Færsluflokkur: Bloggar

Hugrenningar, dagur 1

Kæra dagbók,

Mikið erum við nú glaðar að þingmenn og ráðherrar skulu fá afturvirka leiðréttingu á lækkun launa sem þeir tóku svo fórnfúslega á sig eftir hrun. Það er gott til þess að vita að aumingja greyin geti haldið jólin með öllum sínum hefðum, gjöfum og huggulegheitum.
Auðvitað hefur þessi tíma niðurskurðar komið herfilega niður á þessum mikilvægustu starfsmönnum landsins, sem auðvitað hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að standa vörð um velferð almennings, og eiga því þessa leiðréttingu skuldlaust.
Við hin, sauðsvartur heimtufrekur og óþekkur almúginn, höldum áfram að naga útnagaðar skjaldarrendurnar og bíta saman jöxlum sem lítið er eftir af, með fullan skilning á neyð ráðamanna okkar í þessu árferði enda hefur 66% hækkun matarkörfunnar síðan 2008 klárlega komið sér illa fyrir þá.

Það veitir okkur mikla gleði að vita til þess að í dag munu ráðamenn setjast niður með fjölskyldum sínum og gæða sér á skötu, kartöflum, floti og rúgbrauði að íslenskum sið. Við hin nögum bara skjaldarrendurnar áfram og okkar ráð til þeirra sem ekki geta leyft sér þessa hefð er að skokka út í næstu lágvöruverslun, kaupa ORA fiskibolludós og míga svo á innihaldið.

Með kærri jólakveðju til ykkar sauðsvarts almúgans frá skilningsríku frænkunum Ástu og Eyrúnu


Bréf vegna hól-ráðstefnu AGS 27.10.2011

Eftirfarandi bréf er ritað af hópi fólks sem hefur sett spurningamerki við efnahagslegan bata Íslands eftir hrunið og hvernig hann er settur fram af opinberum aðilum og AGS. Það var sent á eftirfarandi aðila á ensku:Joseph Stiglits, Willem Buiter, Poul Thomsen, Julie Kozack, Paul Krugman, Simon Johnson, Nemat Shafik og Martin Wolf en þetta eru erlendur sérfræðingarnir sem munu taka þátt í ráðstefnunni sem haldinn verður í Hörpunni n.k. fimmtudag undir yfirskriftinni: Iceland´s Recovery—Lessons and Challenges.

 

Reykjavík 23. október 2011

Kæri herra/frú

Tilefni þessara skrifa er það að þú ert meðal þeirra sem munu taka til máls á ráðstefnunni Iceland´s Recovery-Lessons and Challenges, sem haldin verður í Reykjavík 27. október næst komandi. Við undirrituð höfum áhyggjur af því að þú hafir aðeins fengið valdar upplýsingar um efnahagsástandið á Íslandi frá hérlendum stjórnvöldum. Við viljum því benda þér á mikilvægar viðbótarupplýsingar varðandi fjármál ríkis og sveitarfélaga, fjármálakerfið og stöðu almennings í landinu.

Almennt

Ljóst er að staðan í íslensku efnahagslífi er nokkuð önnur í dag en upphaflegar áætlanir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) gerðu ráð fyrir þegar þeir komu hér að málum í lok árs 2008. Þannig voru erlendar skuldir þjóðarbúsins nærri tvöfalt meiri í árslok 2010 en upphaflega var áætlað; skuldir hins opinbera eru meiri, atvinnuleysi er meira, verðbólga á árinu 2010 var meiri og svo virðist sem samdrátturinn í efnahagslífinu ætli að verða dýpri og vara lengur.

Ríkisfjármálin

Fyrir hrun skuldaði ríkissjóður 26% af VLF. Opinberar tölur yfir skuldir ríkisins eru 111% af VLF en heildarskuldir þjóðarbúsins eru hins vegar 280% af VLF. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs versnaði um 140 milljarða króna milli annars ársfjórðungs 2010 og 2011. Ef marka má þessar tölur þá er hægt að leiða að því líkum að íslenska ríkið hafi frá hruni tekið að láni fjárhæð sem nemur jafnvirði landsframleiðslu í eitt ár og þá eru lánin frá AGS ekki einu sinni talin með. Vaxtakostnaður ríkissjóðs af núverandi skuldabyrði er hátt í 20% af tekjum.

Sveitarfélög

Skuldir sveitarfélaganna og skuldbindingar voru 586 milljarðar um seinustu áramót. Ef skuldir Orkuveitu Reykjavíkur, sem eru vel á 300 milljarða, og 47 milljarða lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaganna eru frátaldar standa samanlagðar skuldir sveitarfélaganna í 310 milljörðum kr. sem er 20% af VLF og 154% af tekjum þeirra.

Fjármálakerfið

Kostnaður íslenska ríkisins við endurreisn bankakerfisins í kjölfar hrunsins haustið 2008 var 64% af VLF sem er heimsmet. Nýju bankarnir fengu lánasöfn gömlu bankanna á 45-65% af raunvirði þeirra. Þessi niðurfelling á milli gömlu og nýju bankanna hefur þó ekki skilað sér til almennings þar sem lánin eru rukkuð inn á nafnvirði þeirra. Afleiðingarnar eru mikill hagnaður bankanna sem byggir á því að þeir eru að eignast stóran hluta af öllum eignum íslenskra fyrirtækja og heimila.

Almenningur

Nú er svo komið að 20% heimila í landinu geta ekki borgað af lánum sínum og 40% eru í miklum erfiðleikum. Í raun eru það bara 10% sem geta greitt af húsnæðislánum með eðlilegum hætti.

Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa lækkað um 27,4% síðastliðin þrjú ár á meðan verðlag hefur hækkað um 40%. Af þessum ástæðum hefur neysla þjóðarinnar dregist saman. Á sama tíma hefur þörfin fyrir mataraðstoð margfaldast en engar opinberar tölur eru til yfir fjöldann. Það eru þó staðreyndir að biðraðirnar við hjálparstofnanir hafa lengst og fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna hefur aukist um 62% frá hruni.

Fram hefur komið í tölum ríkisskattstjóra að skuldir íslenskra fjölskyldna hafi vaxið meira en eignir en á síðasta ári rýrnuðu eignir í fyrsta skipti meira en skuldir. Fjölskyldum sem eiga meira en þær skulda hefur fækkað um 8,1% milli ára. Þeim sem voru með neikvæðan eignaskattstofn fjölgaði hins vegar um 12,1%.

Samkvæmt síðustu tölum Vinnumálastofnunar er atvinnuleysið 6,7%. Sú tala er hins vegar umtalsvert hærri þar sem markvisst er unnið að því að koma atvinnulausum í nám og margir hafa yfirgefið landið í leit að atvinnu og betri lífskjörum. Í þessu sambandi skiptir líka máli að hópur fólks sem er atvinnulaus en á ekki rétt á atvinnuleysisbótum skráir sig ekki atvinnulausa. Hvatinn til að skrá sig er ekki til staðar þar sem fólk fær engar bætur hvort sem er. Að lokum er rétt að benda á að samkvæmt tölum sem hafa verið í opinberri umræðu má ráða að störfum á Íslandi hafi fækkað um 22.500 sem er u.þ.b. 8,2% af skráðu vinnuafli árið 2010.

Niðurstaðan

Meginástæða hrunsins var ofvaxið bankakerfi. Það orkar því mjög undarlega á almenning að horfa upp á þá ofuráherslu sem stjórnvöld leggja á endurreisn þessa sama kerfis í stað þess að byggja upp raunhagvöxt samfélagsins. Byrðum fjármálakreppunnar hefur fyrst og fremst verið dreift á skuldsett heimili. Ríkisstjórnin hefur markvisst unnið gegn almennri leiðréttingu lána og innleitt sértæk skuldaúrræði sem gefa bönkunum sjálfdæmi varðandi það hverjir fá leiðréttingu og hversu mikla. Flest ef ekki öll úrræði við skuldavanda heimila og smærri fyrirtækja hafa miðast við að viðhalda greiðsluvilja.

 

Þessi afstaða ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð bankanna hafa skapað aukna misskiptingu. Landsmenn horfa upp á að það er verið að afskrifa skuldir þeirra sem ullu hruninu. Þessir halda líka fyrirtækjum sínum og arði af ólöglegum fjármálagjörningum á sama tíma og almenningur er látinn sitja uppi með forsendubrestinn. Því er svo komið að óréttlætið ógnar félagslegum stöðugleika í landinu. Kjörnir fulltrúar fara eftir kröfum fjármálaaflanna á kostnað hagsmuna almennings.

 

Íslenska bankakerfið hefur sett skuldir sínar yfir á almenning eins og gert hefur verið í Grikklandi, Írlandi, Portúgal og víðar. Ísland sker sig því ekkert úr hvað það varðar að lýðræðið hefur orðið fórnarlamb bankaveldisins.

 

Virðingarfyllst,

Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna

Ásta Hafberg, viðskiptafræðingur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, fyrrverandi garðyrkjustjóri

Elínborg K. Kristjánsdóttir, fyrrverandi blaðamaður

Elías Pétursson, framkvæmdastjóri/háskólastúdent

Eyjólfur Kolbeinn Eyjólfsson, hugbúnaðarsérfræðingur

Björg Sigurðardóttir, fyrrverandi bankastarfsmaður

Björk Sigurgeirsdóttir, ráðgjafi

Guðbjörn Jónsson, ráðgjafi kominn á eftirlaun

Guðmundur Ásgeirsson, kerfisfræðingur

Guðrún Skúladóttir, sjúkraliði

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir

Helga Garðarsdóttir, ferðamálafræðingur

Helga Þórðardóttir, kennari

Indriði Helgason, rafvirki

Jakobína I. Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur

Rakel Sigurgeirsdóttir, íslenskukennari

Sigurjón Þórðarson, líffræðingur

Sigurlaug Ragnarsdóttir, listfræðingur

Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir

Þórarinn Einarsson, aktívisti

Þórður Á. Magnússon, framkvæmdarstjóri

Afrit sent á erlenda og innlenda fjölmiðla svo og ráðherrana þrjá sem eru í gestgjafahlutverkinu á ráðstefnunni: Iceland´s Recovery-Lessons and Challenges sem haldinn verður í Hörpunni n.k. fimmtudag eða þ. 27. október

 

  


Um hvað snýst gjáin?

Við höfum öll heyrt og talað um gjánna á milli þings og þjóðar og hvernig hún virðist bara breikka og breikka.
Við tölum um að þau skilji ekki hvað almenningur sé að vilja með því að standa og mótmæla fyrir utan alþingishúsið trekk í trekk. Þau tala sjálf um að þau skilji það ekki og fara beint í flokkstúlkanir á því hvers vegna við stöndum þarna.
Ég hef sjálf verið að hugsa mikið um það undanfarið. Um hvað snýst þessi gjá og getum við brúað hana.
Að mínu mati er hún tvískipt. Í fyrsta lagi snýst hún um að ákvarðanir inn á þingi eru illa að þjóna hagsmunum almennings á þessum samdráttartímum. Svo virðist sem að tölur þær sem þingmenn eru að vinna eftir séu allt aðrar en við sem búum út í þjóðfélaginu erum að spila með til framfærslu bara til að taka dæmi. Samkvæmt línuritum sjáum við að hér allt á uppleið, en ég hitti fáa sem virkilega finna fyrir því að svo sé. Við höfum horft upp á niðurskurð og skattaækkanir á aðra höndina og svo undarlegar ákvarðanir eins og hátæknisjúkrahús meðan að sjúkrahúskerfið er skorið niður í ekki neitt. Sem sagt það er ekki neitt rökrétt samhengi sýnilegt í því sem er verið að gera.

Á hinn bóginn snýst þessi gjá meira og meira um það að eftir hrun varð viss hugarfarsbreyting hjá almenningi. Hún kom ekki strax en hefur verið að fæðast í rólegheitunum og er farin að taka á sig skýrari mynd.

Sú hugarfarsbreyting hefur gert það að verkum að erfitt hefur verið að skilgreina hverju er verið að mótmæla undanfarið. Málið er nefninlega það að í samfélaginu eru hugmyndir á sveimi um breytt kerfi hvað varðar stjórnsýslu og fjármálakerfi. Þær fæðast ekki fullmótaðar heldur sveima um og taka breytingum eftir því sem við höldum áfram að tala um þær.
Við héldum líklega flest öll að þegar að ný stjórn tók við yrði eitt af hennar verkum einmitt að gera kerfisbreytingar. Breytingar sem myndu setja bönd á bankana, gefa almenningi beinna lýðræði og stokka upp í stjórnsýslunni. Þetta gerðist ekki og þar með hefur almenningur fengið að þróa þessa hugmyndafræði í friði og spekt í næstum 3 ár.
Það eru til hugmyndir um breytt fjármálakerfi.
Það eru til hugmyndir um hvernig við eflum lýðræði og gefum almenningi meira vægi í þeim málum. Það eru til hugmyndir um hvernig við breytum stjórnsýslunni.
Það er eðlilegt að samfélagið standi á krossgötum og sé að þreifa sig áfram um það hvernig eigi að byggja upp þetta Nýja Ísland sem við töluðum svo mikið um.
Ég tel að ef þingmenn gæfu sér tíma til að hlusta og lesa eitthvað af þeim ótalmörgu bréfum sem þeir fá send færu þeir að skynja hvað það er sem er að gerjast í samfélaginu.
Ég vil endilega heyra ykkar skoðun á þessum hlutum og ykkar hugmyndir. Ég vil einnig benda ykkur á að verið er að opna Grasrótarmiðstöð þar sem við munum efla umræðuna um hvað það er sem er hægt að gera og hvernig.
Sjá hér: www.facebook.com/pages/Grasr%C3%B3tarmi%C3%B0st%C3%B6%C3%B0in/161862977231521


Hvaða kosti hefur þjóðin ?

Nú er ég búin að fylgjast með þjóðfélagsmálum dag og nótt í næstum 3 ár og á þeim tíma hef ég að sjálfsögðu velt fyrir mér hvaða kosti íslenska þjóðin hefur til þess að snúa við stjórnar og efnahagskreppu landsins.
Þjóðinni hlýtur að vera orðið ljóst að því miður er fjórflokkurinn of tengdur inn í eiginhagsmuni fjármálkerfis og viðskiptalífs til þess að vera megnugur að breyta núverandi aðstæðum almenningi í vil.
Undanfarið hef ég hoggið eftir því í samtölum við fólk að ef það er spurt hvort að það haldi að hægt sé að leysa stjórnarkreppuna með kosningum, kemur hik og tjaa hmmm svar frá viðkomandi.
Ég hef sjálf hugsað mikið um það hvaða kosti þjóðin hefur og hvað hún getur farið fram eða gert til að snúa aðstæðum við.
Niðurstaða mín er sú að við höfum 3 kosti sem mögulega samkvæmt stjórnarskrá og hefð.
Sá fyrsti er að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga. Við vitum hvað við höfðum, hvað við fengum í staðinn og að munurinn þarna á milli er ekki stórvægilegur. Sem sagt ef við kjósum í dag fáum við bara sama grautinn með sömu flokkunum og kannski áherslumun.
Kostur 2 er að mynda þjóðsstórn, sem þýðir að allir flokkar sem sitja inn á þingi í dag sitji jafnt við stjórnvölinn. Miðað við núverandi aðstæður tel ég að sandkassaleikur sá er átt hefur sér stað í þinginu myndi aukast um helming.
3.möguleikinn er að krefjast utanþings/neyðarsstjórnar. Sú stjórn er skipuð samkvæmt hefð og stjórnarskrá af forseta Íslands. Til þess að slík stjórn fengi lýðræðislegt brautargengi er hægt að krefjast þess að hún fái ekki starfsleyfi nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún er skipuð til takmarkaðs tíma og tekur á afmörkuðum málefnum. Kosturinn við slíka stjórn er að hana má skipa óháðum, ópólitískum aðilum, sérfræðingum sem taka á afmörkuðum málaflokkum. S.s. atvinnuuppbyggingu, lánmálum heimilanna og efnahagsstjórn svo einhver dæmi séu tekin.
Á núverandi punkti í sögu landsins tel ég að við sem þjóð þurfum að byrja með hreint borð, á núllpunkti. Svolítið eins og að taka við fyrirtæki sem er að fara í gjaldþrot og snúa því til betri vegar.
Okkur skortir ekki fólk með menntun og almenna reynslu til að byggja grunninn að þessu Nýja Íslandi sem við vorum alltaf að tala um.
Það er orðið fullreynt og hefur ekki virkað með stóran hluta af því fólki sem situr á þingi í dag. Andrúmsloftið á þinginu virðist einkennast af niðurrifi og neikvæðni og er stór hluti þingmanna smitaður af því. Af þessum orsökum virðist þingið ekki geta starfað eins og gerist á eðlilegum vinnustöðum. Þar með tel ég að kostur 1 og kostur 2 séu ekki fýsilegir.
Ég ætla að hvetja fólk til að kynna sér þá möguleika sem við höfum í stöðunni því það er orðið ljóst að við verðum að snúa þessu við áður en allt endi í blóðugri byltingu.

Þetta gerum við á morgunn

Nú mótmæla Spánverjar um allan heim sama óréttlæti og við búum við. Það verður mótmælt meðal annars í Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi, Noregi, Danmörku , Spáni og Írlandi. Hvernig væri að Íslendingar finndu hjá sér sameiningar tilfinninguna og sýndu samstöðu ekki bara með Spánverjum heldur líka stöðu okkar sjálfra.
Ég ætla að mæta hvar verður þú?
http://www.facebook.com/event.php?eid=217041934981754
mbl.is Fögnuðu mótmælabanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki bara öryrkjar....

Það er hræðilegt til þess að hugsa að staða fólks í Norrænu velferðinni, hehemm,skuli þurfa að vera svona.
Það versta er að það eru ekki bara öryrkjar sem hafa það svona slæmt, heldur er staðan einnig svona hjá ellilífeyrisþegum, fólki með laun á lægri skalanum og námsmönnum.
Jóhanna og fleiri stjórnarliðar fóru miklum um kaupmáttaraukningu þessara hópa um daginn í þinginu. Hvernig aðgerðir stjórnvalda hefðu lækkað skatta og bætt kjör þessa fólks. Kannski hún hafi ekki gert sér grein fyrir að kjör þessara hópa voru orðin það lök fyrir að til þess að bæta kjör þarf mun meira að gerast.
Ég get allavega með stolti sagt að ég er námsmaður með 5 börn og er á námsláni, sem ég nota bene mun borga til baka til þjóðfélagsins það sem eftir er ævinnar, og við erum á mörkum þess að lifa af.
Helst vildi ég sjá þessa hópa standa saman og standa upp, krefjast mannsæmandi lífs fyrir sig og sína.
Því ef svona heldur áfram mun ég flytja úr landi með börnin mín og finna mér mannsæmandi líf í norrænu velferðakerfi sem virkar.Það er miður því hér langar mig að vera og lifa, en ef börnin mín fá ekki mat, þá hef ég ekki val um neitt annað.

mbl.is Hvorki efni á mat né bensíni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið bréf til alþingismanna og ráðherra

Reykjavík 05.04 2011

 

Ó-kæri ráðherra/þingmaður

 

Við undirritaðar erum sjálfstæðar, einstæðar, ákveðnar mæður/námsmenn. Staða okkar er í grunnin ekki ólík, erum báðar í fullu námi, á námslánum, eigum beyglaða gamla bíla með engum lánum (oftast bensínlausir reyndar) og eigum sjö börn samanlagt. En ekki nóg með það, heldur erum við einnig frænkur, aldar upp af enn sjálfstæðari, einstæðum mæðrum sem veifuðu brjóstahöldurunum sínum og kyrjuðu rauðsokkusöngva fram á nótt. Í stuttu máli sagt erum við aldar upp við að taka ábyrgð á okkur sjálfum og okkar, vera sjálfstæðar og standa og falla með því sem við gerum. Okkur var einnig kennt að skulda eins lítið og hægt er, lifa ekki á lánum, borga skuldirnar okkar og almennt vera ábyrgar í fjármálum.

Nú er staðan þannig að við erum nákvæmlega eins og við vorum fyrir hrun en í dag er okkur orðið illmögulegt að halda því áfram þar sem að endinn sem áður náði saman er orðin að garnaflækju sem endar hvergi.

Ástæðan fyrir því að við skrifum þetta bréf er sú að við undrum okkur á aðgerðum ríkisvaldsins hvað varðar grunnneyslu almennings svo sem mat, bensíni, tannlæknakostnaði og ýmsu fleiru sem til fellur í barnafjölskyldum. Staðan er orðin sú að ekki má gera ráð fyrir nauðsynlegum aukaútgjöldum t.d. kaupum á íþróttaskóm, gleraugum eða klippingu nema því sé deilt á alla mánuði ársins því annars er peningurinn búinn fyrir miðjan mánuð.

Við sjáum miklar breytingar á kostnaði við heimilishald síðustu mánuði. Fjárhagsleg staða okkar hefur ekki breyst síðasta árið og fyrir hálfu ári síðan náðu endar saman í hverjum mánuði en í síðasta mánuði var bankabókin tóm í kringum 20. mars. Við höfum farið þá leið að spara við okkur allt sem hægt er að spara og því miður þýðir það t.d. að matarvenjur barnanna okkar eru nú töluvert aðrar en áður var.

Eftirfarandi eru útgjaldarliðir sem við getum ekki klofið við núverandi aðstæður:

  • Ávaxtaskálin fer að enda í appelsínum á jólunum en banana alla hina dagana þar sem að aðrir ávextir svo sem vínber, plómur, ananas og melónur hafa hækkað um meira en helming. Sömu sögu má segja um grænmeti þó að staðan þar sé aðeins skárri.

  • Meira er keypt af unnum, ódýrum mat sem er miður þar sem heilbrigði helst í hendur við hollar matarvenjur.

  • Önnur afleiðing af ódýru, óhollu mataræði eru tannskemmdir sem er ekki í frásögu færandi nema af því að við höfum ekki efni á því að fara með börnin til tannlæknis.
  • Líka gaman að segja frá því að þó að barni vanti gleraugu og vegna sjónskekkju verði að fara til augnlæknis þá höfum við ekki heldur efni á því.
  • Guð hjálpi íþróttaforeldrum þar sem íþróttaskór kosta jafn mikið og mánaðarleg afborgun af litlu bankaláni. Framtíðarhandboltahetjur Íslands munu væntanlega spila berfættir því að foreldrarnir gátu aldrei keypt skó.
  • Einnig er eins gott að engin börn þurfi innlegg, göngugreiningu eða annað sem krefst sérfræðiþjónustu. Vonum bara að allir eignist fullkomin börn með beinar tennur, 100% sjón og jafn langar lappir.

 

Við erum alveg tilbúnar að taka á okkur eðlilegar álögur til að rétta þjóðfélagið af en ef hækkanir á mat, bensíni og öðrum nauðsynjum halda áfram í sama takt og hafa verið þá er engin leið fyrir okkur að lifa frá mánuði til mánaðar. Við undrum okkur á uppsetningu norræna velferðakerfisins á Íslandi sem virðist á óskiljanlegan hátt herða lífsskilyrði okkar...til muna!! Einnig getum við ekki annað en íhugað hvort að staðan sé ekki að verða sú að einstætt foreldri „neyðist" inn í sambúð með öðrum aðila þar sem að það er ljóst að endar ná ekki saman nema með tveimur fyrirvinnum.

Eins og þetta lítur út fyrir okkur í dag eru Íslendingar aftur á leið til hinna rómuðu torfkofa með sjálfsþurftarbúskap, heimaprjónuðum fötum, pottaklippingu, grænmetisgarðs og þvingaðrar sambúðar þar sem að einn aðili getur ekki séð fyrir heimilishaldinu fjárhagslega.

Ó-kæri þingmaður/ráðherra, hvað leggur þú til að við gerum til að bæta stöðu okkar miðað við núverandi aðstæður?

 

Því miður með lítilli sem engri virðingu,

Ásta Hafberg og Eyrún Dögg Ingadóttir

           


Opið bréf til Strauss Kahn, framkvæmdastjóra AGS og Barossos, forseta Framkvæmdaráðs ESB

Að frumkvæði Gunnars Tómassonar, hagfræðings og fyrrverandi ráðgjafa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og fleiri Íslendinga var meðfylgjandi bréf sent til Dominiques Strauss-Khans, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og José Manuels Barrosos, forseta Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins. Bréfið var sent til þeirra í ljósi þess lykilshlutverks sem AGS og ESB skipuðu í nóvember 2008 þegar samningaviðræðurnar vegna Icesave hófust.

AGS setti  fram spár um efnahagshorfur Íslands og gengið var frá samkomulagi um að ef efnahagsþróun landsins yrði umtalsvert verri en þessar spár gerðu ráð fyrir þá gæti Ísland farið fram á viðræður við Bretland og Holland vegna þeirra þátta sem liggja til grundvallar frávikinu og um sjálft viðfangsefnið Icesave.

Nýlegt mat AGS á þróuninni 2009 til 2010 og spár fyrir 2011 til 2013 gefa mun verri mynd en fyrri spár.

Bréfritarar hafa áhyggjur af því að núverandi frumvarp um Icesave-samninginn, sem verður lagt fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl n.k., endurspegli ekki þessa neikvæðu þróun. Því fara bréfritarar þess á leit við AGS og ESB að þessar stofnanir„geri ítarlegt og sjálfstætt endurmat á skuldaþoli Íslands annars mun vanhugsuð úrlausn Icesave-málsins þröngva Íslandi í ósjálfbæra erlenda skuldagildru.“

 

Mr. Dominique Strauss-Kahn

Managing Director

International Monetary Fund

Washington, DC 20431

USA

Kæri, Mr. Strauss-Kahn.

Eftir hrun íslenska bankakerfisins í október 2008 féll verg landsframleiðsla (VLF) um 25% á næstu tveimur árum eða úr 17 millörðum bandaríkjadala niður í 12‚8 milljarða bandaríkjadala (USD). Ef spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um 14,8% vöxt vergrar landsframleiðslu næstu þrjú árin gengur eftir mun hún nema 14,7 milljörðum bandaríkjadala árið 2013 og vera 13% lægri en árið 2008.

Horfurnar eru aðeins skárri ef mið er tekið af vergri landsframleiðslu á stöðugu verðlagi í íslenskum krónum . AGS spáir að árið 2013 verði verg landsframleiðsla um 2-3% lakari en árið 2008 sem þýðir að hún verður 4-6% lægri en AGS spáði í nóvember 2008.

Með öðrum orðum þá eru efnahagshorfur Íslands umtalsvert lakari en gengið var út frá við gerð svokölluðu Brussels viðmiða fyrir ICESAVE samninga sem aðilar málsins samþykktu undir handleiðslu viðkomandi stofnunar Evrópusambandsins (ECOFIN) í nóvember 2008.

Jafnframt telur AGS að vergar erlendar skuldir Íslands í lok ársins 2009 hafi verið um 308% af vergri landsframleiðslu. Það þýðir nærri tvöfalt það 160% hlutfall sem sjóðurinn spáði í nóvember 2008. Í skýrslu AGS um Ísland, dagsettri 22. desember 2010, er því spáð að vergar erlendar skuldir Íslands muni nema 215% af vergri landsframleiðslu í árslok 2013 (sjá töflu 3, bls. 32 í umræddri skýrslu) eða liðlega tvöfalt það 101% hlutfall sem spáð var í nóvember 2008 (sjá töflu 2, bls. 27 í sama riti).

Vergar erlendar skuldir Íslands í lok 2009 voru langt umfram það 240% hlutfall  af vergri landsframleiðslu sem starfsmenn AGS mátu sem „augljóslega ósjálfbært" í skýrslu þeirra sem er dagsett 25. nóvember 2008 (sjá bls. 55 í þessari skýrslu).

Meginmarkmið þess samningaferils um ICESAVE sem hleypt var af stokkunum í nóvember 2008 var að tryggja uppgjör á flóknum málum sem viðkomandi aðilar, að meðtöldum ESB og AGS, voru einhuga um að leiða til farsællar lausnar samhliða endurreisn íslenska hagkerfisins. 

Við undirritaðir Íslendingar höfum verulegar áhyggjur af því að fyrirliggjandi drög að samkomulagi um ICESAVE samrýmist ekki þessu meginmarkmiði, og vísum í því sambandi til umsagna AGS um þróun og horfur varðandi innlendar hagstærðir og erlenda skuldastöðu Íslands hér að ofan.

 

Því förum við þess virðingarfyllst á leit við ESB og AGS að þessar stofnanir takist á hendur ítarlegt og sjálfstætt endurmat á skuldaþoli Íslands svo að vanhugsuð úrlausn ICESAVE-málsins þröngvi ekki Íslandi í ósjálfbæra erlenda skuldagildru.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur

 

Ásta Hafberg, háskólanemandi

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir

Helga Þórðardóttir, kennari

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna

Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari

Sigurjón Þórðarson, formaður Frálslynda flokksins

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar

Þórður Björn Sigurðsson, starfsmaður Hreyfingarinnar


Bréf til forseta ESB vegna Icesave

Íslandi 18.03 2011

Mr Herman Van Rompuy

European Council

Rue de la Loi 175

B-1048 Brussels

Kæri herra Van Rompuy

Haustið 2008 hrundi nánast allt íslenska bankakerfið (90%) á nokkrum dögum og þar með Landsbankinn og útibú hans í London og Amsterdam (Icesave-reikningarnir).

Samkvæmt grundvallarreglu EES samningsins virðist jafnréttishugtakið um jafna stöðu allra á markaði vera undirstaða alls samstarfs innan Evrópusambandsins.

Það kemur skýrt fram í 1. hluta samningsins um EES eins og hann birtist í íslenskum lögum nr. 2/1993 en þar segir svo í e. lið 2. töluliðar 1. gr: „að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum“ (Áhersluletur er bréfritara)

Þarna er beinlínis sagt að ein af grundvallarreglum EES samstarfsins sé að raska ekki samkeppni. Í ljósi þessa verður ekki betur séð en breskum og hollenskum stjórnvöldum hafi borið skylda til að sjá til þess að útibú Landsbanka, í London og Amsterdam, hefði fullgildar tryggingar innlána í Tryggingasjóðum innistæðueigenda í viðkomandi löndum.

Annað hefði verið mismunun á markaði annars vegar í óhag fjármagnseigenda en hins vegar til hagsbóta fyrir Landsbankann. Bretar og Hollendingar tóku Icesave einhliða úr eðlilegum farvegi réttarfars yfir í hið pólitíska umhverfi. Á þeim grundvelli krefja þeir íslenska skattgreiðendur af mikilli hörku um endurgreiðslu þeirra innlána sem tryggð áttu að vera í bresku og hollensku innistæðutryggingakerfi eins og EES reglurnar kveða skýrt á um.

Fyrstu viðbrögð íslenskra stjórnvalda voru að þau hefðu verið beitt ofríki og vildu því fara með málið fyrir dómstóla. Bretar og Hollendingar höfnuðu því en áður höfðu Bretar sett hryðjuverkalög á Ísland og Landsbankann. Bretar stöðvuðu í framhaldinu starfsemi Kaupþings-banka (Singer & Friedlander) í London og féll þá stærsta fjármálafyrirtæki Íslands.

Vegna harkalegra viðbragða Breta og Hollendinga lokaðist fyrir flæði fjármagns til og frá Íslandi. Með því voru ríkisfjármál Íslands tekin í gíslingu. Þess vegna urðu Íslendingar að samþykkja að semja um Icesave-skuldina til að fá aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Krafa AGS um þetta atriði kom fyrir samstilltan þrýsting Breta, Hollendinga og ESB-þjóðanna að gangast undir Icesave-kröfurnar.

Núverandi Icesave-samningar geta kostað okkur hálf fjárlög íslenska ríkisins. Ef neyðarlögin frá því í október 2008 verða dæmd ógild verða Icesave-kröfurnar tvöföld fjárlög ríkissjóðs. Íslenskur almenningur á erfitt með að sætta sig við að bera þessar byrðar vegna fjárglæfrastarfsemi einkabanka.

Byrðar sem í raun tilheyra tryggingasjóðum Breta og Hollendinga samkvæmt grunnreglum EES um jafna samkeppnisstöðu útibúa Landsbankans í þessum löndum við aðra banka á sama markaðssvæði.

Íslenska þjóðin mun kjósa um nýjasta Icesave-samninginn þann 9. apríl næst komandi. Við höfnuðum þeim síðasta. Þess vegna finnst okkur undirrituðum áríðandi að fá svör við eftirfarandi spurningum fyrir þann tíma.

1. Hvers virði eru þríhliða samningar (Icesave samningarnir) þar sem tveir aðilar samningsins hafna eðlilegri málsmeðferð og í krafti aðstöðu sinnar neyða þriðja aðilann að samningaborði til að fjalla um málefni sem allar líkur benda til að séu uppgjörsmál Landsbankans við innistæðutryggingakerfi Breta og Hollendinga?

2. Hvers vegna var Íslendingum meinað að verja sig fyrir þar til bærum dómstólum um réttmæti krafna Breta og Hollendinga haustið 2008?

3. Í ljósi þess að Landsbankinn varð að fara eftir breskum lögum hvers vegna var honum þá heimilað að taka við innlánum áður en bankinn var búinn að tryggja sig hjá breska innistæðutryggingasjóðnum?

3.1 Veitti það bankanum ekki óeðlilegt forskot á markaði að vera undanskilinn þeirri kröfu?

3.2 Var hagur breskra neytenda ekki fyrir borð borinn með því að leyfa Landsbankanum að tryggja sig með minni kostnaði en aðrir á markaði?

3.3 Ætlar ESB að láta Breta og Hollendinga komast upp með að brjóta grunnreglur EES samningsins um jafna stöðu fyrirtækja á sama markaði ?

4 Samrýmist það stefnu ESB að þegar einkabanki verður gjaldþrota myndist krafa á skattfé almennings?

5 Er innistæðutryggingakerfi einhvers Evrópulands nógu öflugt til að standa undir falli 90% af bankakerfinu í landi sínu?

6 Hver verða viðbrögð ESB ef íslenskur almenningur hafnar nýjustu Icesave samningunum þann 9. apríl n.k?

 

Virðingarfyllst og með ósk um góð svör  

Ásta Hafberg, háskólanemi

Baldvin Björgvinsson, raffræðingur / framhaldsskólakennari

Björn Þorri Viktorsson, hæstaréttarlögmaður

Elinborg K. Kristjánsdóttir, fyrrverandi blaðamaður, núverandi nemi

Elías Pétursson, fv. framkvæmdarstjóri

Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi

Guðmundur Ásgeirsson, kerfisfræðingur

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir

Haraldur Baldursson, tæknifræðingur

Helga Garðasdóttir, háskólanemi

Helga Þórðardóttir, kennari

Inga Björk Harðardóttir, kennari/myndlistakona

Karólína Einarsdóttir, líffræðingur og kennari

Kristbjörg Þórisdóttir, kandídatsnemi í sálfræði

Kristján Jóhann Matthíasson, fv sjómaður

Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju

Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari

Sigurjón Þórðarson, líffræðingur

Sigurlaug Ragnarsdóttir, listfræðingur

Steinar Immanúel Sörensson, hugmyndafræðingur

Þorsteinn Valur Baldvinsson Hjelm, eftirlitsmaður

Þórður Björn Sigurðsson, starfsmaður Hreyfingarinnar

Svör og eða spurningar skal senda til

Gunnars Skúla Ármannssonar, Seiðakvísl 7, 110 Reykjavík Ísland, gunnarsa@landspitali.is

Linkur á bréfið á ensku: http://www.irishleftreview.org/2011/03/22/4373/

 

Afrit sent til ýmissa ráðamanna ESB og EFTA, viðkomandi ráðuneyta Bretlands, Hollands og Íslands auk evrópskra fjölmiðla.


Opið bréf til Guðbjarts og Gylfa og svar Gylfa vegna neysluviðmiðsins

Þann 23. Febrúar var hópur fólks, þar á meðal ég,  sem sendi Guðabjarti og Gylfa fyrirspurn vegna hin nýreiknaða neysluviðmiðs. Ekkert svar hefur borist frá Guðbjarti en Gylfi hefur svarað og er svar hans birt í heild sinni neðst í þessari færslu. Hve mikið er hægt að nota það er spurning, en við munum halda áfram að spyrj aum þá hluti sem okkur finnst mikilvægir.

 Reykjavík 23. febrúar 2011 

Ágæti, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.

Viss hluti samlanda okkar þarf að lifa á lágmarkskjörum frá einum mánaðamótum til þeirra næstu. Til þessa hóps teljast: öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir, félagsbótaþegar og starfsmenn á lágmarkslaunatöxtum. Flestallir sem koma að ákvörðun um hversu mikið einstaklingar í þessum hópum hafa úr að spila hafa margfalt hærri tekjur og eru sökum þess illa búnir til að meta aðstæður skjólstæðinga sinna rétt.

Heildartekjur upp á 160 þúsund krónur á mánuði er staðreynd fyrir stóran hóp Íslendinga. Bæði rannsóknir þinna eigin starfsmanna, sérfræðinga og hyggjuvit meðalmannsins benda ótvírætt til þess að nánast ómögulegt sé að ná endum saman með fyrrnefndri upphæð.

Eftir umfangsmikla vinnu á vegum velferðarráðuneytisins var nýlega lögð fram ákaflega gagnleg skýrsla um neysluviðmið (Sjá hér). Hún er vel unnin í alla staði og gefur góða vísbendingu um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.Vegna þessarar skýrslu var sett upp reiknivél (Sjá hér) á vef ráðuneytisins.

Samkvæmt henni þarf einstaklingur í leiguíbúð 300.966 krónur í ráðstöfunarfé til þess að eiga fyrir nauðþurftum og öðru sem telst til mannréttinda eins og húsnæði og virkri þátttöku í samfélaginu.

Í ljósi alls þessa leitum við til þín með eftirfarandi spurningu: Hvernig myndir þú, ágæti Guðbjartur, ráðleggja fólki að ná endum saman með áðurnefndum hundrað og sextíuþúsund króna tekjum á mánuði?

Ráðleggingar þínar gætu orðið upphafið að bættri umræðu um núverandi vandamál þeirra einstaklinga sem glíma við þessa spurningu 12 sinnum á ári. 

Virðingarfyllst og með ósk um svör.

Ásta Hafberg

Björk Sigurgeirsdóttir

Gunnar Skúli Ármannsson

Elías Pétursson

Jón Lárusson

Kristbjörg Þórisdóttir

Ragnar Þór Ingólfsson

Rakel Sigurgeirsdóttir 

Bréf með sömu fyrirspurn sent á Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands.

Afrit sent á fjölmiðla. 

Reykjavík, 28.febrúar 2011 

Ágætu viðtakendur.

Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir bréfið og tek heilshugar undir mikilvægi þess að fram fari vönduð og góð umræða um stöðu þeirra hópa sem veikast standa í okkar samfélagi og með hvaða hætti við getum tryggt að allir landsmenn búi við mannsæmandi kjör og hafi tækifæri til virkrar samfélagþátttöku.

Umræðan um neysluviðmið og framfærsluþörf er flókin og vekur upp ýmsar áleitnar spurningar sem erfitt er að svara með algildum hætti, oftast er hér um að ræða huglægt og persónulegt mat manna sem seint verður óumdeilt. Skoðun mín hefur verið sú að rétt væri í þessu samhengi að horfa til alþjóðlegra mælikvarða og meta umfang vandans þannig að horft sé til þess hversu stór hluti þjóðarinnar hefur ráðstöfunartekjur sem eru lægri en gengur og gerist í því samfélagi sem um ræðir.

Evrópusambandið skilgreinir þann hóp sem er undir s.k. lágtekjumörkum sem þau heimili sem hafa lægri ráðstöfunartekjur en sem nema 60% af miðgildi ráðstöfunartekna. Í þessu flest tilraun til þess að bæði meta umfang fátæktar í samfélagi út frá tekjum fremur en að meta þörf fólks fyrir ýmsa neyslu og einnig setja fram skilgreint markmið fyrir bæði stjórnvöld og aðila vinnumarkaðar að vinna eftir við ákvörðun lægstu launa og bóta.   

Öllum má vera ljóst að þau heimili sem þurfa að framfleyta sér á bótum eða lágmarkslaunum búa mörg við kröpp kjör. Hér er fyrst og fremst um samfélagslegt viðfangsefni að ræða, sem snýst um það með hvaða hætti við skiptum þeim lífsgæðum sem þjóðin býr yfir.

Vissulega hefur verkalýðshreyfingin veigamikið hlutverk í þeim efnum í gegnum aðkomu sína að gerð kjarasamninga en pólitísk sýn og aðgerðir stjórnvalda í efnahags- og félagsmálum ráða hér úrslitaáhrifum um hvernig til tekst.

Verkalýðshreyfingin hefur í baráttu sinni lagt áherslu á að stjórnvöld nýti þá möguleika sem í skattkerfinu felast til þess að hafa áhrif á tekjuskiptingu í samfélaginu og tryggi með pólitískri stefnu sinni félagslegt jafnrétti á sem flestum sviðum s.s. í mennta- og heilbrigðismálum svo ekki sé talað um það sem snýr að velferð og uppvexti barna og ungmenna. Allt eru þetta þættir sem varða miklu möguleika fólks til virkni og velfarnaðar í nútíma samfélagi.  

Á síðustu árum hefur góð samstaða verið um það innan verkalýðshreyfingarinnar að leggja megin áherslu á að bæta kjör þeirra hópa sem lakast standa, þetta hefur endurspeglast í áherslum í kjarasamningum og í kröfum gagnvart stjórnvöldum. Samið hefur verið um hækkanir á lægstu laun talsvert umfram almennar launahækkanir og kröfur gerðar á stjórnvöld í tengslum við kjarasamninga um hækkun á bótum almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga auk þess sem rík áhersla hefur verið á að auka tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins m.a. í gegnum hækkun persónuafsláttar og hækkanir á barna- og húsnæðisbótum.

Í nýlegum samanburði á stöðu lægstu launa innan Evrópusambandsins kom í ljóst að Ísland er enn í hópi þeirra ríkja sem hafa hæst lágmarkslaun. Fyrir hrun krónunnar árið 2008, í kjölfar alvarlegustu hagstjórnarmistaka sem sögur fara af, var raungildi lægstu launa enn hærra og vorum við hæst í Evrópu.

Einnig kom fram í þessari könnun, að ef lægstu laun eru sett í hlutfall við meðallaun í viðkomandi löndum, var það hlutfallið hæst hér á landi. Þetta sýnir betur en nokkuð annað þann mikla árangur sem stefna verkalýðshreyfingarinnar um að hækka lægstu laun umfram almennar launahækkanir hefur skilað. Í yfirstandandi kjaraviðræðum er ljóst, að þrátt fyrir áherslu á að tryggja aukin kaupmátt með almennum launahækkunum, er uppi þessi sama áhersla á jöfnun kjara. Í síðasta kjarasamningi tókst okkur að tryggja óbreyttan kaupmátt lágtekjuhópanna þrátt fyrir mestu efnahagskreppu Íslandssögunnar.

Nú getum við byggt ofan á þann grunn og aukið kaupmátt lágtekjuhópanna þannig að við endurheimtum stöðu okkar í fremstu röð. 

Virðingarfyllst,

Gylfi Arnbjörnsson

Forseti Alþýðusambands Íslands   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband