svo ég sé fæddur 1956. En þá var íslenska þjóðin einungis 158.000 manns. Flestum hér í Danmörku finnst þetta vera það merkilegasta sem ég segi þeim frá af lífi mínu. Allt hitt er bara þetta venjulega.

Ég óska mér ekki verða "verkefni" eða búa í "verkefni". Og mér er andskotans sama um hvor "hag mínum sé betur borgið innan í verkefni eða utan þess". Ég einfaldlega hata "verkefnastjórana".

Það er til líf fyrir utan "verkefnið" og það er bara alveg ágætt. Ekki er það betra hérna innaní.

Kveður

Gunnar Rögnvaldsson, 12.5.2009 kl. 21:48

5 Smámynd: Elfur Logadóttir

Ásta, það er verið að vinna að þessum málum óháð aðildarumsókn að ESB. Vinnan hófst löngu fyrir kosningar og heldur áfram. Mikilvægt er að vinna til skamms tíma og til langs tíma á sama tíma og þetta veit ríkisstjórnin og starfar því í samræmi við það.

Strax í mars síðastliðnum lagði ríkisstjórnin drög að atvinnusköpun allt að 6000 ársverka á næstu misserum, og samkvæmt heimildum frá forsætisráðuneytinu eru uþb 1000 störf þegar komin til framkvæmda. Að sögn er það hluti af ástæðu þess að atvinnuleysi jókst ekki milli mars og apríl, heldur dróst örlítið saman á sama tíma og amk 300 manns fengu uppsagnabréf í hópuppsögnum.

Ríkisstjórnin er sem betur fer fjölskipuð og hlutverkaskipting er á milli ráðuneyta. Utanríkisráðuneytið sér um undirbúning fyrir aðildarumsókn og aðildarviðræður - önnur ráðuneyti, þar á meðal iðnaðarráðuneytið sem þú nefnir sérstaklega, einbeita sér að öðrum lausnum á meðan.

Elfur Logadóttir, 13.5.2009 kl. 12:45

6 identicon

Elfur ég póstaði um þessi 1000 störf þegar það kom frá ráðuneytinu, það er rétt að það var fyrir kosningar.Ég nenni nú ekki að leita í blogginu en ef ég man rétt var hluti af þessu stígagerð og sumarstörf. Samkvæmt Samfylkingarfólki á pallborðsfundum sem ég sat fyrir kosningar eru flest af þessum 6000 störfum sem verið er að tala um í mannaflsfrekum framkvæmdum á vegum ríkisins. Það er gott og blessað og fín skammtímalausn. Það sem reyndar verður að hafa í huga að svona framkvæmdir hafa oft á tíðum haldið löndum í mikilli kreppu lengur í ástandinu. Ástæðan er sú að þetta eru framkvæmdir sem kosta mikið en skila ekki miklum arði. Ég er svo sem ekkert að setja út á það.

Ég er aftur á móti að setja spurningamerki við það að ekki séu gripin tækifæri sem við eigum nóg af og hægt er að virkja á skömmum tíma, tækifæri sem skila okkur arði til frambúðar, það er jú það sem við þurfum. Ég heyri um og sé þessi tækifæri á hverjum degi í vinnunni hjá mér og hef átt margar samræður við fólk í iðnaðarráðuneytinu um þessa hluti.

Þetta kostar allt peninga og spurningin er alltaf hvar er forgangsraðað. Það er bara því miður þannig að hérlendis hefur verið forgangsraðað vitlaust þegar kemur að innlendri framleiðslu og uppbygginu atvinnu, ekki bara núna heldur um áratugabil.

Ásta (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 16:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband