Veruleikafirring á háu stigi?

Það sem eftir kemur er tekið af vef forsætisráðuneytisins. Þegar ég las alla fréttina vissi ég ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Við erum að fara í gagngeran niðurskurð sem mun hafa áhrif á öll stuðningsbatterí atvinnueflingar á landsbyggðinni og við eigum að verða eitt af 10 samkeppnishæfustu löndum í heimi árið 2020. Er það ekki svolítið 2007? Eða bara mjög svo veruleikafirrt?

Stýrihópur um mótun sóknaráætlunar og nýrrar atvinnustefnu skipaður

11.6.2009

Forsætisráðherra hefur skipað Dag B. Eggertsson borgarfulltrúa formann stýrihóps verkefnisins um sóknaráætlun fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífgæða til framtíðar. Gerð þeirrar áætlunar og mótun nýrrar atvinnustefnu eru meðal forgangsverkefna ríkisstjórnarinnar.

Aðrir í stýrihópnum eru Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Sigrún Björk Jakobsdóttir, fyrrv. bæjarstjóri á Akureyri, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga og Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík.

Eitt meginmarkmið þessarar vinnu er að móta áherslur sem tryggja að Ísland verði eitt af 10 samkeppnishæfustu löndum heims árið 2020.

Stýrihópnum er ætlað að setja fram verkefnisáætlun og gert er ráð fyrir að þær áætlanir sem lagðar verði fram á Alþingi frá og með vetri komandi taki mið af verkefninu.

http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/3763

Hvernig á það að hanga saman að fara í niðurskurð á öllu og efla atvinnuþróun og samkeppnishæfni? 

Af hverju hefur þetta fólk bara ekki samband við okkur út á landi sem störfum í þessum stuðningsbatteríum. Það er búið að greina styrkleika flestra landshluta af atvinnuþróunarfélögum í samstarfi við sveitarfélög og atvinnulífið. Þetta er allt til, það eina sem vantar í flestum tilfellum er auðveldara aðgengi að fjármagni sem setur fólk ekki á hausinn að fá lánað. Við vitum hvað er hægt að fara í með stuttum fyrirvara og hvað það kostar, en nei nú á að stofna enn eina nefndina til einskins. Það þarf ekki alltaf að vera að finna upp hjólið upp á nýtt.

Þeim væri nær að stofna vinnuhóp sem samanstendur af fulltrúum allra landshluta og svo einhverra ráðherra eða stjórnarmanna, ef það á að fara í þessa vinnu á annað borð.

Annars er alveg hægt að setja spurningamerki við að ætla sér að verða með 10 samkeppnishæfustu löndum í heimi þegar Icesave skuldin miðað við samninga er orðin um 740 milljarðar á innan við viku.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elfur Logadóttir

Það er hægt að vera samkeppnishæfur á grundvelli þess hvað vinnuaflið og allt hitt er ódýrt á Íslandi ;)

Ég hvet þig annars til þess að setja þig í samband við þetta batterí, halda fólki við og minna á þína þekkingu og annarra sem koma nálægt þessum atriðum á landsbyggðinni.

Elfur Logadóttir, 12.6.2009 kl. 12:45

2 identicon

Ef það er leiðin sem við ætlum að fara þá erum við að njörva okkur niður á erlendar fjárfestingar í formi verksmiðja o.s.fr. ekkert illt um það að segja og gott í bland.

Veistu ég held að við sem vinnum í stuðningsbatteríum út á landi gerum mjög mikið af því að láta vita af okkur, hugmyndum og úrræðum....en það er bara ekkert oft hlustað, eða maður endar sem ein og sjálfstæð grasrót á landsbyggðinni.

Þetta er nefnilega allt svolítið rykfallið þegar kemur að nýjum hugmyndum og lausnum í kerfinu okkar ; )

Ásta (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 12:56

3 Smámynd: Elfur Logadóttir

Nei guð forði okkur frá því að það verði leiðin, þetta var bara svartur húmor hjá mér.

Ég efast heldur ekki um að þið hafið meldað ykkur inn, hvatning mín var til þess að halda því áfram - sérstaklega ef menn eru að koma með nýtt skipulagsbatterí í þessum málum.

Spurningin er hvort þið hafið möguleika til þess að taka "Evu Joly" á þetta - þ.e. vera opnari og fara sterkari fjölmiðlaleið?

Mér finnst gríðarlega mikilvægt að aðilar sem vinna í stuðningsbatteríi eins og þú veiti aðhald og leggi í púkk. Þó ég viti ekki endilega hvernig hugmyndirnar, aðhaldið og púkkið kemst í gegnum hlustina hjá þeim sem þurfa að heyra.

Elfur Logadóttir, 12.6.2009 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband