Heilbrigðiskerfi allra ?

Nú eru að berast fréttir um að hin Norðurlöndin séu búin að einkavæða meira af heilbrigðiskerfi sínu en við höfum gert hér. Samkvæmt fréttinni er hagkvæmt og gott að fara í slíka einkavæðingu. Það bætir þjónustustig og skilvirkni. Sjá hér
Þegar ég les svona fréttir fer alltaf um mig nettur hrollur og það er vegna þess að heilbrigðisþjónusta á ekki að vera lúxus sem bara sumir geta veitt sér. 

Ef maður lítur á orðræðuna um að einkavæðing hafi í för með sér hagkvæmni og meiri skilvirkni þá er það vegna þess að einungis sumir hafa efni á að nýta sér þessa þjónustu sem gerir það að verkum að það lítur út fyrir að þetta sé hagkvæmt og skilvirkt. Annað sem gerist við einkavæðinguna er að læknar og starfsfólk mun leita í störf hjá þessum stofnum, skiljanlega þar sem það er örugglega betur borgað, og eftir verða læknar og starfsfólk í ríkisrekna hlutanum sem eru  ekki eins hæfir til síns starfa.

Miðað við það sem ég hef lesið af skýrslum um einkavæðingu heilbrigðiskerfa er ekki margt sem bendir til þess að einkavæðing kerfisins sé til góða NEMA auðvitað fyrir þá viðskiptamenn sem fjárfesta í svona rekstri með x mikla hagnaðarvon.

Fyrir almenning er þetta skref afturábak á öllum sviðum. Því með einkavæddum heilbrigðisgeira kemur einnig á endanum einkavædd sjúkratrygging. Einkavædd sjúkratrygging hefur ekki hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi heldur hagnað tryggingafélagsins. 

Ég vona að fólk íhugi alvarlega hvort það er tilbúið að setja verðmiða á limi sína og heilsu vegna trygginga sem gætu vel orðið framtíðin. Eruð þið tilbúin til að þurfa að verðleggja heilsu barna ykkar og annarra náinna fjölskyldumeðlima vegna þess að sumt er bara borgað að hluta eða ekki.

Ég vil benda ykkur á að horfa á þessa mynd gerða af Michael Moore. Ég veit að þetta er ekki svona hér núna, en ef við byrjum að fara þá braut að setja þetta í einkarekin rekstur þá líður ekki á löngu þar til einkavæðing kemur til og það gæti þetta orðið okkar veruleiki í framtíðinni.

 

 


Bætt lýðræði

Það er þannig að þjóðfélög og samfélög eru breytingum háð. Með tímanum verða stjórnarhættir, efnahagskerfi, lýðræðisuppbygging og fleira sem eitt sinn hafði sína nýtni og var samfélögum til góða,  úrelt og úr sér gengin, kannski meira að segja bara gamaldags og lúin. Sem sagt það þjónar ekki tilgangi sínum fyrir þjóðfélagið og samfélagið að viðhalda þeim.

Þar stöndum við á Íslandi í dag. Við stöndum frammi fyrir því að kerfin okkar eru allt hér að ofan og annað hvort þjóna þau fáum eða engum en sjaldnast heildinni.

Mér finnst þetta kristallast í mörgu sem er að gerast í þjóðfélaginu okkar í dag. Hvernig farið er með málefni inn á þingi, hvernig tekið er á fjármálakerfinu og hvernig farið er með veiðigjaldið.

Við erum búin að ganga í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave og biðla til forseta landsins vegna fjölmiðlalagana á sínum tíma, þannig að í raun er búið að skapa mjög sterkt fordæmi fyrir því að almenningur segi sína skoðun og taki málin í eigin hendur.

Þetta getur ekki verið annað en jákvætt EN það er galli á gjöf Njarðar að vissu leiti. Eins og þetta er í dag þá er þetta ekki mjög markvisst því hver og einn þarf að fara í mikla vinnu við að fara af stað með undirskriftarlista, halda öllu til haga og gera það bæði gagnsætt og sýnilegt til að trúverðugleikinn haldist.

Þetta leiðir mig að þeirri hugsun að auðvitað ætti að gera ráð fyrir þessu. Auka lýðræði almennings til að ákveða og hafa eitthvað um málin að segja. Það eru til einfaldar leiðir til að gera þetta. Til dæmis vefsíða þar sem fólk fyllir út eyðublað sem er skilgreint sem undirskriftarsöfnun og aðrir komast ekki inn á nema með rafrænum skilríkjum, sem standa flestum til boða í dag. Einnig væri hægt á sama stað að gera umræðuhluta, þar sem almenningur getur rætt sín á milli og þess vegna við alþingismenn  mögulegar lausnir og breytingar. 
Í nútímasamfélagi eru leiðirnar ekki erfiðar til aukins lýðræðis fyrir almenning en einhvern veginn virðast flestir stjórnmálamenn flokkana ekki sjá eða ekki vilja sjá að hægt sé með einföldum aðgerðum að gera Ísland að frumkvöðli í lýðræðisbreytingum. 


Mat á þjáningu, sársauka og þörf

Undanfarið hef ég fylgst með málinu um Snowden í fjölmiðlum. Þarna er greinilega á ferð hugsjónarmaður sem á allt gott skilið. Það virðist sem hann hafi tekið meðvitaða ákvörðun og valið að gera það sem hann gerði vel vitandi um það hvað afleiðingar það myndi hafa á líf hans. Svo meðvitaður var hann að hann skildi kærustuna eftir án þess að nefna hvert hann væri að fara.  

Síðan Snowden flúði til Hong Kong  hafa aðilar á Íslandi farið af stað í að koma manninum til Íslands og koma því svo fyrir að hann fái ríkisborgararétt. Þetta er allt gott og blessað og auðvitað á að ljá fólki í neyð hjálpandi hönd.

EN, já það er stórt EN í þessu hjá mér því ég hef verið að  hugsa á meðan ég hef lesið fréttir og fylgst með fésabókarsíðum vina minna og fólki tengdum þeim sem hafa verið að berjast fyrir því að hann fái hæli og ríkisborgararétt að fleiri hafa sótt um hæli á Íslandi og ekki fengið. 

Til dæmis homminn sem var svo sendur heim til sín og er líklega dáin núna, króatarnir sem eiga að fá aðstoð í heimalandinu vegna þess að þeir eru í minnihlutahóp en mjög líklega fá hana ekki því hún er meira í orði en á borði.  Líklega eru fleiri sem hafa verið sendir úr landi frá Íslandi sem enda annað hvort pyntaðir, dánir, lamdir, nauðgaðir, heimilislausir eða niðurlægðir og strippaðir mannréttindum sínum í heimalöndunum sem þeir eru sendir aftur til. Sumir hafa komið hingað eftir hræðilegar upplifanir á sál og líkama, tortryggnir, þjáðir og skemmdir á sálinni með von um betra líf á eyjunni sem hefur ekki einu sinni her.

999536_610065492346012_1915110906_n

 Svo sá ég þessa mynd hér til vinstri og þá fór ég að hugsa nánar um það hver getur eða á að meta þjáningu, sársauka og þörf annarra. Höfum við sem manneskjur getuna til að dæma hve mikill eða lítill sársauki eða þjáning annarra hefur verið, er eða verður ? Getum við sett miða á þjáningu annarra? Er þjáning Snowden til dæmis meiri en einhvers frá Sýrlandi af því að hann missir þessar góðu tekjur en sá frá Sýrlandi börnin sín og heimili? Hvað er nógu mikil þjáning til að við tökum mark á henni og segjum já við þeim sem leita hér hælis.

 

 Það sem ég er að reyna að koma frá mér er að allir sem þjást, hafa orðið fyrir hörmungum og verið rændir mannréttindum sínum þjást, finna til sársauka og hafa þörf á lífi í friði og spekt. Munurinn á Snowden og öðrum sem hafa komið hingað oft á fölskum vegabréfum er sá að Snowden tók meðvitaða ákvörðun, hann vissi hvað myndi gerast og hver hættan var. Aðrir sem koma hingað koma vegna þess að allt í einu var fótunum kippt undan kjarnanum í lífi þeirra, þeir hafa lifað í sjokk ástandi kannski í nokkur ár og vita hvorki hvað er uppi eða niðri á tilverunni. 

 Ég sit ennþá og íhuga það hvernig vi eigum að setja verðmiða og mat á þjáningu, sársauka og þörf annarra og hvort við eigum ekki að gera jafn mikið úr því þegar homminn frá Nígeríu sækir um hæli og við gerum núna þegar Snowden hefur sett fram ósk um að það verði gert fyrir hann.

 


Í krafti stöðu.....

Ísland er um margt merkilegt og er eitt af þessum merkilegu atriðum við Ísland stærð þjóðarinnar. Stærðina, höfuðtölu svo rétt sé farið með, telja margir vera okkur til vansa á meðan aðrir segja að smæðin sé okkur til góðs. Sjálf tel ég þetta vera tvíbent sverð sem getur, ef rétt er með farið, verið mjög gott þegar kemur að þjóðfélagsbreytingum og aðlögun kerfa almenningi, atvinnulífi og efnahag til hagsbóta. Boðleiðir eru stuttar og við höfum allt til að bera að vera gagnsætt og lýðræðislegt þjóðfélag.

Það sem er mínusinn við þessa smæð og stuttu boðleiðir er svo sú staðreynd að í krafti stöðu sinnar getur fólk látið hluti gerast á Íslandi. Fyrirtækjaeigendur og hagsmunaöfl, þekktir einstaklingar og þingmenn geta haft áhrif á þingið og lög og reglugerðir. Það er hægt að hafa áhrif á framgang ýmissa mála bæði innan þings og út í þjóðfélaginu í krafti stöðu sinnar og í krafti þess að þekkja rétta aðila og geta togað í réttu spottana. 
Stundum birtast fréttir sem sýna svart á hvítu að þjóðfélagið okkar er þjóðfélag þar sem það er hægt að hafa áhrif á framgang mála í krafti stöðu sinnar. Stundum eru þetta góð málefni sem eru fyrir heildina, hóp sem líður eða til bóta fyrir almenning en oftar en ekki eru þarna á ferð gæluverkefni einstaka hópa eða einstaklinga eða verið að gæta hagsmuna hópa eða einstaklinga sem hafa "vægi" í þjóðfélaginu á einhvern máta.
Það er mikill jafnvægisgangur að gera eða hafa áhrif á gang mála í krafti stöðu sinnar, það krefst mjög ríkrar siðferðisvitundar og jafnréttishugsunar, ekki bara hvað varðar kynin heldur almennt.
Ég spyr mig oft en ekki  að því hve mikið fólk sem hefur áhrif á gang mála í krafti stöðu sinnar íhugi það vald sem það hefur og hvernig það er að fara með það. Hvort það hugsi nokkurn tíma út í hvort það sé að vinna fyrir heildina eða fáa.
Hvað heldur þú?


Þing á skilorði

Viðbrögð við fréttum síðustu daga styrkja mig í þeirri greiningu minni að íslenska þjóðin er með þingið á skilorði eins og er . Ég skrifaði pistil sjá hér þar sem ég reifaði það að þjóðin hefur ekki fullt traust til þessarar ríkisstjórnar né núverandi þingmanna nema að litlu leiti.

Það er svo einfalt að við hrunið sem varð árið 2008  byrjaði hringrás sem ekki hefur verið undið ofan af. Fólk upplifði allt í einu vanmátt þingsins og ríkisstjórnar sem það átti ekki að venjast. Þeirri ríkisstjórn var ýtt frá af almenningi í reiði og vanmætti.

Þegar kosið var árið 2009 var einnig kosið, að mestu, út frá vanmáttugri reiði en þó með smá von í farteskinu. Við tók vinstri stjórnin sem gaf fólki smá von um að unnið yrði með hag almennings að leiðarljósi. Sú von dó mjög fljótt og við tók reiði og vanmáttur, vantrú og vantraust.

Það sem gerðist við hrunið og hélt svo áfram síðasta kjörtímabil er að almenningur horfði upp á stoð þjóðfélagsins, þingið, verða að drullupolli rifrilda, málþófs og lítillar samvinnu. Þingið sem átti að vera sameiningartákn þjóðar í sárum og reiði réði ekki við sameiningarhlutverkið og brást þjóðinni á öllum vígstöðvum.

Nú hafa enn einar kosningar átt sér stað þar sem ég met það sem svo að meira hafi verið kosið út frá vanmáttugri reiði og kannski vanmáttugri von um breytingar en trausti og trú á að það myndu virkilega eiga sér stað breytingar til batnaðar.

Nú er það svo að þjóðin setti þingið á trausts- skilorð. Þingið, ríkisstjórnin mun ekki fá langan tíma til að sýna að það sem sagt var hafi verið meint. Þau fá akki langan tíma til að sýna vilja sinn til að sameina þjóð og þing aftur. Traustið er farið og ekkert hefur verið gert ennþá til að endurskapa það.

Það er stjórnmálakreppa á Íslandi og hún hefur verið til staðar síðan hrunið varð. En það er líka vantrausts og vantrúar kreppa á Íslandi sem almenningur lifir á hverjum degi. Ekki bara núna heldur alveg frá því að hrunið átti sér stað. Ég er ekki viss um að neinn af flokkunum sem hafa verið á þingi síðustu fjögur ár geri sér grein fyrir því hve djúpstæð þessi kreppa er og hve mikið þeir þurfa að gera og sýna í gjörðum og orðum til að hún endi.
Eins og er er þingið á skilorði og vonin um að það breytist virðist ekki mikil.

 

 


Stefna eða stefnuleysi

Ísland hefur ekki þörf fyrir að hér  verði hver einasta lækjarspræna virkjuð og stóriðja rísi hægri vinstri.

Vandamálið við þessa hugmyndafræði í atvinnuuppbyggingu, burtséð frá öðrum sjónarmiðum, er sú að hún skilar ekki miklu þegar til lengri tíma er litið. Hún er of einhæf þegar kemur að atvinnuþróun og hagvaxtaráhrifin eru ekki stöðug til langs tíma. 
Afleidd störf eru til staðar en spurningin er kannski á kostnað hvers eru þau? Einnig má velta alvarlega fyrir sér að þegar svo einhæf atvinnuuppbygging og þróun á sér stað í svona litlu samfélagi hve viðkvæmt það verður fyrir utanaðkomandi áhrifum á markaði og í efnahagslífi.

 Ef litið er austur til Reyðafjarðar virðist það vera svo að afleidd störf hafi fæðst á þann máta að smiðjur, rafvirkjar, bilaverkstæði og aðrir verktakar hafi mikið til sameinast af fjörðunum og stofnað stærri fyrirtæki sem voru nógu stór til að þjónusta álverið.
 Þetta þýddi að störf sem voru til fyrir álversbyggingu fluttust öll á einn stað í stað þess að vera dreifð um firðina.
Auðvitað er viss hagræðing í þessu en þetta gerir það  að verkum að firðirnir í kringum Reyðafjörð verða að einhverskonar svefnþorpum með lítið sem ekkert atvinnulíf.
Sem betur verið hefur líka önnur þróun átt sér stað þarna, það er að firðir eins og til dæmis Fáskrúðsfjörður hafa lyft grettistaki í að koma af stað "einhverju öðru".
Í þeirra tilfelli er þetta "eitthvað annað" að halda lífi í Franska safninu, vera með í að fá Franska spítalann aftur inn í þorp og byggja hann upp og síðast en ekki síst setja á stofn handverksmarkað. Þetta er heildstæð stefna sem til lengri tíma mun gefa samfélaginu á Fáskrúðsfirði meiri stöðugleika í atvinnuþróun og vexti.
Afleidd störf geta orðið þó nokkur. Til dæmis öflugt tjaldsvæði, matsölustaðir gistiheimili, fleiri markaðir, skipulagðar göngur um fjöll og firnindi með leiðsögn og svo má lengi telja.
Það góða við þessa þróun er að þó að eitt fyrirtæki fari halloka eða lendi í fjárhagslegum vandræðum þá verða hin ekki sérstaklega fyrir áhrifum af því og munu halda lífi.
Ef Alcoa á Reyðarfirði fer á hausinn þá er þorri þeirra sem starfa við álverið eða í afleiddum störfum atvinnulausir.

Því miður skil ég vel af hverju álver reis á Reyðarfirði. Ástæðan fyrir því að það reis var einfaldlega sú að Ísland og íslenskt samfélag líður fyrir áratuga stefnuleysi í atvinnuþróunar málum, fyrirtækjarekstri og fyrirtækjamenningu. Það var aldrei búin til nein heildarstefna sem tók mið af fjölbreytileika í atvinnurekstri á landsvísu. Það var aldrei sett upp neitt sem hafði lengri líftíma en 4 ár í þessum efnum, engin umhverfisstefna til langframa, engin stefna yfirhöfuð.  

Svo lengi sem þessu verður haldið áfram mun Ísland bara enda eins og enn eitt landið þar sem skammsýni stjórnmálamanna og vinsældaveiðar þeirra ráða ríkjum.
Er þetta í alvöru það sem við viljum?


Sjálfbærni er töff og cool

Það birtist frétt á vísi áðan um Bhutan og hvernig þau stefna á að rækta allt lífrænt sjá hér 

Ég á mér draum um að svona frétt birtist einhvern tíma um Ísland. Frétt um að sett hafi verið stefna í sjálfbærni sem er einhvers virði og til langs tíma. Stefna sem er skýr og markmið sem eru kristaltær. Þar sem Ísland myndi verða í framvarðasveit fyrir það sem mun verða að gerast á jörðinni á næstu árum. Við verðum öll hér á jörðu að stefna á meiri sjálfbærni og það á einhvern raunverulegan hátt.

Það þýðir ekkert að fara að tala um grænt hagkerfi og rammaáætlanir sem eru bara orð á blaði og engin raunverulega framkvæmd til framtíðar.

Það verst er að Ísland hefur allt til að verða leiðandi á þessu sviði. Við erum mátulega lítil þjóð til þess að svona breyting geti tekið frekar stuttan tíma ef allir leggjast á eitt. Við eigum menntað fólk, mannauð og auðlindir. Allt er til staðar en við erum EKKI að nýta það til að gera sjálfbærni áætlanir sem vilja eitthvað. 

Í stað þess að taka okkar eigið skref í þessum málum sem passar okkar þjóðfélagi og stærð þá eltumst við við að taka upp og keyra nýfrjálshyggju kerfi hinna vestrænu landa með sínum miðjumoðs áætlunum um sjálfbærni, umhverfi og náttúru.

Það er meira töff að taka upp sínar eigin stefnur byggðar á raunverulegum markmiðum um alvöru sjálfbærni sem hentar okkar þjóðfélagi en að eltast við áætlanir sem hafa alltaf að leiðarljósi einhverstaðar að þóknast fyrirtækjamenningu með ósk um skjótan hagnað. 

Förum af stað í þetta því Ísland hefur allt til að verða eins töff og cool og Bhutan.  


Þing og þjóð

Nú er ný ríkisstjórn tekin við taumunum og eru ansi skiptar skoðanir á henni alveg eins og þeirri sem sat á undan. Fólk er annað hvort mjög hrifið eða flemtri slegið yfir þessari nýju stjórn.
Reyndar virðist það vera sem svo að flestir, óháð því hvort að þeim lítist á nýju stjórnina eða ekki, séu  með stórann kvíðahnút gangvart næstu fjórum árum á þingi vegna þess að það er hrætt um að þau verði gegnsýrð af málþófi, rifrildum og þrasi eins og síðustu fjögur ár voru. 
Fólk orkar hreinlega ekki fjögur svoleiðis ár í viðbót.

 Sú staðreynd að traust fólks á alþingi var nánast ekkert á síðasta kjörtímabili er líka eitthvað sem allir flokkar á þingi núna þurfa að taka til greina. Traust fólks í þinginu hvarf vegna lélegra vinnubragða, loforða sem voru brotin og vegna þess að fólk upplifði ekki tengingu milli þings og þjóðar.

Sem sagt almenningur upplifði að  þingmenn gátu ekki sett sig í aðstæður þeirra eða sýnt skilning fyrir því sem var að gerast út í þjóðfélaginu og leyst það almenningi til hagsbóta. 

Þetta traust er ekki endurskapað þó kosningar séu nýafstaðnar, það er bara á skilorði.

Þessar kosningar núna voru svona eins og síðustu kosningar, reiði og vantraustskosningar. Reiði og vantraustskosningar eru kosningar þar sem fólk kýs öfugt við það sem var fyrir til að refsa. Það gerðist 2009 og það gerðist líka núna að hluta. Svona kosningar eru ekki farsælar fyrir neina þjóð, sérstaklega ekki ef þær endurtaka sig.

Ný stjórn er tekin við og nú ætlar almenningur að gefa henni séns. Vandamálið er að þolinmæði almennings er ekki mikil og þetta þing verður að vanda sig við að byggja brú á milli þings og þjóðar aftur og helst sem fyrst svo að einhver sátt fari að myndast á ný. 

Ef þessi stjórn meinar það sem er í stefnuyfirlýsingunni þá mun hún núna róa lífróður í að skapa traust og vinna traust almennings á stjórnmálum aftur. Hún mun gera allt sem hún getur til að breyta vinnuaðferðum, draga mismunandi aðila utan úr þjóðfélaginu að borðinu til skrafs og ráðagerða, stunda alvöru samræðupólitík, auka aðkomu almennings að málum og fá stjórnandstöðuna í samstarf með sér. 

 Þessi upptalning er bara lítill hluti af því sem þarf að gerast til að það sé hægt að fara að byggja upp samfélag í sátt og það er vonandi að þessari stjórn beri gæfa til að gera það sem stendur svo fagurlega í stefnuyfirlýsingu þeirra og byrja þá pólitísku heilun sem þarf að eiga sér stað milli þings og þjóðar.  

 

 

 

 

 

 

 


Forgangsröðun fjármagnsins

Við lifum í samfélagi þar sem forgangsröðun fjármagnsins er númer eitt. Það kristallaðist í gærkvöldi þegar Eir komst enn einu sinni í fréttir vegna lélegrar stjórnunar, lélegrar forgangsröðunar og lélegs fjármálavits af hálfu stjórnar Eirar.

Eins og venja er á Íslandi tekur enginn ábyrgð, enginn hefur beðist afsökunar og enginn hefur sagt af sér. Allt sem hefur gerst er bara business as ususal og það þó að íbúar Eirar, sem hafa unnið sitt langa líf og eiga nú rétt á sinni afslöppun og áhyggjuleysi, sitji með tapaðan ævisparnað og áhyggjur af því sem verður.

Þarna kristallast í raun allt sem er að í samfélaginu okkar. Manneskjan hefur ekki vægi, lífsgæði hafa ekki vægi, lífskjör hafa ekki vægi og velferð hefur ekki vægi. Það sem ræður ferð er fjármagnið og fjármálagjörningar og ábyrgð á gjörningnum er enginn því þarna er hið alráðandi fjármagn á ferð og á því tekur enginn ábyrgð. 
Þetta er ekki fyrsta dæmið um það að manneskjan fari halloka í viðureign sinni við peninga og að það skuli geta gerst, það er að segja að manneskjan tapi fyrir pappír með mynd og tölu á, hlýtur eitt og sér að gera það að verkum að við setjum STÓR spurningamerki við forgangsröðunina í samfélaginu.
Ég fyrir mitt leiti sit allavega og fæ hroll niður bakið þegar ég hugsa um það hvað þetta er undarleg forgangsröðun. 
Þessi forgangsröðun er nokkuð sem við verðum að breyta í þjóðfélaginu og það er ekki einu sinni spurning.


Gísling hugarfarsins

Gísling hugarfarsins er að mínu mati það hættulegasta sem við lifum við í dag í vestrænum þjóðfélögum. Við sem almenningur lifum i þessari gíslingu alla daga allan daginn án þess að setja nein spurningamerki. 
Undir gíslingu hugarfarsins tilheyra vaninn og öryggið í vananum, fordómarnir, sinnuleysið, afskiptaleysið og hræðsla við að rugga bátnum og standa berskjaldaður með skoðun fyrir framan alþjóð.

Kannski einstaka sinnum fáum við svona tilfinningu, smá brot af hugsunarvísi sem reynir að læðast upp á yfirborðið um að eitthvað er ekki í lagi, en líklega tökum við varla eftir honum eð afneitum tilvist þessa hugsanavísis á núll komma einni og snúum okkur aftur að því að ala upp börn, vinna, reyna að borga skuldir og láta hinn daglega dag hanga saman á rökréttan máta.

 Þessi gísling hugarfarsins er ástæða þess að eftir hrun bankanna, efnahagskerfa og stjórnsýslu ásamt fleiru, hefur ekki tekist að byggja upp, endurskoða eða endurhanna samfélagið og þjóðfélagið svo að það taki mið af borgurum þess og þá meina ég öllum borgurum þess. Samfélögin okkar eru ekki manneskjuvæn því miður og það mun ekki breytast ef við sem almenningur tökum ekki okkar ábyrgð.

Okkar ábyrgð liggur í því að brjótast út úr gíslingu hugarfarsins og fara að gagnrýna og setja spurningamerki. Það er okkar að veita stjórnmálamönnum aðhald, láta skoðun okkar í ljós og krefjast hluta ef það er það sem við þurfum að gera. Því staðreyndin er sú að meirihluti þeirra þingmanna sem nú eru að setjast á þing eru úr gamla kerfinu og munu ekki gera kjarnabreytingar á samfélaginu nema kannski að litlu leiti.

 Það er okkar að leggja áherslu á að við viljum manneskjulegt samfélag sem er byggt upp í kringum og fyrir fólkið. Við gerum það ekki nema losa okkur úr gíslingu hugarfarsins.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband