Áramótaávarp almúgans....

Nú árið er liðið í aldana skaut og nú fara allir hamförum í áramótaávörpum í fjölmiðlum. Við frænkubeibin ætlum auðvitað að leggja okkar af mörkum í að vegsama velferð og vegferð þjóðarinnar eins og okkar æðstu valdamenn og konur gera á þessari stundu.
Samkvæmt ávarpi forsætisráðherra erum við bara í góðum gír og málið er dautt. Við búum við gífurlegan jöfnuð og berum mikla virðingu fyrir hvort öðru. Hagvöxtur er á blússandi uppleið og við höfum ekki yfir neinu að kvarta.
Samkvæmt henni eigum við að gera allan fjandann sem er algerlega óskilgreindur með öllu.
Við frænkubeibin erum kannski með fæturnar aðeins meira plantaðar niður í hina íslensku almúgamold og höfum aðra upplifun af blússandi velferð hinnar íslensku þjóðar en forsætisráðherra vor.
Við til dæmis vitum, sem virðist hafa farið framhjá frú forsætisráðaherra, að hagvöxtur sýnir á engan hátt efnahagslega velferð eða lífsgæði almennings í landinu. Hagvöxtur er meðaltalsmælieining og er ekki lýsandi fyrir það hvernig heimilum landsins reiðir af fjárhagslega.
Ef við lítum yfir árið sem er að líða er staðreyndin sú að sama framfærsla endist skemur, bílinn er notaður eins lítið og hægt er, matarkarfan inniheldur algerar nauðsynjar og ekkert annað og allt sem hægt er að skera í burtu er skorið í burtu og nei þetta er ekki Steingrímur með niðurskurðarhnífinn heldur lýsing á heimilshaldinu heima hjá okkur.
Ef við horfum fram á árið sem er að koma er nokkuð ljóst að kreppan sem átti að byrja í október 2008 er að byrja núna með vorinu. Kreppunni var frestað með einskins nýtum úrræðum fyrir heimili landsins í formi frystingu lána, úttekt séreignalífeyrissparnaðar og 110% leiðinni. Núna eru mörg heimili búin að fullnýta þessi úrræði og raunveruleikinn mun blasa við eftir áramót.
Spurningin sem koma mun upp á mörgum heimilum mun verða þessi. "Hvort kaupi ég mat fyrir fjölskylduna mína eða borga lánin" Við erum ekki í vafa um hvað við myndum velja.
Samkvæmt velferðaráðuneytinu á einstæð móðir með 2 börn að vera með 438.000 á mánuði miðað við heildarútgjöld fjölskyldunnar. Gaman að segja frá því að þetta er ekki upphæðin sem hvorug okkar lifir af önnur með 2 börn og hin með 5.
Atvinnuleysisbætur og félagsmálabætur eru svo meira en helming lægri en þessi tala.
Við veltum alvarlega fyrir okkur hvar þessi mikli jöfnuður er sem að frú forsætisráðherra fór svo fögrum orðum um í ávarpi sínu.
Við getum þó sagt að við fögnum framtíðarsýn hennar um grænt hagkerfi, því við munum nýta okkur það með því að senda börnin okkar á beit á næsta græna tún ef fram heldur sem horfir. Einnig getum við farið að hanka upp í gömulum uppskriftum frá ömmu okkar um hundasúrusúpur og njóalgrauta og orðið allsvakalega in í þessum fræðum með því.
Ef satt skal segja skiljum við ekki meira en helminginn af allri velferð hinnar íslensku þjóðar sem fram kom í ávarpi forsætisráðherra.
Þess vegna ætlum við að ljúka færslunni á þessu lagi: http://www.youtube.com/watch?v=ITZZ6-qCYIE og mælum með því að frú forsætisráðherra taki reality chek göngu um hið íslenska þjóðfélag hið snarasta.
Lifið heil á beit í haga eða með njólagraut í potti ; )
Gleðilegt ár til ykkar allra frá Ástu og Eyrúnu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jamm eftir að hafa hlustað á þetta jarm í væmnisfullum forsætisráðherra velti ég fyrir mér á hvaða plánetu hún er? Ég sé ekki þetta góðæri eða jöfnuð og ef við erum svona frábær og allt í blússi af hverju þarf þá að troða okkur inn i ESB?

Þvílík veruleika firring og þvílíkt mærðarhjal sem enginn innistæða er fyrir. Og ofan á allt þetta ætlar Hreyfingin að lappa upp á þetta með óljósum loforðum frá ríkisstjórninni. Svei þeim, ég er búin að afskrifa þau fyrir fullt og allt. Ekki að ég hafi ætlað að kjósa þau, en ég sá í þeim ferskan vind sem skyndilega varð eins og viðrekstur með sinni fúlu lykt. Þau eru búin að vera eftir þetta.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.12.2011 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband