Opið bréf til Guðbjarts og Gylfa og svar Gylfa vegna neysluviðmiðsins

Þann 23. Febrúar var hópur fólks, þar á meðal ég,  sem sendi Guðabjarti og Gylfa fyrirspurn vegna hin nýreiknaða neysluviðmiðs. Ekkert svar hefur borist frá Guðbjarti en Gylfi hefur svarað og er svar hans birt í heild sinni neðst í þessari færslu. Hve mikið er hægt að nota það er spurning, en við munum halda áfram að spyrj aum þá hluti sem okkur finnst mikilvægir.

 Reykjavík 23. febrúar 2011 

Ágæti, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.

Viss hluti samlanda okkar þarf að lifa á lágmarkskjörum frá einum mánaðamótum til þeirra næstu. Til þessa hóps teljast: öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir, félagsbótaþegar og starfsmenn á lágmarkslaunatöxtum. Flestallir sem koma að ákvörðun um hversu mikið einstaklingar í þessum hópum hafa úr að spila hafa margfalt hærri tekjur og eru sökum þess illa búnir til að meta aðstæður skjólstæðinga sinna rétt.

Heildartekjur upp á 160 þúsund krónur á mánuði er staðreynd fyrir stóran hóp Íslendinga. Bæði rannsóknir þinna eigin starfsmanna, sérfræðinga og hyggjuvit meðalmannsins benda ótvírætt til þess að nánast ómögulegt sé að ná endum saman með fyrrnefndri upphæð.

Eftir umfangsmikla vinnu á vegum velferðarráðuneytisins var nýlega lögð fram ákaflega gagnleg skýrsla um neysluviðmið (Sjá hér). Hún er vel unnin í alla staði og gefur góða vísbendingu um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.Vegna þessarar skýrslu var sett upp reiknivél (Sjá hér) á vef ráðuneytisins.

Samkvæmt henni þarf einstaklingur í leiguíbúð 300.966 krónur í ráðstöfunarfé til þess að eiga fyrir nauðþurftum og öðru sem telst til mannréttinda eins og húsnæði og virkri þátttöku í samfélaginu.

Í ljósi alls þessa leitum við til þín með eftirfarandi spurningu: Hvernig myndir þú, ágæti Guðbjartur, ráðleggja fólki að ná endum saman með áðurnefndum hundrað og sextíuþúsund króna tekjum á mánuði?

Ráðleggingar þínar gætu orðið upphafið að bættri umræðu um núverandi vandamál þeirra einstaklinga sem glíma við þessa spurningu 12 sinnum á ári. 

Virðingarfyllst og með ósk um svör.

Ásta Hafberg

Björk Sigurgeirsdóttir

Gunnar Skúli Ármannsson

Elías Pétursson

Jón Lárusson

Kristbjörg Þórisdóttir

Ragnar Þór Ingólfsson

Rakel Sigurgeirsdóttir 

Bréf með sömu fyrirspurn sent á Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands.

Afrit sent á fjölmiðla. 

Reykjavík, 28.febrúar 2011 

Ágætu viðtakendur.

Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir bréfið og tek heilshugar undir mikilvægi þess að fram fari vönduð og góð umræða um stöðu þeirra hópa sem veikast standa í okkar samfélagi og með hvaða hætti við getum tryggt að allir landsmenn búi við mannsæmandi kjör og hafi tækifæri til virkrar samfélagþátttöku.

Umræðan um neysluviðmið og framfærsluþörf er flókin og vekur upp ýmsar áleitnar spurningar sem erfitt er að svara með algildum hætti, oftast er hér um að ræða huglægt og persónulegt mat manna sem seint verður óumdeilt. Skoðun mín hefur verið sú að rétt væri í þessu samhengi að horfa til alþjóðlegra mælikvarða og meta umfang vandans þannig að horft sé til þess hversu stór hluti þjóðarinnar hefur ráðstöfunartekjur sem eru lægri en gengur og gerist í því samfélagi sem um ræðir.

Evrópusambandið skilgreinir þann hóp sem er undir s.k. lágtekjumörkum sem þau heimili sem hafa lægri ráðstöfunartekjur en sem nema 60% af miðgildi ráðstöfunartekna. Í þessu flest tilraun til þess að bæði meta umfang fátæktar í samfélagi út frá tekjum fremur en að meta þörf fólks fyrir ýmsa neyslu og einnig setja fram skilgreint markmið fyrir bæði stjórnvöld og aðila vinnumarkaðar að vinna eftir við ákvörðun lægstu launa og bóta.   

Öllum má vera ljóst að þau heimili sem þurfa að framfleyta sér á bótum eða lágmarkslaunum búa mörg við kröpp kjör. Hér er fyrst og fremst um samfélagslegt viðfangsefni að ræða, sem snýst um það með hvaða hætti við skiptum þeim lífsgæðum sem þjóðin býr yfir.

Vissulega hefur verkalýðshreyfingin veigamikið hlutverk í þeim efnum í gegnum aðkomu sína að gerð kjarasamninga en pólitísk sýn og aðgerðir stjórnvalda í efnahags- og félagsmálum ráða hér úrslitaáhrifum um hvernig til tekst.

Verkalýðshreyfingin hefur í baráttu sinni lagt áherslu á að stjórnvöld nýti þá möguleika sem í skattkerfinu felast til þess að hafa áhrif á tekjuskiptingu í samfélaginu og tryggi með pólitískri stefnu sinni félagslegt jafnrétti á sem flestum sviðum s.s. í mennta- og heilbrigðismálum svo ekki sé talað um það sem snýr að velferð og uppvexti barna og ungmenna. Allt eru þetta þættir sem varða miklu möguleika fólks til virkni og velfarnaðar í nútíma samfélagi.  

Á síðustu árum hefur góð samstaða verið um það innan verkalýðshreyfingarinnar að leggja megin áherslu á að bæta kjör þeirra hópa sem lakast standa, þetta hefur endurspeglast í áherslum í kjarasamningum og í kröfum gagnvart stjórnvöldum. Samið hefur verið um hækkanir á lægstu laun talsvert umfram almennar launahækkanir og kröfur gerðar á stjórnvöld í tengslum við kjarasamninga um hækkun á bótum almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga auk þess sem rík áhersla hefur verið á að auka tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins m.a. í gegnum hækkun persónuafsláttar og hækkanir á barna- og húsnæðisbótum.

Í nýlegum samanburði á stöðu lægstu launa innan Evrópusambandsins kom í ljóst að Ísland er enn í hópi þeirra ríkja sem hafa hæst lágmarkslaun. Fyrir hrun krónunnar árið 2008, í kjölfar alvarlegustu hagstjórnarmistaka sem sögur fara af, var raungildi lægstu launa enn hærra og vorum við hæst í Evrópu.

Einnig kom fram í þessari könnun, að ef lægstu laun eru sett í hlutfall við meðallaun í viðkomandi löndum, var það hlutfallið hæst hér á landi. Þetta sýnir betur en nokkuð annað þann mikla árangur sem stefna verkalýðshreyfingarinnar um að hækka lægstu laun umfram almennar launahækkanir hefur skilað. Í yfirstandandi kjaraviðræðum er ljóst, að þrátt fyrir áherslu á að tryggja aukin kaupmátt með almennum launahækkunum, er uppi þessi sama áhersla á jöfnun kjara. Í síðasta kjarasamningi tókst okkur að tryggja óbreyttan kaupmátt lágtekjuhópanna þrátt fyrir mestu efnahagskreppu Íslandssögunnar.

Nú getum við byggt ofan á þann grunn og aukið kaupmátt lágtekjuhópanna þannig að við endurheimtum stöðu okkar í fremstu röð. 

Virðingarfyllst,

Gylfi Arnbjörnsson

Forseti Alþýðusambands Íslands   


Hverju erum við að berjast fyrir fyrst og fremst?

Margir hafa sett spurningamerki við þá baráttu sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu síðan að hrunið varð, sérstaklega eftir að hin hreina vinstri stjórn tók við völdum í landinu og boðaði Norræna velferð.

Við höfum öll séð að norræna velferðin er ekki til staðar og með þeim niðurskurði sem boðaður er mun hún aldrei verða að veruleika.

Við höfum öll séð að Skjaldborgin um heimilin var bara hjómur af hugsun sem varð aldrei neitt meira en það. Jólapakkinn frá ríkisstjórninni sannar það.

Við höfum öll séð mönnunum sem komu okkur í þetta fen hampað, fá fyrirtæki sín og eignir upp í hendurnar aftur og afskriftir eins og engin sé morgundagurinn. Þó eru þetta menn sem hafa fegrað bókhald fyrirtækja sinna út í hið óendanlega og gætu líklega fengið Pulitzer fyrir.

Við höfum öll séð að atvinnuuppbygging er meira á pappír en í gjörðum og þó er hún okkur lífsnauðsyn.

Þetta er allt eitthvað sem við eigum að vera að berjast fyrir svo lífskjör okkar sem þjóðar fari ekki í norður og niðurfallið með fyrsta morgunfretinu.

EN það sem við erum fyrst og fremst að berjast fyrir er siðferði okkar og réttlætiskennd sem hefur verið margnauðgað síðustu 2 ár.

Við erum að berjast fyrir æru okkar sem þjóðar, fyrir samkenndinni, fyrir breyttum starfsháttum sem botna í hugsun á meðborgurum okkar og ekki eiginhagsmunum.

Við erum að berjast fyrir því að geta farið fram úr á morgnana og sagt við okkur sjálf " Ég get verið stolt af þjóð minni og landi, því við nýttum þessar hamfarir og byggðum réttlátt samfélag, við byggðum samfélag sem tekur mið af heildinni og ekki bara hagsmunahópum"

Við erum að berjast fyrir endurnýjaðri hugmyndafræði og hugsjónum.

Það er barátta sem á rétt á sér ALLTAF og ALLSTAÐAR.


Litla týnda þjóðin

Einu sinni var lítil þjóð sem bjó í sátt og samlyndi við náttúröflin og landvættina á lítilli eyju út í ballarhafi. Þessi þjóð var friðsamleg og að mörgu svolítið trúgjörn. Hún trúði því að allt væri í himnalagi í litla lýðveldinu og að af hverju strái drypi hunang.

Dag einn gerðust miklar hamfarir í litla lýðveldinu sem þjóðin kunni ekki deili á. Þjóðin stóð máttvana, magnvana, hissa og ráðalaus frammi fyrir manngerðum náttúruhamförum, þó var þessi litla þjóð vön og kunni að bretta upp ermar og spýta í lófa og takast  á við náttúruhamfarir í aldanna rás. Þetta var sem sagt ekki í eðli sínu ráðalaus þjóð.

Þjóðin varð reið og safnaðist á torg út og hrópaði á réttlæti sér og sínum til handa. Því litla þjóðin hafði ekki haft hugmynd eða gert sér grein fyrir að meðal þeirra leyndust skúrkar af verstu gerð. Þessi skúrkar, í dulargervi bankamanna, höfðu tæmt sjóði litlu þjóðarinnar og í skjóli nætur komið þeim fyrir í paradís skúrkanna, þar sem ekki var hægt að ná til þeirra aftur.

Litla þjóðin stóð á torgum vikum saman og barðist gegn óréttlæti sem henni var fyrirmunað að skilja að yfir hana gengi. Litla þjóðin notaði það sem hún átti til í þessari baráttu og gaf sig alla í verkið eins og hennar er von og vísa í erfiðleikum.

Þegar fyrsta baráttan skilaði þjóðinni nýjum valdhöfum, varð hún í hjarta sínu glöð og með henni kviknaði von. Þjóðin trúði því að nýju valdhafarnir myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að ná í rassinn á skúrkunum fljótt og örugglega, sækja sjóðina og verja litlu þjóðina fyrir árás annarra skúrka frá skúrkaparadísinni.

Nýju valdhafarnir settust í ráðastóla og tíminn leið, litla þjóðin trúði að núna væri hún á réttri leið til betri framtíðar. Tíminn og leið og það kom á daginn að litla þjóðin hafði enn einu sinni í trúgirni sinni og von látið gabba sig. Nýju valdhafarnir hleyptu skúrkunum inn í landið bakdyramegin og báru hag litlu þjóðarinnar ekki fyrir brjósti eins og hún hafði trúað.

Skrímslið kom og þóttist ætla að hjálpa litlu þjóðinni út úr erfileikunum. Það kom með gilda sjóði til að lána litlu þjóðinni og valdhafarnir tóku því fegins hendi. Litla þjóðin hefur svo vaknað óþyrmilega af þyrnirósarsvefni, því skrímslið  krefst þess að litla þjóðin gefi eftir þau forréttindi að hugsa hvert um annað.

Valdhafarnir sem litla þjóðin batt allar sínar vonir við  sviku hana í hendur skrímslinu. Skrímslið í samvinnu við valdhafa gerði áætlanir litlu þjóðinni til handa sem gerðu henni erfitt um vik að gera það sem hún hafði alltaf gert, redda sér.

 Litla þjóðin var vön að vinna og standa fyrir sínu. Nú stóð hún frammi fyrir því að lífsviðurværi voru numin brott, húskofarnir lentu í höndum skúrkana og litla þjóðin týndist á tilfinningalegum og efnislegum vergangi.

Eftir því sem tíminn leið misst litla þjóðin vonina og viljann til að berjast. Vonleysið var mikið hjá litlu þjóðinni sem skildi ekki hvernig valdhafarnir gætu skilið hana eftir í reiðileysi.

 Litla þjóðin stendur því  frammi fyrir því í dag að verða að finna aftur fram forn lífsgildi sem hún týndi þegar að hin efnislegu gildi urðu hið eina sanna verðmæta og stöðu mat. Nú verður litla þjóðin að þjappa sér saman og muna að það sem skiptir máli í lífinu er fjölskylda, náungakærleikur, samtaða og samvinna.

Með þetta að leiðarljósi getur litla þjóðin barist fyrir réttlæti og endurreisn samfélags sem er ekki spillt af skúrkum sem vilja aðeins nýta sér litlu þjóðina sér til framdráttar.

Köttur út í mýri setti upp á sig stýri úti er ævintýri.........

 


Tunnnurnar tala en hvað svo?

Í gær var fyrsti í Tunnumótmælum. Við komum þarna saman og stóðum vaktina fyrir okkur sjálf og velferð þjóðfélagsins okkar. Við stóðum þarna líka vegna vanhæfis Alþingis okkar.

Við vildum öll trúa því að með nýrri stjórn, og það vinstri stjórn, myndum við fólkið í landinu verða sett í fyrsta sæti. Við trúðum því að velferð og vegferð okkar sem þjóðar myndi ráða för og ekki fjármagnseigendur og fjármálafyrirtæki.

Það sem við höfum upptvötað hægt og rólega er það að ekki bara er ríkisstjórnin okkar vanhæf heldur Alþingi í heild. Sem stofnun hefur það brugðist hlutverki sínu gagnvart almenningi í landinu og tapað sér í þrasi, tuði, karpi og barnalegri vitleysu sem á engan veginn við í dag.

Ég veit ekki með ykkur en ef það er eitthvað sem ég vil ekki sjá í dag, þá eru það nýjar kosningar. Vandamálið við það er að við munum þurfa að fara í nokkrar kosningar þangað til að við náum að hreinsa út af þingi og fá nýjar starfsaðferðir og hugmyndir þangað inn. Sem þjóð höfum við hreinlega ekki efni á því.

Ég þá mynd að hér væri hægt að breyta lögum og reglugerðum þannig að við gætum fengið óháða starfsstjórn í einhvern tíma, segjum 2 ár. Þessi starfsstjórn myndi sinna þeim málum sem eru brýnust s.s

  • Atvinnuleysi og atvinnuuppbygging,
  • Skuldir heimilanna og afkoma þeirra
  • Stjórnarskráin og stjórnlagaþing
  • AGS og ESB
  • Hún myndi vinna í smærri hópum sem hver tekur einn flokk og fer í gegnum hann og finnur viðunandi lausn.
  • Á meðan væri þingið hreinlega ekki starfandi.  Gefum flokkunum frí. Gefum þinginu frí. Gefum því frí í svona 2 ár og vinnum á vandanum sem steðjar að okkur í samfélaginu. Finnum lausnir og komum okkur út úr kreppunni. Svo getum við alltaf kosið okkur nýtt þing á nýjum forsendum seinna.

Sameinuð stöndum vér.... linkur á mótmælin

Það hefur berlega komið í ljós síðan að hrunið varð að þingið er ekki hæft til samvinnu. Þar er hver höndin upp á móti hvor annarri og ekki verður mikið úr verki vegna karps og þrass.

Á meðan erum við að missa atvinnu okkar og heimili. Skjaldborgin er enginn og aðeins örlar á niðurskurði og skattahækkunum í boði AGS og ríkisstjórnarinnar.Við sem almenningur höfum ekki efni á þessum furðulegu vinnubrögðin sem viðgangast á þinginu.

Það þýðir ekkert fyrir okkur að stinga hausnum í sandinn með þetta lengur. Við almenningur á Íslandi eigum að borga þetta hrun af fullum þunga á meðan fjármagnseigendur fá hverja afskriftina á eftir annarri.

Látum nú hendur standa fram úr ermum og tökum til hendinni eins og okkur er einum lagið þegar við tökum okkur til.

Hér er linkur á mótmælin endilega deilið þessu og látið fólk vita. ALLIR að mæta.

http://www.facebook.com/home.php?sk=app_2915120374#!/event.php?eid=153115328061770&index=1


mbl.is Boða mótmæli á Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju mótmæla ?

Já af hverju erum við og eigum við að vera að mótmæla gott fólk?

Við eigum að mótmæla því að það hefur ekkert breyst hvað varðar vinnubrögð, vinavæðingu, hugmyndafræði og spillingu eftir að nýja stjórnin tók við.

Þýðir það að við viljum aðra stjórn samansetta af D og B? Nei það þýðir það ekki.

Það þýðir að við höfum komist að á eigin skinni að ekki skiptir máli hvort hér sé við stjórnvölinn vinstri eða hægri stjórn vinnubrögðin eru þau sömu og það gengur bara ekki upp. Við höfum séð að þessu fólki er ómögulegt að hugsa út fyrir kassann og þar af leiðandi er það að reyna að tjasla á sárin með sömu aðferðum og komu okkur í skítinn...sorry virkar ekki til langframa.

Við eigum að vera að mótmæla skerðingu á hendur ellilífeyrisþegum og öryrkjum, sem er sá hópur þjóðfélagsins sem minnst má við þeim.

Hvers vegna eigum við  að mótmæla því? Jú vegna þess að við berum samfélagslega ábyrgð á því að allur almenningur geti lifað í þessu landi, hvort sem við höfum það gott eða ekki sjálf.

Við eigum að vera að mótmæla skattahækkunum sem eru og munu sliga okkur um ókomin ár. Þarna munum við öll finna vel fyrir því í veskinu þegar að fram líða stundir og ef við stoppum þetta ekki gerir það engin. Lítil og meðalstór fyrirtæki ásamt fjölskyldum landsins eru þeir aðilar sem munu finna mest fyrir þessu.

Við eigum að vera að mótmæla því að Skjaldborgin varð aldrei meira en hugmynd sem aldrei komst lengra en að vera bara það. Lausnir sem hafa verið settar fram eru meira og minna vanhugsaðar, illa unnar, virka ekki til langframa og í raun hafa þær ekki tekið á þeim forsendubresti lána sem hér varð við hrun.

Við eigum að vera að mótmæla að Rannsóknarskýrslan var bara óþægileg fyrir stjórnmálamenn í stuttan tíma og að svo til enginn hefur staðið upp og tekið ábyrgð, sagt af sér eða bara komið fram fyrir alþjóð og beðist afsökunar á því að hafa verið fífl.

Við eigum að vera að mótmæla því að ólögleg lán eru ekki, kannski, hugsanlega gæti verið kannski ólögleg og samt ekki. Það virðist ekki vera hægt að taka skýra afstöðu með almenningi í þessu máli og því eigum við að mótmæla gott fólk.

Það er af nógu að taka og þetta er ekki tæmandi listi, en eitt er víst ef við berjumst ekki fyrir okkur sjálf mun engin gera það. Þeir sem ennþá sitja heima og halda virkilega að þessi stjórn muni galdra fram einhverja undralausn hljóta að hafa stungið hausnum svo kyrfilega í sandinn að ekki verður hægt að grafa hann upp aftur.

Við hljótum að vera farin að sjá það að það skiptir engu máli hvar í flokki við stöndum því að vinnubrögð hafa ekki breyst. Það hlýtur hreinlega að hafa kennt okkur almenningi að við VERÐUM að vinna saman þverpólitískt og sameina okkur um að koma okkur út úr vitleysunni.

Það liggur við að ég segi að íslenska þjóðin er eins og kona sem hefur verið barin í mörg ár...hún skilur loksins við ofbeldismanninn og fer að lifa smá lífi. Skömmu síðar er hún aftur komin í samband við annan ofbeldismann sem lemur hana sundur og saman. Í staðinn fyrir að standa upp fyrir sjálfri sér og berjast fyrir sér og sínum leggst hún niður og lætur sparka í sig liggjandi líka.

Erum við svona?

 


Hvaða nýju upplýsingar?

Ekki skil ég hvað þingmaðurinn er að tala um þegar hann talar um nýjar upplýsingar í þessu máli.

Fyrir þá sem hafa nennt að fylgjast með þessu máli er ekkert nýtt að koma fram. Það hefur verið vitað á marga mánuði að Magma Sweden er sænskt skúffufyrirtæki, stofnað eingöngu til þess að hægt væri að ganga frá þessum kaupum.

Þannig að ekkert er nýtt þar.

Það eina sem talist getur nýtt í málinu er það að nefndarmenn hafi verið beittir þrýstingi svo að af kaupunum varð. Sem sýnir bara að vinnubrögð eru ekki lýðræðisleg og að ekki er verið að hugsa um almannahagsmuni. Sem kemur, held ég engum í þjóðfélaginu á óvart, nema kannski þeim sem vinna innan stjórnsýslunnar.

Það sem mér finnst skrýtnast í Magma málinu er það að þegar að málið fór af stað kom Steingrímur stóryrtur í fjölmiðla og sagði að allt yrði gert til þess að ekki yrði af kaupunum.

Svo heyrðist EKKERT á marga mánuði. Allt í einu þegar að LOKSINS kemst í hámæli í fjölmiðlum að um skúffufyrirtæki sé að ræða og að nefndin hafi ekki unnið lýðræðislega geysist Steingrímur aftur fram á völlin og veit lítið sem ekkert um málið, þæfir svolítið fram og til baka og þagnar aftur.

 

Mér er spurn hvernig getur þetta fólk EKKI vitað af því sem er í gangi inn á stjórnarheimilinu? Og eru það ábyrg vinnubrögð?

Treystir einhver fólki til starfa sem virðist ekki setja sig inn í málin og vita hvað er að gerast í mikilvægum málum þjóðarinnar?

Hvernig geta þau leyft sér að hlaupa stefnulaust fram og til baka þegar að land og þjóð standa í verstu hremmingum sem upp hafa komið í sögu hennar ?

Hvers konar rugl er þetta orðið? 

Er nema von að maður spyrji.

 

 

 


mbl.is Gæti ógnað ríkisstjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nóg er nóg

Skjaldborgin er ekki til, ekki var einu sinni reistur grunnur að henni.

4 heimili fara á uppboð á dag í júní mánuði í Reykjavík. Hvernig verður staðan þegar líður á sumarið?

Bönkum sem leysa til sín eignir ber ekki skylda til að bjóða fólki að leigja áfram eignir sínar.

Lyklafrumvarpið er fast í nefnd.

Ríkistjórnin er búin að gefa út í viljayfirlýsingu vegna AGS að ekki verði gert meira fyrir heimilin.

Verið er að skerða alla þjónustu, laun og atvinnu.

Verið er að koma auðlindunum í hendur erlendra skúffufyrirtækja.

Vatnalögin eiga að taka gildi 1.Júlí og eru umdeilanleg.

Bankarnir lifa sínu eigin sjálfstæða lífi aftur og eru bara að gera það sem þeir gera best, græða pening no matter what.

Það versta er að allt sem er að gerast í þjóðfélaginu í dag eru samhangandi þættir og hafa keðjuverkandi áhrif hver á annan.

Þingið er að fara í frí og það liggja yfir 100 mál á dagskrá sem þarf að keyra í gegn áður en frí er tekið, þar á meðal síðustu örðurnar af mini lausnum fyrir heimilin.

Ef það er einhver þarna úti sem heldur ennþá að það sé verið að vinna með almannaheill að leiðarljósi þá hlýtur sá hinn sami að hafa stungið hausnum í sandinn eftir kosningar og ekki opnað fréttamiðil síðan.

Sorry Íslendingar en við sem almenningur þurfum bara að fara að taka fingurinn úr rassgatinu á sjálfum okkur, standa saman og krefjast sanngirni og réttlætis.

Ekki láta ykkur detta í hug í hálfa sekúndu að allt í einu muni eitthvað geðveikt kraftaverk bjarga þessu. Þetta mun EKKI reddast, við þurfum að gera það sjálf.

 Nóg er nóg og við þurfum ekki að vera eins og konan sem býr með manni sem lemur hana. Þetta er ekki okkur að kenna og við eigum ekki að skammast okkur fyrir neitt. Við lifðum bara venjulegu lífi á þeim forsendum sem voru til staðar. Við vorum ekki sérfræðingar á bankasviðinu. Við aftur á móti tókum við ráðgjöf frá sérfæðingum á bankasviðinu (héldum við).

Við höfum stuttan tíma til að láta í okkur heyra, þingið er að fara í frí, en við VERÐUM að láta í okkur heyra NÚNA vegna þess að í haust er það orðið of seint.

 

 


mbl.is Fimmfalt fleiri undir hamarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumargjöf í boði AGS og ríkisstjórnarinnar

Jæja nú er það að byrja. Fyrstu uppboðin á heimilum landsmanna sem þó átti að bjarga með hinni týndu Skjaldborg.

Í haust mun svo ríða yfir holskefla uppboða þar sem fjöldinn allur af fólki mun missa heimili sín.

Þeir sem ekki fara á uppboð verða að taka afarsamningum bankana um sölu heimila sinna til bankana.

Við skulum líka muna það að lög um gerð kaupleigu/leigu samninga eftir uppboð eru ekki komin í gegnum þingið þannig að banka sem leysir til sín eign ber engin skylda til að bjóða leigusamninga að neinu leyti.

Einnig skulum við hafa vel hugfast að í viljayfirlýsingu stjórnvalda vegna síðustu endurskoðunar AGS, kemur skýrt fram í 18. lið að EKKI eigi að gera neitt meira, að ÖLL úrræði séu nú þegar til staðar og að eftir okt. 2010 verði Það sem nú þegar er til staðar látið renna út í sandinn.

Búsáhaldabyltingin átti að skila okkur breytingum. En það gerðist ekki.

Rannsóknarskýrslan átti að skila breytingum. En það gerðist ekki.

Kæru landsmenn við verðum víst að viðurkenna þá staðreynd að það á EKKI að bjarga heimilum okkar, það á EKKI að breyta um hugsunarhátt og vinnubrögð, það á EKKI að hreinsa út úr flokkunum og axla ábyrgð.

Það á EKKI að gera NEITT.

Hvar eru pottarnir okkar og pönnurnar í dag? Ætlum VIÐ almenningur EKKI að berjast fyrir afkomu okkar og heimilum?

Það er ENGINN sem ætlar að gera það fyrir okkur og við verðum bara að gjöra svo vel að viðurkenna þá staðreynd og gera það sjálf.

 


mbl.is Heimili undir hamarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynnig framboða og málefna þeirra

Af hverju var einhver sem mætti á þennan kynningafund frá fjölmiðlum?

Fyrir nokkrum dögum síðan hélt annað framboð kynningafund á sínum málefnum og ekki mætti einn einasti fjölmiðill.

Þetta framboð er að vegum Frjálslynda flokksins og hefur unnið ötullega að málefna vinnu, endurskoðun og endurhugsun í sambandi við þjónustu borgarinnar á þeim tímum sem við lifum á núna.

Frjálslyndi flokkurinn hefur notið þeirrar sérstöðu eð detta út af þingi, sem betur fer, og getað á þeim 19 mánuðum sem nú eru liðnir frá hruni unnið mikið með grasrótinni og í hinum ýmsu hópum sem hafa verið að sinna málefnum líðandi stundar eftir hrun á Íslandi. Þarna er fólk sem hefur haft tækifæri  á að endurskoða hugmyndir sínar og hugmyndafræði síðan hrunið varð og taka málefnalega afstöðu til þeirra mála sem eru aðkallandi í dag.

Hver er munurinn á kynningarfundi Sjálfstæðisflokks og Frjálslynda flokksins? Eru þetta ekki báðir flokkar sem eru jafn mikið að bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga? Eru málefni annars flokksins eitthvað æðri málefnum hins flokksins ?

Þetta er með öllu óskiljanlegt. Það er það eina sem hægt er að segja um það.

Það er ekki nema vona að litlir flokkar og nýir flokkar eigi erfitt uppdráttar á Íslandi þegar ekki einu sinni fjölmiðlar, sem þó eiga að vera hlutlausi umfjöllunaraðilinn um þessi mál, gefa þeim ekki einu sinni 5 mínútur í kynningu á sínum málefnum.


mbl.is Skattar verði ekki hækkaðir í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband