Opið bréf til Guðbjarts og Gylfa og svar Gylfa vegna neysluviðmiðsins

Þann 23. Febrúar var hópur fólks, þar á meðal ég,  sem sendi Guðabjarti og Gylfa fyrirspurn vegna hin nýreiknaða neysluviðmiðs. Ekkert svar hefur borist frá Guðbjarti en Gylfi hefur svarað og er svar hans birt í heild sinni neðst í þessari færslu. Hve mikið er hægt að nota það er spurning, en við munum halda áfram að spyrj aum þá hluti sem okkur finnst mikilvægir.

 Reykjavík 23. febrúar 2011 

Ágæti, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.

Viss hluti samlanda okkar þarf að lifa á lágmarkskjörum frá einum mánaðamótum til þeirra næstu. Til þessa hóps teljast: öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir, félagsbótaþegar og starfsmenn á lágmarkslaunatöxtum. Flestallir sem koma að ákvörðun um hversu mikið einstaklingar í þessum hópum hafa úr að spila hafa margfalt hærri tekjur og eru sökum þess illa búnir til að meta aðstæður skjólstæðinga sinna rétt.

Heildartekjur upp á 160 þúsund krónur á mánuði er staðreynd fyrir stóran hóp Íslendinga. Bæði rannsóknir þinna eigin starfsmanna, sérfræðinga og hyggjuvit meðalmannsins benda ótvírætt til þess að nánast ómögulegt sé að ná endum saman með fyrrnefndri upphæð.

Eftir umfangsmikla vinnu á vegum velferðarráðuneytisins var nýlega lögð fram ákaflega gagnleg skýrsla um neysluviðmið (Sjá hér). Hún er vel unnin í alla staði og gefur góða vísbendingu um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.Vegna þessarar skýrslu var sett upp reiknivél (Sjá hér) á vef ráðuneytisins.

Samkvæmt henni þarf einstaklingur í leiguíbúð 300.966 krónur í ráðstöfunarfé til þess að eiga fyrir nauðþurftum og öðru sem telst til mannréttinda eins og húsnæði og virkri þátttöku í samfélaginu.

Í ljósi alls þessa leitum við til þín með eftirfarandi spurningu: Hvernig myndir þú, ágæti Guðbjartur, ráðleggja fólki að ná endum saman með áðurnefndum hundrað og sextíuþúsund króna tekjum á mánuði?

Ráðleggingar þínar gætu orðið upphafið að bættri umræðu um núverandi vandamál þeirra einstaklinga sem glíma við þessa spurningu 12 sinnum á ári. 

Virðingarfyllst og með ósk um svör.

Ásta Hafberg

Björk Sigurgeirsdóttir

Gunnar Skúli Ármannsson

Elías Pétursson

Jón Lárusson

Kristbjörg Þórisdóttir

Ragnar Þór Ingólfsson

Rakel Sigurgeirsdóttir 

Bréf með sömu fyrirspurn sent á Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands.

Afrit sent á fjölmiðla. 

Reykjavík, 28.febrúar 2011 

Ágætu viðtakendur.

Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir bréfið og tek heilshugar undir mikilvægi þess að fram fari vönduð og góð umræða um stöðu þeirra hópa sem veikast standa í okkar samfélagi og með hvaða hætti við getum tryggt að allir landsmenn búi við mannsæmandi kjör og hafi tækifæri til virkrar samfélagþátttöku.

Umræðan um neysluviðmið og framfærsluþörf er flókin og vekur upp ýmsar áleitnar spurningar sem erfitt er að svara með algildum hætti, oftast er hér um að ræða huglægt og persónulegt mat manna sem seint verður óumdeilt. Skoðun mín hefur verið sú að rétt væri í þessu samhengi að horfa til alþjóðlegra mælikvarða og meta umfang vandans þannig að horft sé til þess hversu stór hluti þjóðarinnar hefur ráðstöfunartekjur sem eru lægri en gengur og gerist í því samfélagi sem um ræðir.

Evrópusambandið skilgreinir þann hóp sem er undir s.k. lágtekjumörkum sem þau heimili sem hafa lægri ráðstöfunartekjur en sem nema 60% af miðgildi ráðstöfunartekna. Í þessu flest tilraun til þess að bæði meta umfang fátæktar í samfélagi út frá tekjum fremur en að meta þörf fólks fyrir ýmsa neyslu og einnig setja fram skilgreint markmið fyrir bæði stjórnvöld og aðila vinnumarkaðar að vinna eftir við ákvörðun lægstu launa og bóta.   

Öllum má vera ljóst að þau heimili sem þurfa að framfleyta sér á bótum eða lágmarkslaunum búa mörg við kröpp kjör. Hér er fyrst og fremst um samfélagslegt viðfangsefni að ræða, sem snýst um það með hvaða hætti við skiptum þeim lífsgæðum sem þjóðin býr yfir.

Vissulega hefur verkalýðshreyfingin veigamikið hlutverk í þeim efnum í gegnum aðkomu sína að gerð kjarasamninga en pólitísk sýn og aðgerðir stjórnvalda í efnahags- og félagsmálum ráða hér úrslitaáhrifum um hvernig til tekst.

Verkalýðshreyfingin hefur í baráttu sinni lagt áherslu á að stjórnvöld nýti þá möguleika sem í skattkerfinu felast til þess að hafa áhrif á tekjuskiptingu í samfélaginu og tryggi með pólitískri stefnu sinni félagslegt jafnrétti á sem flestum sviðum s.s. í mennta- og heilbrigðismálum svo ekki sé talað um það sem snýr að velferð og uppvexti barna og ungmenna. Allt eru þetta þættir sem varða miklu möguleika fólks til virkni og velfarnaðar í nútíma samfélagi.  

Á síðustu árum hefur góð samstaða verið um það innan verkalýðshreyfingarinnar að leggja megin áherslu á að bæta kjör þeirra hópa sem lakast standa, þetta hefur endurspeglast í áherslum í kjarasamningum og í kröfum gagnvart stjórnvöldum. Samið hefur verið um hækkanir á lægstu laun talsvert umfram almennar launahækkanir og kröfur gerðar á stjórnvöld í tengslum við kjarasamninga um hækkun á bótum almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga auk þess sem rík áhersla hefur verið á að auka tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins m.a. í gegnum hækkun persónuafsláttar og hækkanir á barna- og húsnæðisbótum.

Í nýlegum samanburði á stöðu lægstu launa innan Evrópusambandsins kom í ljóst að Ísland er enn í hópi þeirra ríkja sem hafa hæst lágmarkslaun. Fyrir hrun krónunnar árið 2008, í kjölfar alvarlegustu hagstjórnarmistaka sem sögur fara af, var raungildi lægstu launa enn hærra og vorum við hæst í Evrópu.

Einnig kom fram í þessari könnun, að ef lægstu laun eru sett í hlutfall við meðallaun í viðkomandi löndum, var það hlutfallið hæst hér á landi. Þetta sýnir betur en nokkuð annað þann mikla árangur sem stefna verkalýðshreyfingarinnar um að hækka lægstu laun umfram almennar launahækkanir hefur skilað. Í yfirstandandi kjaraviðræðum er ljóst, að þrátt fyrir áherslu á að tryggja aukin kaupmátt með almennum launahækkunum, er uppi þessi sama áhersla á jöfnun kjara. Í síðasta kjarasamningi tókst okkur að tryggja óbreyttan kaupmátt lágtekjuhópanna þrátt fyrir mestu efnahagskreppu Íslandssögunnar.

Nú getum við byggt ofan á þann grunn og aukið kaupmátt lágtekjuhópanna þannig að við endurheimtum stöðu okkar í fremstu röð. 

Virðingarfyllst,

Gylfi Arnbjörnsson

Forseti Alþýðusambands Íslands   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

FLott hjá ykkur. Innilega sammála þessu bréfi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.2.2011 kl. 08:32

2 identicon

heyr heyr

Anna Birna (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 08:44

3 identicon

Þetta er skelfilegt svar, annarsvegar kemur hann sér framhjá því að svara spurningunni beint og byrjar bara almennt að tala um það sem allir vita, að lágmarkslaun eru lág (ég tek eftir því að hvergi er talað um að þau séu of lág), svo færir hann sig yfir í það að segja að þau séu nú bara alveg ótrúlega góð!!!! Af því að verkalýðsforystan hafi STAÐIÐ SIG SVO VEL!!!

Hvað var hann að reykja og hvar get ég fengið svoleiðis???

Og þessi samanburður við Evrópusambandið, ég þoli ekki að sjá þessi dæmi þar sem svona yfirlýsingum er slett út í loftið án þess að lesandinn fái nokkrar upplýsingar um reikniaðferðirnar. Það er svo auðvelt að reikna út allskonar niðurstöður, dæmi um eina slíka er eldsneytisverð. Það má meðal annars halda því fram að eldsneyti kosti minna á Íslandi en á öllum hinum norðurlöndunum en þá er verið að nota það sem ég kýs að kalla "túristagengi" þ.e. reikna verðið beint yfir á genginu milli landanna. En ef farið er dýpra og skoðað hversu marga lítra þú færð fyrir kaupið þitt þá kemur t.d. í ljós að Norðmenn fá u.þ.b. tvisvar sinnum fleiri lítra fyrir lágmarkslaunin sín en íslendingar eða jafnvel enn meira. Hver er þá munurinn í verðinu?

Það er óþolandi að sjá æðstu forystuna í verkalýðshreyfingunni beinlínis halda því fram að við séum bara í fínustu málum, þökk sé þeim að sjálfsögðu þegar fjöldi manna hefur misst atvinnuna, heimilin sem fólk hefur verið að streða við að greiða á okurkjörum (þar er ég að tala um verðtrygginguna) og fólk flýr land í stórum stíl.

Það væri fróðlegt að sjá útreikningana sem þessir herrar eru alltaf að vísa í en enginn fær að sjá. Ætli fólkið sem á að reka okkar hag sé líka að reikna allt á túristagenginu?

Kveðja,

Barbara Ósk

Barbara Ósk Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 1.3.2011 kl. 17:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband