Það sem ekki á að gera

,,Ég held að það sé óhætt að fullyrða að stóra myndin er komin og það verður engin almenn niðurfærsla skulda…”
-Gylfi Magnússon í Kastljósi í kvöld

Í Kastsljósi í gær lætur Gylfi þessi orð falla um skuldavanda heimilanna. Þarna er hann að styðjast beint við 18. grein viljayfirlýsingar stjórnvalda vegna endurskoðunar okkar mála hjá AGS. 18. greinin segir skýrt og skorinort að þau úrræði sem nú séu til staðar séu nóg fyrir heimilin, að ekki verði farið í fleiri úrræði og að eftir okt. 2010 verði ekki gert neitt meir til að stöðva og fresta nauðungaruppboðum á heimilum fólks.

Og hvað þýðir þetta svo?

Jú þetta þýðir það að þeir sam hafa getað haldið sjó með frystingu lána í þeirri von að leiðrétting höfuðstóls kæmi til, geta gleymt því.

Þeir sem hafa fengið frestanir á uppboðum geta líka gleymt því að einhverskonar leiðrétting verði gerð á þeirra lánum svo afstýra megi uppboðinu.

Þeir sem sitja uppi með himinháan höfuðstól stökkbreyttra lána og halda ennþá sjó, verða að fara að viðurkenna þá staðreynd fyrir sjálfum sér að sitja uppi með þessa stökkbreytingu ALLTAF.

Þeir sem eru með verðtryggð lán geta greinilega ekki vonast til þess að þessi blessaða verðtryggingar ófreskja verði aflífuð í eitt skipti fyrir öll, þrátt fyrir stóryrði Steingríms þar um í kosningabaráttunni.

Jæja elsku Íslendingar þá er orðið ljóst að við eigum að sitja uppi með ALLAN kostnað vegna þessa hruns. Réttlætið mun ekki ná fram að ganga og er orðið ljóst að það er engin að vinna fyrir umbjóðendur sína inn á þingi. Það verður engin niðurfærsla eða leiðrétting á skuldum almennings.

Þetta er Ísland í dag eins kaldhæðnislegt og það er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Ömurlegt og mikil lákúra. Gylfi talar eins og verið sé að biðja um allsherjar niðurfellingu þegar fólk er einfaldlega að biðja um leiðréttingu á hækkun höfuðstóls og eitthvað réttlæti. Umbreyting Gylfa frá því í janúar 2009 er eitt af undrum veraldar líkt og Steingrímur.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 22.4.2010 kl. 10:32

2 Smámynd: Haraldur Baldursson

Getur einhver bent á réttlætingu þess að ríkisstjórnin sitji áfram ? Er eitthvað í þeirra starfi sem kallar á það að þau sitji lengur ?

Það er ekki léttvægt að segja það, en það er kominn tími á Alþingiskosningar !

Haraldur Baldursson, 22.4.2010 kl. 12:07

3 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Er virkilega komið að lokaúrræðinu og hætta að borga, var það ástæðan fyrir blekkingunum og tafaleiknum.

Beið ríkisstjórnin eftir því að fá aðgang að nægjanlegu fjármagni til að geta tekið þann skell sem fylgir alsherja greiðslustöðvun.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 22.4.2010 kl. 12:08

4 Smámynd: Ásta Hafberg S.

Síðasta laugardagskvöld kom viljayfirlýsing stjórnvalda inn á vef efnahagsráðuneytisins. Við vorum nokkur sem lögðumst yfir hana og hnutum yfir 18. greinina.

Ég er búin að vera nánast orðlaus síðan.

Að mínu mati réttlætir ekkert setu þessarar stjórnar eða annarar hefðbundinnar flokksstjórnar í dag. Það er orðið kristaltært að það er engin munur á pest eða kóleru í þeim efnum.

Ég veit það bara að ef við getum ekki snúið þessu við núna þá eru okkur allar leiðir lokaðar.

Ásta Hafberg S., 22.4.2010 kl. 12:24

5 Smámynd: ThoR-E

Þannig að eignaupptakan stendur.

Fólk sem átti kannski ævisparnaðinn í fasteign sinni þarf að horfa upp á hann gerðan upptækan með einu pennastriki.

Ef ég tek eitt dæmi: Íbúð sem er/var verðlögð á c.a 15 milljónir. Lánið (fyrir hrun) stóð í c.a 11 milljónum og eigandinn hafði verið búinn að borga samviskusamlega af láninu og gerir enn. En lánið hefur hækkað upp í milli 15 og 16 milljónir. Þannig að ævisparnaðurinn hefur verið gerður upptækur. Og síðan, á meðan viðkomandi borgar afborgunina af fasteigninni í hverjum einasta mánuði fer lánið hækkandi enn þann dag í dag.

Maður bara trúir ekki að þetta sé eðlilegt. Allur skaði lendir á þeim sem tóku lánin. Ekki fjármálafyrirtækjunum (bönkunum) sem eru ábyrgir fyrir því ástandi sem er hérna núna. Mörg fyrirtækjanna tóku meira að segja stöðu gegn krónunni á meðan þau dældu út lánum í erlendri mynt.

Allar forsendur lánnanna hafa brugðist. Lánasamningurinn sem fólk skrifaði undir er ekki í neinum tengslum við lánin í dag.

Maður er orðlaus ... :Þ

ThoR-E, 22.4.2010 kl. 12:33

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það eru nokkrar vikur síðan að þessi fjárhópur í stjórnarráðinu lokaði fyrir alla hæfileika mína til undrunar.

Og mér sýnist það vera óþarfi að framlengja vistina.

Bara það eitt og sér að skipta út sjávaútvegsráðherranum fyrir mann sem veit hvað hann er að gera væri efnahagslegt kraftaverk fyrir þjóðina. Og fyrsta skref til siðvæðingar í stjórnsýslu. 

Árni Gunnarsson, 22.4.2010 kl. 14:12

7 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Vel skrifaður pistill Ásta,

vandamálið er að það eru ekki til almennilegir blaðamenn á þessu landi. Slíkir starfskraftar myndu ekki linna látum fyrr en allur almenningur hefði gert sér fulla grein fyrir málinu.

Þar sem þau stjórnarmynstur sem eru í boði eru álíka fjölbreytt og munurinn á kúk eða skít tel ég heppilegast að almenningur neyði núverandi stjórnvöld til sinnaskipta.

Bastilludagurinn nálgast.

Gunnar Skúli Ármannsson, 22.4.2010 kl. 14:38

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gylfi er maður varkár.  Rétt er það að ekki verður almenn niðurfærsla samkvæmt samkomulagi við AGS.  Það á að skoða hvert og eitt lán og taka ákvörðun um það.  Þetta er í besta falli orðhenglisháttur að neita því að almenn niðurfærsla eigi sér stað.  Auðvitað er það "almenn niðurfærsla" ef nær allir eiga að fá leiðréttingu.

Svo skulum við ekki gleyma því að ekki hefur verið höfðað mál vegna forsendubrests verðtryggðra lána.  Vonandi verður það gert, þar sem mörg verktakafyrirtæki hafa fengið bætt (vegna forsendubrests) þann kostnaðarauka sem hefur orðið frá upphaflega verksamningi.  Fordæmið er komið og nú þarf að láta reyna á það fyrir dómi gagnvart íbúðalánunum.  Síðan er það dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Lýsingar, þar sem gengistrygging var dæmd óheimil samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Staðfesti Hæstiréttur þann dóm verður "almenn niðurfærsla" gengistryggðra lána, sama hvað Gylfi segir.   Ítrekað hefur komið fram að gengistryggð lán hafi verið færð niður með 50% afslætti.  Hvernig væri að láta lántaka njóta þess krónu fyrir krónu.

Marinó G. Njálsson, 23.4.2010 kl. 00:20

9 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

Frábær pistill. Einnig frábær athugasemd hjá þér Marinó, hún róar aðeins mína reiðiöldu. Ég verð aldrei sátt fyrr en að heimilislánin verða leiðrétt.

Anna Margrét Bjarnadóttir, 23.4.2010 kl. 14:46

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Ásta og Marínó.  Ég vil utanþingsstjórn eða neyðarstjórn, allavega burtu með þetta lið.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.4.2010 kl. 17:58

11 Smámynd: Hörður B Hjartarson

   Já Ásta !    Hún Skjaldborg Gjaldborg Tjaldborg er geysiöflug , þ.e.a.s. innann veggja Þjóðarleikhússins - þar svínvirkar hún - þar er enginn niðurskurður , annað; ef fólk fer á þingpalla þá verður það að skilja farsíma eftir , sem ogyfirhafnir , niður við útidyr , en Þjóðarleikhússleikararnir mega hafa sína síma í salnum -m.ö.o. tvennar reglur gilda í Þjóðarleikhúsinu , einnar fyrir Jón - aðrar fyrir séra Jón , munum svo að vera þæg og góð og kjósa þessi göfugu göfugmenni , sama hvað á bjátar .

Hörður B Hjartarson, 25.5.2010 kl. 01:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband