The Big sell Out á RÚV í kvöld

Ég vona að sem flestir hafi tekið sér tíma í að horfa á þennan mjög svo fræðandi þátt í kvöld. Þarna var farið í hnotskurn í það sem hlýtur að vera stefna AGS. Ekki get ég ímyndað mér að við sem þjóð fáum einhverja sérsamninga við þá þó að við virðumst halda að við séum alltaf í þeirri stöðu að fá eitthvað sér og öðruvísi en allir aðrir.

Mér þótti athyglisvert að AGS vildi ekki veita viðtal í þessum þætti, heldur sendi myndband í formi teiknimyndar, sem að mínu mati var svo hjákátlega asnalegt að ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Þar kom nú samt fram að stefnan er einkavæðing til framfara og nýsköpunar. Fyrir hvern spyr ég?

Eftir þennan þátt hvíla á mér svo margar spurningar og mér er ofboðið að öllu leyti. Er þetta það sem við erum að kalla yfir okkur? Ég veit að við álítum okkur ekki vera eins og Bólivía, Filipseyjar eða Suður Afríka en samt er fólkið í þessum löndum að tala um sömu hluti og við.

Vexti sem þarf að borga af AGS/ AB láninu út í hið óendanlega.

Niðurskurð í velferðarkerfinu.

Þetta eru ekki skuldir sem ég bjó til, af hverju þarf ég að borga þær.

Hvað verður um börnin mín í framtíðinni.

Ætli ein af spurningum okkar verði í framtíðinni, hversvegna er búið að einkavæða vatnið?

Þetta er hlutur sem við verðum virkilega að hugsa vel út í og af alvöru. Við getum ekki lengur á nokkurn hátt sem persónur í þessu þjóðfélagi leyft okkur að stinga höfðinu í sandinn og vona að þetta líði hjá. Það mun ekki gera það og að mínu mati eftir áhorf þáttarins, með því að fara AGS leiðina aldrei.

Við skulum muna það að við sem þjóð höfum staðið af okkur ýmislegt í gegnum tíðina, við skulum muna að við eigum mannauð og hugmyndir, við skulum muna að við eigum vel menntað fólk og fólk sem hefur þor og dug til að gera hluti. Við eigum nýtanlegar auðlindir og kunnum að mestu að nota þær.

Fyrir hvern erum við að gera hlutina, fyrir hvern erum við að fara í endurreisn á okkar efnahagslífi? Er það fyrir okkur sem þjóð eða alþjóðasamfélagið?

Hverjir eiga eftir að þurfa að búa hér í landinu? Við eða alþjóðasamfélagið?

Hverjir munum erfa þetta land? Börnin okkar eða alþjóðasamfélagið?

Ég mæli með því að fólk horfi á þennan hátt. Þetta er líklega það næsta sem við komumst í að fá uppgefið hvað samningurinn við AGS inniheldur, því ekki hafa stjórnvöld verið að kynna okkur hann í öllu gagnsæinu sem var prédikað hér fyrir kosningar.

Að öðru leyti er ég hreinlega orðlaus með öllu og sit með hjartað ofan í tám af hræðslu við það að við náum ekki að fara út úr þessum kröggum með þjóðarheill að farabroddi vegna þess að við tókum skyndiákvörðun um lán.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er reiður eftir að hafa séð þessa mynd. Lýsir vel græðginni í heiminum. Samsteypur hugsa bara um að sölsa undir sig eitthvað til að græða á . Skiptir ekki máli hvort það sé hermennska , vatn, rafmagn, heilbrigðisþjónusta eða samgöngur and so on. Bara að hægt sé að græða.
Fólkið skiptir ekki máli.

En eitt er víst að meðan að sjallarnir voru við völd hefði svona mynd aldrei komist í loftið. Hjá þeim hentar best að halda lýðnum heimskum og óupplýstum. Sem betur fer fengu Hannes Smárason, Bjarni Ármannsson og fleiri ekki orkuna upp í hendurnar. Það hefði verið disaster.

Auðlindir , Samfélags og heilbrigðisþjónusta, fjarskipti(net) og samgöngur(net) eiga að vera eign fólksins.

Man eftir einu sem lestarstarfsmaður sagði í myndinni. Til hvers voru þeir að einkavæða lestarkerfið. Ef ein lest stoppar þurfa hinar að bíða hvort eð er.

Snilld þeirra sem einkavæddu lestarkerfið var að selja það fólkinu. En fólkið átti lestarkerfið fyrir. Svo hvernig er hægt að selja eitthvað sem maður á hvort eð er ??? Sama gildir um allt sem var einkavætt á Íslandi. Bankarnir voru reyndar rændir frá fólkinu í landinu en það er önnur saga. Síminn var seldur sem fólkið átti ásamt ýmsu öðru. Síðan þegar allt hrynur, Þá virðist engin einkavæðing hafa átt sér stað vegna þess að almenningur borgar brúsann.

jonas (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 00:47

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég segi bara eftir það að horfa á fræðslumyndina -, Burt með AGS ekki seinna en strax!!!!  Það er viðbjóður hvernig hann starfar þessi Alþjóðagjaldeyrissjóður.  Við áttum Símann svo var hann einkavæddur!!!  Og hvað fleira??? ég man það ekki í augnablikinu

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.5.2009 kl. 00:59

3 identicon

Ég horfði á myndina og ég sit hérna alveg í losti. Við verðum að reka AGS úr landi og reyna að redda okkur sjálf. Við eigum að viðurkenna að við getum ekki borgað allar þessar skuldir upp í topp. Reyna að semja um það sem við treystum okkur að borga án þess að setja þjóðfélagið á hvolf. Látum ekki skrímsli eins og AGS eyðileggja allt fyrir okkur. Og við eigum ekki að einkavæða grunnþjónustuna, heilbrigðiskerfið, almenningssamgöngur, vatn raforku og dreifikerfi símans sem eru þjóðhagslega mikilvæg til að halda samfélaginu gangandi. Vona að sem flestir hafi horft á þessa mynd.

Ég vil þennan glæpasjóð AGS burt ekki seinna en strax.

Ína (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 01:25

4 identicon

HAfið þið einhverja hugmynd um hvernig ástandið var i löndunum áður en AGS kom? Þið vitið að það var ástæða að þeir komu. Löndin gátu ekki borgað skuldir sinar, a flestum stöðum voru politiskar krísur, spilling og ólýðræðislegir stjórnarhættir. Þott Ags hafi gert ýmislegt rangt þá eru þeir ekki alslæmir. Þeir fara inn í lönd þar sem er allt í rust, það ber að hafa í huga. 

Þessi heimildarþáttur var einn sá lélegasti sem ég hef séð. Ju, heilbrigðiskerfið var einkavætt i Filipseyjum og nær ekki til allra. EN hverjir voru það sem einkavæddu það og bjuggu ekki þannig um hlutina að allir gætu fengið aðgang að kerfinu. Var það ekki rikið ? ER það ekki rikið sem brast í því að setja á tryggingar fyrir alla. Það var auðvitað ekki minnst a heilbrigðiskerfið i Sviss en það þykir eitt það besta i heimi en þar er allt einkarekið en ríkið sér öllum fyrir tryggingum. Best að sleppa þvi. Ja, og sleppum að minnast á hvernig Bretland var statt fyrir Thather, en þa var það orðið eitt af fátækustu ríkjum Evrópu en komu ser aftur upp á hennar tima. 

Það sem skein i gegnum þessa mynd var ekki það að einkavæðing klikkaði heldur rikið. Aðal skylda rikisins er að gæta öryggi borgarana. I öllum þessum dæmum gerði rikið það ekki. Rikið setur leikreglur sem einkaaðilinn starfar eftir , einkaaðilinn reynir eðlilega að reyna að græða sem mest innan þess ramma, sem er eðlilegt. Það er ekki hlutverk einkaaðilans að veita ókeypis læknisþjónustu eða rafmagn heldur er það hlutverk rikisins að ganga i skugga um það að allir geti fengið lágmarks lifsviðurværi. Rikið getur t.d tryggt þá tekjuminnstu sérstaklega. Einkaðilinn reynir að hamarka afköst og getu sem skilar ser síðan út i samfélagið. Þessi þáttur setur fram  einfaldra mynd á flóknu malefni. Eg er ekki viss um að þeir sem bjuggu í Sovétríkjunum hafi liðið betur en þar sem einkavæðing hefur farið fram. Ísland varð ríkt á einkaframtakinu (sjávarútvegur á 20 öld). Ég gæti farið til Rússlands og tekið viðtöl við eitthvað fólk sem for illa ´´ut úr ríkiseinokun sett það i heimildarmynd og gert það voða dramatískt, tulka atvik eins og mér hentar(voða hentugt að kenna einkavæðinugu um lestarslys, sérstakleg þar sem lestarslys verða víst líka hja hinu opinbera, þvílík vittleysa og bull).

 En allavega, þetta var mesta drasl heimildarmynd sem ég hef séð og ég vona að þið takið þessa mynd ekki alvarlega.

Haraldur (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 01:49

5 identicon

Haraldur, þú ert nú bara að lýsa ástandinu hér á landi með fyrstu setningunum þínum. Við gátum ekki borgað skuldir okkar og hér hefur allskonar spilling viðgengist mjög lengi. Hér er allt í rúst ef þú hefur ekki tekið eftir því.

Mér finnst ahyglisvert hvernig þú tekur allt úr sambandi. Ríki sem eru komin í þá stöðu sem við erum komin í hafa ekkert mjög mikið val er það þegar kemur að því að einkavæða, það er ekki til peningur og einhvernveginn þarf að vera með þjónustu við almenning. Auðvitað er hægt að segja að filipseyingar hafi gert mistök í því að tryggja ekki alla borgara þegar einkavæðingin ríður yfir, en aftur á móti sástu líka hvernig almenni ríkisrekni spítalinn var. Illa búin tækjum og á fjársvelti.

Hvernig þér dettur í hug að taka Sviss inn í þetta skil ég engan veginn, forsendur þeirra fyrir sínu kerfi er allt annar en löndin í þættinum og okkar. Sviss er land með mjög langa bankasögu og hefur alla tíð verið land sem hefur með fjármuni sína og annara farið. Í reynd um það bil frá tímum krossfarana. Lífsskilyrði hafa verið allt önnur en hjá okkur sem höfum talið yfirdrátt sem eðlilegan hlut vegna aukaútgjalda um margra ára bil.

Auðvitað má setja spurningamerki við það hvort ríkið hafi ekki feilað all alvarlega þegar land er komið í þá stöðu sem við erum í núna. Ég held að engin sem hafi skrifað hér sé eitthvað á móti einkaframtakinu en forsendurnar verða að vera réttar og ekki sem val/ þvinga á ríki með allt niður um sig.

Ásta (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 07:29

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það stóð víst til að veinkavæða vatnið hérlendis líka.

Sigurður Þórðarson, 28.5.2009 kl. 12:16

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta er fjarskalega flott hugvekja hjá þér! Mér fannst sérstaklega góð ábendingin hjá þér í sambandi við teiknimyndina... fræðslumyndbandinu frá AGS! Ég vona svo sannarlega að margir hafi horft á myndina í gær og þori að taka afstöðu með lýðræðinu og sjálfstæðinu í kjölfarið.

Mig langar svo til að benda á að Haraldur hefur greinilega dreift þessu sama kommenti sem hann setur inn hér víðar. Mér sýnist það vera íbúi í Sviss sem svarar honum af þekkingu um hvernig kerfið virkar þar hjá Helgu Þórðardóttur.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.5.2009 kl. 15:00

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég sá því miður ekki þennan umrædda þátt en af lýsingum ykkar og annara þá kom þar fram sönnun alls þess sem ég hef haft sterkt á tilfinningunni allt frá fyrstu afskiptum þessa fyrirbæris af efnahagsmálum okkar.

Nú bíð ég þess bara að ríkisstjórnin kíki upp fyrir barmana á ESB vaskafatinu um stund og gefi sér tíma til að skoða afleiðingar- þó ekki nema væri þess lítilræðis að koma öllum fyrirtækjum þessa lands á hausinn með vaxtaokri.

Ég á frekar von á því að núna brosi einhverjir jöklabréfaeigendur eftir því að ná tangarhaldi á auðlindum okkar til skuldajöfnunar við fjárvana ríkissjóð.

Þökk sé einkavæddum bönkum okkar og ástsælum seðlabankastjóra sem kvaddi einn þeirra með 385 milljarða gjafabréfi í nafni þjóðarinnar.

Árni Gunnarsson, 28.5.2009 kl. 23:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband