Færsluflokkur: Bloggar

Engin áætlun og vitlaus endi

Þegar að við gengum til kosninga í apríl á síðasta ári, var engin okkar tilbúin til þess. Við vorum ennþá í sjokki yfir hruninu og það var auðvelt að selja kjósendum þá hugmynd að ESB myndi redda öllu hjá okkur á  Íslandi.

Okkur var lofað af Samfylkingunni að hér yrði strax stöðugleiki, krónan myndi styrkjast og alþjóða samfélagið myndi fá traust á okkur og aðstoða okkur út úr þessari krísu.

Fyrsta mál á dagskrá nýs þings var að sækja um aðild að ESB.

Ári seinna sitjum við ennþá með lítinn stöðugleika, króna hefur styrkst upp á síðkastið , en það er vegna þess að Evran hefur veikst á gjaldeyris mörkuðum og traust alþjóða samfélagsins var að vissu leyti alltaf á gráa svæðinu.

Skjaldborg heimilanna er ekki til staðar, fyrirtækin líða og hér er komin stjórnarkreppa ofan á allt hitt.

ESB umsókn var EKKI það sem íslensk þjóð þurfti sem fyrsta mál á dagskrá þings. Þetta er um það bil vanhugsaðasta ákvörðun sem hefur nokkurn tíma verið tekin og því miður virðist Samfylkingin sjálf ekki hafa kynnt sér ESB nógu vel til þess að hafa neitt málefnalegt um það að segja.

Auðvitað væri bara rökrétt að setja þetta strax í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við vitum nokkurn veginn hvað mun koma út úr samningaviðræðum. Við munum fá X langan tíma til að aðlaga OKKUR ESB  að öllu leyti og ekki öfugt. ESB aðlagar sig ekki að þjóðum.

Það er algerlega ónauðsynlegt að fara að eyða fullt af fjármagni í þessa aðild ef hún verður hvort eð er felld í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Talandi um að byrja á vitlausum enda og hafa enga raunhæfa áætlun fyrir land og þjóð.


mbl.is Ný stofnun kostar milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímaeyðsla á báða bóga

Ég man eftir því svona rétt um síðustu kosningar að hafa bloggað um að ESB umsókn og aðild myndi ekki "bjarga" ástandinu á Íslandi, og til þess að komast á réttan kjöl yrðum við að leggjast á eitt og vinna heimavinnuna okkar. Byggja upp okkar þjóðfélag og efnahag á eigin forsendum.

Ég stend ennþá fullkomlega við það. Ég tel að það hafi líka sýnt sig síðasta árið að ekkert af því sem átti að lagast við umsókn í ESB hafi gert það.

Ég tel það vera fásinnu að ætla í aðildarviðræður sem eru bæði kostnaðarsamar og erfiðar ofan í þá kreppu sem er á Íslandi. Þetta virkar svona eins og þegar fólk er að flytja til að fá breytingar í lífinu en gleymir því að það flytur með sjálft sig í farteskinu og það sjálft hefur ekki breyst. Þannig að vandamál sem voru til staðar áður en flutt var koma upp á yfirborðið skömmu eftir flutninga.

Við flýjum ekki vandamálin sem við stöndum frammi fyrir með því að ganga í ESB. Við lögum þau heldur ekki neitt, því VIÐ þurfum að breyta okkar þjóðfélagi og efnahag hér heimafyrir. Við þurfum að vinna saman og sem einn maður því annars gengur þetta bara ekki upp.

Þetta er líka tímaeyðsla fyrir ESB. Meirihluti þjóðarinnar vill ekki ganga í ESB. Hvers vegna ætti að vera að eyða púðri í aðildarviðræður sem verða að öllum líkindum felldar í þjóðaratkvæðagreiðslu? Þó er varnagli í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu því hún er jú bara ráðgefandi, svo í raun gætu stjórnvöld hundsað hana og samþykkt aðildina.

Að mínu mati alger tímaeyðsla miðað við ástandið í okkar þjóðfélagi í dag.

 


mbl.is Vilja aðildarviðræður þrátt fyrir Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikhús fáránleikans

Ég verð að segja að ég er hætt að skilja þetta rugl.

Hvernig er hægt að fara í kosningabaráttu um ESB samninginn? Þetta verður mjög einfalt, við munum fá samning í hendurnar þar sem okkar menn hafa samið um einhvern visst langan aðlögunartíma Íslands við reglugerðir og lög ESB.

Þetta mun svo liggja á borðinu og verður ekkert breytt. ESB hefur ekki fyrir vana að fara stórtækt útfyrir eða fram hjá sínum eigin reglum og lögum í samningagerð. Löndum sem sækja um gefst svo kostur á að aðlaga þau kerfi heimafyrir, sem samsvara ekki ESB reglum, að ESB reglum á mislöngum tíma.

Í okkar tilfelli er það mest megnis reglur í sambandi við landbúnað og sjávarútveg.

Kosningabarátta flokkana um þetta er bara steypa. Samningurinn er borðliggjandi, það þarf bara að upplýsa um hann og búið. Síðan á fólk bara að fá að taka upplýsta ákvörðun um þetta sjálft. Þetta er jafn bjánalegt og kosningabarátta um Icesave.

Það breytist ekkert þó að farið verði í kosningabaráttu, batnar ekki né versnar, vegna þess að what you see is what you get.

Svo er nú hálfgerð hneisa að biðja fólk um að vinsamlegast ekki nýta sér tjáningar og skoðunarfrelsi sitt.

Auðvitað á fólk að fá að viðra sína sjálfstæðu skoðun þó það sé í stjórn eða andstöðu. Aðeins með dialog og samvinnu komumst við áfram og að niðurstöðum. Við gerum að örugglega ekki ef við þegjum allt í hel og erum aldrei ósammála.

Það er hreint skömm að þessari hegðun flokkana svo ekki sé minna sagt.


mbl.is Tuktar þingmenn Vinstri Grænna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væntanlega, líklega, kannski

Og hvað ef það verður ekki gert? Hvað ef ákveðið verður að taka umsókn okkar ekki inn í viðræðnaferlið?

Ég er ekki að segja að svo verði en sé samt ekki akkurinn fyrir ESB að fá enn eitt efnahagslega illa stadda landið inn í sambandið. Kreppan í Grikklandi virðist vera alveg nóg fyrir ESB og hafa menn þar innanbúða ekki verið sammála um hvernig eigi að höndla það. Hvort styrkja eigi Grikki með fé frá ESB eða ekki.

Eitt virðist ESB þó geta verið sammála um og það er að Grikkir eigi ekki að fá lánað frá AGS. Það skil ég vel þar sem að saga þessa sjóðs hefur ekki sýnt fram á annað en lömuð velferðarkerfi, lægri laun og í alla staði niðurbrot velferðakerfis og einkavæðingar á öllum sviðum þegar lönd hafa ekki getað staðið í skilum.


mbl.is Umsókn Íslendinga rædd í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fæ hroll niður bakið

Bara orðið ÁHÆTTUFJÁRFESTIR og mér líður eins og ég þurfi að æla. Það er greinilegt alveg sama hvert horft er að þessir menn, sem fyrir hrun gerðu nákvæmlega sömu hluti og núna. Hafa bara ekkert lært.

Það virðist ekki skipta máli hvort það er hér á landi eða annars staðar.

Þeir léku sér á róló, skemmdu rólurnar og veltu rennibrautinni, en ætla samt að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Þeir munu gera nákvæmlega það sama aftur, þenja allt út þar til það springur.

Eins og litlir krakkar sem skilja ekki nei, þeir vilja fá og þá á það bara að vera svoleiðis.

Er ekki hægt að stoppa þetta fólk? Allt í lagi að fjárfesta og eyða peningunum sínum, ef maður á of mikið af þeim. En þá ætlast ég líka til sem almennur þegn í þessu landi að lagaramminn verði þannig að ég muni ALDREI aftur lenda í því að skuldir einkafyrirtækis verði mínar skuldir allt í einu.

 


mbl.is Ísland ekki brennimerkt segir áhættufjárfestir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræðan sem ég hélt á Austurvelli 13.02.10

Góðir Fundargestir,
Við reynum nú með öllum ráðum að vekja stjórnmálamenn af svefninum langa.
Það er ánægja að sjá ykkur öll hér og ég veit að landsbyggðin er með okkur í anda.
Þeir sem hafa flúið land eru líka með okkar í anda. Vita hvað við erum að takast á við.
Það er nú liðið rúmt ár frá hruni bankana og við erum ennþá að berjast fyrir heimilinum okkar og réttlátum lausnum.
Sú barátta ein og sér væri alveg nóg fyrir hvaða þjóð sem er.
Það er ekki nóg að við berjumst fyrir heimilum okkar.
Við erum líka að berjast við spillt stjórnmálakerfi spillingu banka fjármálafyrirtækja og viljaleysi þeirra í okkar málefnum.
Hvenær eigum við íslendingar að geta litið bjartan dag eftir þetta allt.
Lausnir stjórnvalda felast í því að afskrifa tugmilljarða skuldir útrásardólga og rétta þeim fyrirtæki sín AFTUR á silfurfati.
Á meðan er gengið hart að heimilum okkar og fólk borið út úr eignum sínum.
Fjölskyldur á Íslandi eru í upplausn.
Bankarnir heimta sitt og ráðamenn þegja þunnu hljóði.
Töfralasunir þeirra eru ónothæfar og lengja bara í hengingarólinni.
Það erum NEFNILEGA VIÐ…. sem eigum að borga ballið fyrir útrásardólga.
Hér virðist verðtrygging á lán vera náttúrulögmál.
Skuldir okkar hækka á meðan við sofum og við vöknum við OKURVEXTI DRÁTTARVEXTI OG HIMINHÁA STÝRIVEXTI.
Það er fokdýrt að anda að sér íslensku tæru fjallalofti.
Til að bæta gráu ofan á svart týndist Nýja Ísland í spillingarþokunni og hefur ekkert til þess spurst síðan.
Fullyrðingar um gegnsæi, réttlæti og allt upp á borðið eru farnar að skera í eyrun.
Réttlætið á Íslandi er bara til fyrir vissan hóp af fólki og gegnsæið er eins ógagnsætt og svartnætti.
Ráðleysi stjórnvalda er æpandi nú þegar þau væla í fjölmiðlum um að þau ráði ekki bönkunum.
Hver ræður þá bönkunum ?
Mánuðum saman hafa dunið yfir okkur fréttir af spillingu og siðleysi í fjármálakerfinu.
Nú síðast þær fréttir, að bankarnir hamist við að afskrifa tugmilljarða skuldir útrásardólga.
Að sömu menn og keyrðu allt í kaf fái fyrirtæki upp í hendurnar eins og enginn sé morgunndagurinn.
Á sama tíma á að kreista síðustu krónuna út úr hinum almenna launþega.
Hækkun skatta, niðurskurð velferðakerfis, atvinnuleysi og heimilismissi.
Þessi mynd er í besta falli verulega ógeðfelld og óréttlát.
Landflótti er ein af afleiðingum úrræðaleysis stjórnarmanna.
Hver á að borga ef við förum úr landi.
Einhver góður maður sagði að best væri að við færum öll úr landi og skildum ríkisstjórnina eftir.
Ég segi fara úr landi því flótti úr landi er eins og samasemmerki við aumingjaskap.
Sem það er ekki.
Að fara úr landi er vissulega valkostur fyrir marga.
Íslenskur almenningur er orðin dofinn af þessu öllu og flestir löngu komnir með upp í kok.
Stjórnvöld verða að fara í niðurfellingu skulda heimila.
Við sem ætlum að þrauka hér á landi eigum rétt á því að stjórnvöld síni vilja sinn í verki.
Að okkur sé gefinn kostur á því að halda heimilum okkar.
Að okkur sé sýnd virðing.
Virðing. Því það erum við sem erum að ala upp næstu kynslóð Íslendinga.
Það skrítið þjóðfélag þegar stjórnvöld HUNDSA ALMENNING.
Það er skrítið þjóðfélag þegar verkalýðsforystan er hætt að vinna fyrir okkur.
Það er skrítið þjóðfélag þar sem félagsleg áhrif kreppunnar eru hundsuð.
Og það er stórskrítið þjóðfélag þegar æðstu ráðamenn láta ekki svo lítið að tala við okkur.
En það eru líka stór tækifæri í hruninu.
Okkur var gefið tækifæri til að smíða réttlátara og heilbrigðara þjóðfélag úr rústum hrunsins.
Tækifæri til að endurskoða og endurskipuleggja stjórnarkerfið, fjármálakerfið og velferðakerfið.
Tækifæri til óhefðbundinna lausna.
Til þess þurfti kjark og þor.
Við gengum til kosninga með von um að svo yrði.
Það voru okkar stærstu mistök.

Ári síðar sitjum við ennþá uppi með kerfi og spillingu sem ætlar ekki að láta hnika sér.
Flokkarnir hafa brugðist okkur.
Þeir hafa sýnt og sannað að skotgrafir eru þeim mikilvægari en samvinna.
Þeir hafa sýnt að þeir eru tímaskekkja.
Verkalýðshreyfingin hefur brugðist.
Hún hefur engann veginn staðið upp fyrir launþega.
Lausnir okkur til handa komu of seint og dugðu engan veginn.
Samt berja ráðamenn sér á brjóst og monta sig af aðgerðum í þágu heimilanna.
Bankarnir, ja þeir fá bara að gera hlutina á sama hátt og vanalega á okkar kostnað.
Þó það sé verið að dæma þá nú fyrir kolólöglega gjörninga.
Var þetta það sem við börðumst fyrir fyrir ári síðan?
Erum við virkilega bara viljalaus verkfæri í höndum óhæfra stjórnmálamanna, opinberra starfsmanna og spilltra útrásardólga ?
Hvernig ætlum við að lifa við þá staðreynd að nú er liðið eitt ár frá hruni og lítið sem ekkert hefur verið gert fyrir okkur sem þjóð.
Hvernig ætlum við að réttlæta það fyrir sjálfum okkur að hafa ráðið til starfa fólk sem ekki uppfyllir þær kröfur sem sem þarf til að endurreisa Ísland.
Hvernig ætlum við að réttlæta fyrir komandi kynslóðum að þegar Ísland brann til grunna leyfðum því að gerast.
Hver á þá að bjarga okkur ?
Það erum við sjálf sem verðum að gera það með góðu eða illu.
Við höfum engu að tapa.
Já góða fólk við verðum að taka ráðin í okkar hendur.
Því það er augljóst að ekki er tekið mark á okkur.
Það er okkar verk að moka flórinn.

Gjaldþrota hugmyndafræði

Það hefur sýnt sig að hin hefðbundna flokksstjórn ræður ekki við ástandið sem þarf að leiðrétta á fagmannlegan og skipulegan hátt.

Að mínu mati skiptir ekki neinu máli hver er í stjórn eða stjórnarandstöðu í dag svo lengi sem enginn samstaða næst um mikilvæg málefni í þjóðfélaginu í dag.

Mér finnst undarlegt að fólkið innan flokka sem komst á þing í apríl síðastliðnum skuli halda að það sé hægt að laga það sem fór miður í þjóðfélaginu án þess að taka breytingum sjálft. Það er skrýtið að það skuli ekki verið farið markvisst í SAMVINNU á milli allra flokka á þingi. Hver segir að stjórn og andstaða sé eina leiðin? Það hefur allavega sýnt sig að þetta er ekki leiðin sem er að virka í dag.

Persónulega óska ég eftir því að flokkarnir setji sjálfa sig í svona 5. sæti og þjóðina og hag hennar í öll sæti fyrir ofan það.

Ég óska eftir að fagmannleg vinnubrögð verði viðhöfð og hagur okkar sem verðum að bera byrðar þessa hruns hafður í fyrirrúmi.

Ég veit að það er borin von þar sem þetta stjórnsýslu kerfi virðist vera bæði blint og heyrnarlaust með öllu.

Í dag er von mín sú að hér verði stjórnarslit og upp úr því verði sett á þjóðstjórn eða einhverskonar neyðarstjórn. Ég var reyndar að vonast eftir því líka þegar búsáhaldabyltingin varð, en okkur þjóðinni var ekki gefin sá kostur, heldur vorum við keyrð inn í kosningar á tímapunkti þar sem flestir voru ennþá í sjokki eftir hrunið. Þar réðu að mínu mati framapot og hagsmunir þeirra flokka sem sáu sér færi á að komast í stjórn af því að hinir flokkarnir höfðu verið svo "vondir".

Þegar á að kjósa á milli pestar og kóleru skiptir litlu máli hvort maður fær. Það finnst mér vera staðan í dag. Það viðrist ekki skipta máli hvort stjórnin okkar er hægri eða vinstri sinnuð, þær eru um það bil jafn vanhæfar í því að takast á við vandann sem við stöndum frammi fyrir.

Að mínu mati er flokkakerfið í núverandi mynd barn síns tíma, úrelt og byggist á gjaldþrota hugmyndafræði.

 


mbl.is Biðla til Framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbýður með kaffinu

Á Íslandi getur maður vaknað á hverjum degi, hellt upp á kaffi opnað einhvern fréttavef og manni ofbýður.
Það hefur verið nýr leikvöllur í gangi fyrir stóra stráka sem fengu greinilega ekki lengur neitt kikk út úr að kaupa stóra jeppa. Leikvöllurinn þeirra var efnahagskerfi Íslands.
Fyrirgefið fólk en það er greinilegt að þeir verða ekki stoppaðir, dæmdir eða settir inn nema VIÐ þjóðin krefjumst þess. Hvernig væri nú að við færum að taka okkur saman í andlitinu og verja okkur sjálf.

Úrræði sem okkur eru boðin vegna leikja “strákana” með fjármálakerfið eru hjákátleg og á meðan valsa þeir um eins og ekkert hafi í skorist.
Nóg er nóg og mér finnst löngu vera komið meira en nóg.
Það eru ýmis þverpólitísk samtök sem starfa í þjóðfélaginu í dag sem eru að reyna að vekja stjórnvöld og ráðamenn. Kynnið ykkur þau, mætið á Austurvöll á laugardögum og látið í ykkur heyra.

Öðruvísi mun ekkert gerast. Við sem almenningur í þessu landi höfum ekki efni á að gera ekki neitt.


mbl.is Glitnir mokaði fé í Fons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta kemur okkur öllum við

Það sem er að gerast í þjóðfélaginu í dag skiptir okkur öll máli og kemur okkur öllum við. Sumir eru svo heppnir að vera ekki að missa húsnæði sitt eða bíl, en það fríar þá ekki í því að sýna samstöðu með þeim sem eru að missa allt sitt.

Flestir sem eru í vandræðum með lán sín í dag er venjulegt fólk sem gerði ekkert af sér annað en að borða, sofa og vinna. Flest þetta fólk var með lán sem það réði við, meira að segja með gengishækkun og annarri "eðlilegri" kjaraskerðingu sem hefði getað komið upp.

Það ráða fáir við þann algera forsendubrest sem hefur orðið eftir að allt hrundi. Það ráða fáir við að halda sínu á þurru eftir að gengið er orðið eins og það er.

Við þurfum kannski að fara að viðurkenna þá dapurlegu staðreynd, að núna, ári eftir hrun erum við almenningur í raun ennþá í sömu sporum. Úrræði sem okkur eru boðin af fjármálastofnunum eru ekkert annað en tímabundinn frestur og síðan áralöng lenging á hengingarólinni. Okkur eru boðin úrræði þar sem við, almenningur, tökum á okkur kjarabrestinn sem varð í hruninu um alla framtíð.

Á meðan eru afskrifir til hægri og vinstri fyrir réttu Jónana, fyrirtæki eru tekin yfir með hlutafé á brauðfótum og allt er þetta gert án þess að við lyftum fingri til að stoppa það. Dólgarnir sem komu landinu í þetta ástand valsa um í London eða Lux og lifa sínu lífi eins og ekkert hafi í skorist.

Við almenningur erum að horfa á leifarnar af velferðakerfinu okkar reitast í burtu. Það sem byrjaði, að okkur fannst, sem blóðugur niðurskurður á þessu ári, mun bara halda áfram næstu árin.

Hvernig getum við réttlætt fyrir sjálfum okkur að mæta ekki á svona fundi? Hvernig ætlum við að réttlæta fyrir sjálfum okkur að við stóðum ekki upp þegar við gátum það ? Hvernig ætlum við að réttlæta að við sýndum ekki samstöðu og gerðum það sem við gátum til að viðhalda velferðakerfinu og fá leiðréttingu á skuldum ?  

 

 


mbl.is 200-300 á útifundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki komið nóg?

Ég hef sagt það áður og segi enn. Það er ekki hægt að leysa vandamálin sem við stöndum frammi fyrir með sömu aðferðum og komu okkur í þau.

Þetta er alveg lýsandi dæmi fyrir hugmyndafræðilegt gjaldþrot þeirra sem eiga með þessi mál að fara. Það er eins og það sé verið að "láta" sem fjármálakerfið virki ennþá. Það er eins og við eigum að trúa því að allt sé bara ok í þeim málum.

Bankarnir bjóða fólki að breyta lánum sínum, en reikna þau út frá upphæð dagsins í dag. Þannig erum við búin að taka á okkur kjarabrestinn um ókomna tíð. Þar láta þeir eins og ekkert hafi gerst. Þegar kemur að útlánum aftur á móti þá er greinilegt að hér hefur orðið hrun.

Fyrirtæki eru tekin yfir og nýtt stofnfé lagt til sem er yfirleitt einhver hluti af öðru yfirskuldsettu fyrirtæki. Þetta er bara leikur að tölum og ekkert annað.

Svona vinnubrögð finnst mér vera óábyrg í meira lagi og ekkert annað.


mbl.is Veð í sundlaug stofnfé Sjóvár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband